Að undanförnu hafa verið miklar umræður um svokallaða línuívilnun. Síðast hlustaði ég á gagnrýni þess mæta manns Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, þar sem hann kenndi línuívilnunina þremur nafngreindum þingmönnum.
Það er ekki sanngjarnt. Lögfesting línuívilnunar er á ábyrgð stjórnarflokkanna. Og hún var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og rataði inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Loforð um línuívilnun
Sérstök ívilnun, sem felur í sér að auka aflaheimildir fyrir einn flokk útgerðar, hlaut að verða umdeild.
Spurt hefur verið hvers vegna var veitt loforð um línuívilnun? Og það er ástæða til þess að rifja upp hver er aðdragandi þess að lögum um stjórn fiskveiða var breytt til hagsbóta fyrir þá sem stunda línuútgerð. Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að ég er og hef verið stuðningsmaður aflamarkskerfisins af þeirri ástæðu að ég tel það skapa hagkvæmni og stöðugleika. Á því hafa þó verið gallar sem smátt og smátt hafa verið lagfærðir og því verki er ekki endanlega lokið þó engar kollsteypur megi verða líkt og stjórnarandstöðuflokkarnir boðuðu fyrir kosningar s.l. vor. Um afstöðu mína, til kvótakerfisins og nauðsynlegra breytinga á því, má lesa bæði hér á heimasíðu minni og í dagblöðum þann tíma sem ég hef setið á Alþingi. Sú grein sem ég vil einkum vitna til bar yfirskriftina „Hver er sáttaleiðin í sjávarútvegi?“ (PDF – 85KB). Ég tel þau sjónarmið mín, sem þar eru sett fram, enn í fullu gildi.
Aðdragandi kosninga og línuívilnun
Ritari þessa pistils hefur tekið þátt í kosningabaráttu sem frambjóðandi frá árinu 1982. Engar kosningar og aðdragandi þeirra hafa verið jafn harðvítugar og kosningarnar síðast liðið vor. Það sem mestu skipti í því sambandi í Norðvesturkjördæmi voru deilur um sjávarútvegsmál og þá nær eingöngu um lögin um stjórn fiskveiða. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það að Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin settu fram gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið sem snerti marga og fékk fólkið í landinu til þess að efast um réttmæti kerfisins. Það voru einungis blindir menn sem ekki sáu í hvað stefndi á hinum pólitíska vettvangi. Ég upplifði meiri umræður og meiri gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið en áður. Þær umræður fóru ekki einungis fram á bryggjum við sjómenn eða við fiskverkafólk. Fólk úr öllum stéttum setti fram harkalega gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið. Veik staða margra sjávarbyggða, byggðaröskun og flutningur aflaheimilda milli byggðarlaga, sem auðvitað verður aldrei hægt að komast hjá, varð tilefni til stöðugra árása á stjórnarflokkanna. Þessar deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið ógnuðu stöðu stjórnarflokkanna í aðdraganda kosninganna. Yfirboð og andstaða við kvótakerfið náðu eyrum mjög margra sem virtust tilbúnir til þess að hlusta á forystumenn Frjálslynda flokksins sem gerði flokkinn út á óánægju með kvótakerfið. Samfylkingin fór mjög í sama farið og náði á tímabili árangri með sína vitlausu fyrningarleið. Það var við þessar aðstæður sem umræðan um línuívilnun og fleiri breytingar á kerfinu hófst.Sjálfstæðismenn hafa forustu um breytingar á kvótakerfinu
Það hefur komið í hlut Sjálfstæðisflokksins að ganga til sátta um fiskveiðistjórnunarkerfið með endurbótum á því. Það gerðist einnig að þessu sinni og stefnan um línuívilnun í stað byggðakvóta var mörkuð á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Það er mitt mat að hóflegar viðbætur, sem línuívilnunin færir útgerðum, hafi leitt til þess að meiri sátt er um kerfið en annars hefði verið. Útvegsmenn og aðrir þeir, sem gera sér grein fyrir mikilvægi stöðugleika í sjávarútvegi, verða að sætta sig við þær breytingar sem sátt varð um. Það er besta tryggingin fyrir sjávarbyggðirnar og þá sem eiga allt sitt undir því að afkoma í sjávarútvegi verði sem mest og best. Það er skylda þingmanna og ráðherra að leita sátta, en hafa forystu um breytingar án þess að láta berast með straumnum. Þjóðin þarf staðfasta stjórnmálamenn sem skynja vel hvenær aðgerða og breytinga er þörf í þágu heildarhagsmuna. Það var gert með breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða þar sem veitt er sérstök takmörkuð línuívilnun. Þær breytingar eiga ekki að ógna stöðugleika eða heildarhagsmunum í sjávarútvegi. Gagnrýni útgerðarmanna innan LÍÚ, sem gera ekki út á línu, er skiljanleg en þeir aðilar verða að meta aðstæður í ljósi þeirrar stöðu sem uppi var á hinum pólitíska vettvangi. Landinu verður að stjórna með lögum og stjórnvaldsaðgerðum sem styðjast við vilja meirihluta Alþingis.