Samgönguráðherra skrifaði grein í Morgunblaðið s.l. sunnudag um málefni Reykjavíkurflugvallar. Grein ráðherra fer hér á eftir í heild sinni.
Borgarbúar kjósa um það næstkomandi laugardag hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eða vera eftir 15 ár. Ákvörðun borgaryfirvalda um að efna til þessarar atkvæðagreiðslu hefur vakið upp margar spurningar um framtíð innanlandsflugs hér á landi. Umræðan hefur einkum snúist um hlutverk og skyldur höfuðborgarinnar, skipulagsmál miðbæjarins og hvaða afleiðingar það hafi ef miðstöð innanlandsflugsins fer úr borginni.

En hvað sem líður niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar, er ljóst að miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á Reykjavíkurflugvelli og nánasta umhverfi hans á næstunni. Ráðist verður í uppbyggingu og endurbætur samkvæmt tillögum Flugmálastjórnar, sem unnið hefur verið að í framhaldi af samþykkt deiliskipulags fyrir flugvallarsvæðið. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að umfang flugstarfseminnar muni minnka, ein flugbraut verði lögð af og umhverfi vallarins fegrað.

Skipulag samþykkt

Endurbætur á Reykjavíkurflugvelli voru löngu tímabærar. Því var það fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti að leggja fjármuni til endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar.
Í kjölfar ákvörðunar Alþingis gerði ég sem samgönguráðherra samkomulag við borgarstjórinn í Reykjavík í júní 1999 þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur skyldi vera miðstöð innanlandsflugs samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem gildir til 2016. Jafnframt samþykktu borgaryfirvöld deiliskipulag fyrir flugvöllinn. Ákveðið var að draga úr umfangi snertilendinga og kennsluflugs á Reykjavíkurflugvelli og hefur það þegar verið gert að vissu marki.

Samkomulag mitt við borgarstjóra er lykillinn að þeim miklu endurbótum sem standa yfir á flugvallarsvæðinu samkvæmt deiliskipulagi og verður að verulegum hluta lokið á þessu ári. Með þeim framkvæmdum eykst landnýting í kringum völlinn og umhverfi hans mun taka miklum breytingum til bóta. Stefnt er að fegrun svæðisins og miklum umhverfisbótum við flugvöllinn. Nái áform okkar fram að ganga mun Reykjavíkurflugvöllur framtíðarinnar, sem borgarbúar kjósa um næstkomandi laugardag, ekki verða sá sami og við þekkjum nú.

Helstu breytingar

Mesta breytingin á flugvellinum er að norðaustur/suðvestur flugbrautin verður lögð niður. Með brotthvarfi hennar losnar að sunnanverðu talsvert land í Skerjafirði, sem hentað getur fyrir íbúðarbyggð. Við norðurenda brautarinnar losnar stórt landsvæði undir margvíslega atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir að þar geti skapast aðstaða fyrir atvinnurekstur með rúmlega þrjú þúsund starfsmenn.

Jafnframt gerir deiliskipulagið ráð fyrir því að öll flugstarfsemi á vellinum verði flutt á svæðið þar sem flugturninn, flugstjórnarmiðstöðin og Loftleiðahótelið eru nú, austan megin flugbrautanna. Við þetta losnar enn meira landrými Skerjafjarðarmegin, sem getur nýst fyrir íbúðarbyggð og starfsemi Háskóla Íslands eða aðra atvinnustarfsemi.

Mikilvæg uppbygging

Með þessum breytingum á skipulagi Reykjavíkurflugvallar er verið að slá tvær flugur í einu höggi. Annars vegar fær borgin verulegt landrými til uppbyggingar íbúða og atvinnustarfsemi. Hins vegar er ráðist í langþráðar endurbætur á flugvellinum og uppbyggingu miðstöðvar innanlandsflugsins sem ekki þolir bið.

Staðreyndin er sú að innanlandsflug er umfangsmeira en nokkru sinni fyrr. Stöðug aukning hefur verið í fjölda farþega í áætlunarflugi síðustu 30 árin. Á síðasta ári fóru 440 þúsund farþegar með áætlunarflugi um Reykjavíkurflugvöll. Ef sama þróun heldur áfram munu 700 til 800 þúsund farþegar fara um völlinn árið 2020. Núverandi flugstöð er löngu sprungin og því er tímabært að byggja nýja. Jafnframt hafa verið uppi hugmyndir um að tengja miðstöð áætlunarbifreiða nýju flugstöðinni, eins konar þjónustumiðstöð samgöngumála landsins. Hér er því um mikið og þarft samgöngumannvirki að ræða.

Fyrirséð er að flugumferð muni minnka verulega á næstu árum þótt farþegum á Reykjavíkurflugvelli fjölgi. Ástæðan er sú að stór hluti umferðarinnar, eða rúmur fjórðungur, er æfingaflug. Nú þegar hefur verið dregið úr slíku flugi og í samkomulagi mínu við borgarstjóra er ráðgert að æfingaflugið verði alfarið flutt yfir á aðra flugbraut í nágrenni höfuðborgarinnar. Þegar þar að kemur hefur flugumferð á Reykjavíkurflugvelli minnkað um nálægt 40% frá því hún náði hámarki árið 1998.

Umræðan um flugvöllinn

Undanfarna áratugi hefur umræða um flugvöllinn í Vatnsmýri blossað upp af og til. Sú umræða hefur einkum tengst umhverfis- og öryggismálum. Í núverandi umræðu er tekist á um nýjan flöt málsins – þörf borgarinnar fyrir nýtt byggingarland. Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar eru þar í fararbroddi og líta ekki lengur á veru flugvallarins sem samgöngumál heldur sem skipulagsmál í Reykjavík. Af þeirri ástæðu hefur aðeins Reykvíkingum verið boðið til atkvæðagreiðslu um það hvort flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni eða vera þar eftir 2016.

Borgaryfirvöld hafa lýst því afdráttarlaust yfir að ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýni stuðning við brotthvarf flugvallarins, verði strax tekið tillit til þess við alla skipulagsvinnu. Með öðrum orðum, sem minnst uppbygging flugstarfsemi verður leyfð á flugvallarsvæðinu. Ef af verður, er fyrirsjáanlegt að lítið verður úr áformum um endurbætur og uppbyggingu. Jafnframt er ljóst að áhugi stjórnvalda og einkaaðila til að ráðast í mannvirkjagerð vegna flugstarfseminnar mun dvína ef þetta verður raunin. Atkvæðagreiðslan næsta laugardag getur því haft mikil áhrif á það hvernig Reykjavíkurflugvöllur mun dafna og þróast í nánustu framtíð.

Fara hvert?

Að mörgu leyti eru borgarbúar settir í vanda þegar þeir ganga til kosninga um framtíð flugvallar í Vatnsmýri eftir árið 2016. Þeir geta kosið að láta flugvöllinn fara. En hvert á hann að fara? Við því hafa borgaryfirvöld ekkert svar.

Vissulega hafa borgaryfirvöld bent á ýmsa möguleika varðandi nýja staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs. En þegar nánar er að gáð hafa þessir kostir reynst óraunhæfir. Framan af reyndu borgaryfirvöld meira að segja í fúlustu alvöru að telja almenningi trú um að flugvöllur á Lönguskerjum væri raunverulegur valkostur. Smám saman rann þó upp fyrir þeim sá blákaldi veruleiki að sú staðsetning veldur gífurlegum umhverfisspjöllum, kostar á bilinu 15 til 19 milljarða króna og kallar á mikið flug yfir íbúðarbyggð. Meira að segja borgarstjóri sá sig loks knúna til að hafna þessari staðsetningu.

Nýr flugvöllur í Hvassahrauni á Reykjanesi hefur oftar verið nefndur sem arftaki Reykjavíkurflugvallar. Lögformlegur ráðgjafi samgönguráðherra í flugmálum, Flugráð, telur að flugvöllur í Hvassahrauni sé frá flugtæknilegu sjónarmiði langversti kosturinn. Veðurfarsleg rannsókn sem framkvæmd var á þessu svæði leiddi í ljós að gera mætti ráð fyrir 4% til 11% lakari nýtingu flugvallar þar en á Reykjavíkurflugvelli. Ástæðan er ókyrrð í lofti og hæð yfir sjávarmáli. Þetta er einfaldlega óviðunandi fyrir flugvöll sem þjónar 95% farþega í innanlandsflugi. Þá er ljóst að nálægð við Keflavíkurflugvöll mun valda gagnkvæmri truflun á flugi og ekkert réttlætir uppbyggingu og rekstur tveggja flugvalla nánast hlið við hlið.

Tveir raunhæfir valkostir

Af framansögðu er ljóst að þegar Reykvíkingar greiða atkvæði um flugvöllinn í Vatnsmýri, eru þeir að ákveða hvort miðstöð innanlandsflugs eigi að vera í Reykjavík eða Keflavík. Þetta eru einu raunhæfu kostirnir í stöðunni.

Keflavíkurflugvöllur er flugtæknilega jafnsettur Reykjavíkurflugvelli, stór og góður flugvöllur. Flutningur innanlandsflugsins þangað mundi hins vegar gjörbreyta forsendum þess sökum fjarlægðarinnar frá höfuðborginni. Því hefur verið spáð að samdráttur í áætlunarflugi gæti orðið allt að 40%. Talsmenn flugfélaganna leggjast hart gegn þeim áformum að færa innanlandsflugið til Keflavíkur.

Vilji borgarbúa og landsmanna allra er skýr

Staðsetning miðstöðvar innanlandsflugsins er annað og meira en skipulagsmál Reykjavíkurborgar. Það staðfestir nýleg umfangsmikil skoðanakönnun PricewaterhouseCoopers. Þar kemur fram að rúmlega 77% landsmanna telja að landsmenn allir eigi að fá að greiða atkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar en ekki Reykvíkingar einir.

Í sömu könnun var óskað eftir afstöðu til þess hvort fólk vildi hafa miðstöð innanlandsflugsins á Reykjavíkurflugvelli eða Keflavíkurflugvelli ef aðeins þeir tveir kostir kæmu til greina eftir 2016. Af þeim sem tóku afstöðu vildu 71% Reykjavíkurflugvöll. Þegar aðeins er skoðuð afstaða Reykvíkinga vildu 65% þeirra hafa völlinn á sínum stað frekar en í Keflavík.

Þessi könnun og aðrar sem gerðar hafa verið að undanförnu tala skýrum rómi. Þær staðfesta hvað það er mikilvægt fyrir landsmenn alla – og þar á meðal íbúa Reykjavíkur – að hafa miðstöð innanlandsflugsins þar sem hún er.

Besti kosturinn

Ég hef margsinnis ítrekað þá skoðun mína að aðrir kostir en endurbyggður Reykjavíkurflugvöllur eða flutningur miðstöðvar innanlandsflugs til Keflavíkur væru ekki raunhæfir. Jafnframt hef ég staðfastlega sagt að ég telji staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýrinni ótvírætt besta kostinn fyrir innanlandsflugið og ferðaþjónustuna í landinu.

Stærsti hluti áætlunarflugsins er vegna samskipta höfuðborgar og landsbyggðar. Flugið er fyrst og fremst almannasamgöngur. Þjóðhagslega er Reykjavíkurflugvöllur hagkvæmasta lausnin, eins og fram kom í úttekt Hagfræðistofnunar Háskólans. Staðsetning flugvallarins tryggir lægsta mögulegan ferðakostnað. Í Reykjavík eru hátæknisjúkrahúsin og benda má á að flogið er næstum daglega með sjúkt eða slasað fólk utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Í höfuðborginni er miðstöð stjórnsýslunnar og aðrar þær stofnanir sem þjóna landsmönnum öllum, þar á meðal á sviði menningar, mennta, íþrótta, ferðamála og fjármála. Flestir erlendir ferðamenn sem fljúga út á land fara frá Reykjavík. Ferðir þeirra stuðla að aukinni flugtíðni og þar með betri samgöngum.

Aldrei að segja aldrei

Þótt Reykvíkingar tryggi tilveru og þróun flugvallarins í atkvæðagreiðslunni næsta laugardag er þar með ekki sagt að hann verði í Vatnsmýrinni til eilífðar. Þróun í samgöngum og byggðaþróun getur breytt öllum þeim forsendum sem hér hafa verið nefndar. Vera má að samgöngutækni hafi tekið slíkum stakkaskiptum eftir 15 eða 25 ár að ekki verði lengur þörf fyrir flugvöll í Vatnsmýri. Um það vitum við ekkert í dag. En þangað til þurfum við á flugvellinum að halda. Það er óþarfi að ákveða núna að leggja niður flugvöll í Vatnsmýri árið 2016. Sú ákvörðun þýðir í raun að flugvöllurinn lamast að ófyrirsynju. Með því að ákveða að hafa flugvöllinn áfram er verið að tryggja svigrúm til að takast á við breyttar aðstæður í samgöngumálum. Það er skynsamlegasta ákvörðunin.

Ótímabært eða ekki?

Margir hafa komið að máli við mig og lýst vanþóknun á þeirri atkvæðagreiðslu sem borgarstjórn hefur boðað til. Viðkomandi hafa bent á hversu ótímabær og ómarktæk þessi atkvæðagreiðsla er.

Ég verð hins vegar horfast í augu við það að til atkvæðagreiðslunnar er boðað með löglegum hætti fyrir íbúa borgarinnar. En þessi nýbreytni í svokölluðu borgaralýðræði í höfuðborginni er stórgölluð. Vera má að umræður um málið hafi að mörgu leyti verið til góðs og að almenningur hafi myndað sér skoðun á því. Meinið er að enginn getur sagt fyrir um á þessari stundu hvað hentar best eftir 15 ár. Því hvet ég þá borgarbúa sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni að greiða atkvæði með veru flugvallar í Vatnsmýrinni eftir 2016. Þegar þar að kemur verður nægur tími til að meta stöðuna á nýjan leik.

Náum sáttum – öllum til góðs

Ég tel að með hugmyndum um breytt skipulag flugvallarins sé verulega komið til móts við áhuga borgaryfirvalda á auknu landrými í miðborginni. Jafnframt er hugað að nauðsynlegum endurbótum á flugvallarsvæðinu. En fyrst og fremst er verið að ná sátt um það að Reykjavíkurflugvöllur geti staðið undir hlutverki sínu enn um sinn. Markmiðið er að um flugvöllinn náist sátt milli borgarbúa og þess hluta þjóðarinnar sem býr utan borgarmarkanna og lítur á Reykjavík sem höfuðborg sína.

************
Í myndatextum með greininni sagði:
Í tillögum um breytt skipulag á Reykjavíkurflugvelli er gert ráð fyrir að á næstunni verði NA/SV brautin lögð niður og flugstarfsemi flutt á einn stað austan flugbrauta. Við það losnar umtalsvert byggingarland, jafnt fyrir íbúðarbyggð og almenna atvinnustarfsemi. Ennfremur eykst athafnarými í næsta nágrenni Háskóla Íslands og Landspítala.

Einnig var birt með greinni súlurit sem sýnir þróun lendinga frá 1995 til 2000- ásamt æfingaflugi (snertilendingum). Í myndatexta með því sagði: Flugumferð á Reykjavíkurflugvelli hefur minnkað verulega frá 1998, eftir að dregið var úr æfingaflugi. Áformað er að æfingaflugið fari alfarið á annan flugvöll í nágrenni höfuðborgarinnar og mun flugumferð þá minnka enn frekar. Heimild: Flugmálastjórn.

Þá var birt súlurit um fjölda flugfarþega frá 1970 (á 5 ára bili) og spá til 2020. Í myndatexta sagði:
Fjöldi farþega á Reykjavíkurflugvelli hefur að jafnaði aukist um 3,7% á ári frá 1970. Á síðasta ári fóru 440 þúsund farþegar um flugvöllinn. Þeir verða á bilinu 700-800 þús. eftir 20 ár miðað við spá um 3% aukningu á ári til jafnaðar. Heimild: Flugmálastjórn.

Birt var tafla sem sýnir sjúkraflug 1998, 1999 og 2000 og hlutfall þyrluflugs af því:
Sjúkraflug til Reykjavíkur

Ár Sjúkraflug Þar af með þyrlu
2000 315 komur 79 (25%)
1999 274 komur 66 (24%)
1998 339 komur 61 (18%)

Myndatexti:
Síðustu þrjú ár hefur 75-82% af sjúkraflugi til Reykjavíkur farið fram með flugvélum sem lent hafa á Reykjavíkurflugvelli. 18-25% sjúkraflugsins fer með þyrlum. Heimild: Landhelgisgæsla og Flugmálastjórn.