Af tilefni þess að Iceland Express hefur flug til 5 nýrra áfangastaða flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þriðjudaginn 15. maí sl.

Ágætu gestir!

Á þessum fallega vordegi er enn einum áfanga náð í flugsögu og ferðaþjónustu okkar Íslendinga – og vil ég óska forsvarsmönnum og starfsfólki Iceland Express innilega til hamingju með daginn. Ég þykist vita að mikil vinna liggi að baki þeim árangri sem félagið hefur náð og að ekki veiti af samstilltum hópi og styrkri stjórn.

Það eru aðeins fjögur ár síðan ég stóð á þessum sama stað til að fagna með ykkur fyrsta flugi Iceland Express. Þá var félagið algjörlega óskrifað blað. Áfangastaðirnir voru tveir, London og Kaupmannahöfn, og þótti mörgum nóg um stórhuginn og bjartsýnina.                                       

Nú eru áfangastaðirnir orðnir þrettán og þjóðin hætt að vera hissa. Félagið hefur áunnið sér það traust sem hverju fyrirtæki er nauðsynlegt til að vaxa og blómstra. Iceland Express hefur líka komið fram með nýjungar eins og þá að hægt sé að bóka aðra leiðina án aukakostnaðar og sannað að ekki þurfi meirapróf á bókunarvef flugfélags.

Á þessum fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið með ógnarhraða og sýnt að það er hvergi bangið þegar ný verkefni eru annars vegar. Til að mynda hafa orðið tímamót í flugþjónustu við landsbyggðina því í sumar verður Iceland Express ekki einungis beint flug á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar heldur verður einnig hafið flug á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar í byrjun júní.


Það hefur sýnt sig að Íslendingar ekki síður en erlendir ferðamenn hafa tekið Iceland Express opnum örmum. og kynningu landsins á erlendri grundu. Staðreyndir um fjölgun ferðamanna til Íslands tala sínu máli um góða stöðu Íslands í ferðaþjónustu. Í fyrra komu rúmlega 422 þúsund erlendir gestir til landsins og fjölgaði þeim því um 12,9% á milli ára. Þetta er mun meiri fjölgun en á árinu þar á undan, þegar fjölgunin nam rétt um 4%, og raunar ein mesta hlutfallslega fjölgun á milli ára frá upphafi. Tölurnar sýna að Ísland er enn sem fyrr áhugavert í augum erlendra ferðamanna. Er það í samræmi við það sem komið hefur í ljós í könnunum á vegum verkefnisins Iceland Naturally að vaxandi áhugi sé fyrir ferðum hingað til lands. Tel ég það ekki síst að þakka því merkilega samstarfi sem náðst hefur innan Iceland Naturally í Bandaríkjunum og nú einnig í Evrópu. Í það samstarf á öflugt fyrirtæki á borð við Iceland Express fullt erindi.

IcelandExpress er nefnilega mikilvægur hlekkur í þróun íslenkrar ferðaþjónustu og miklar vonir bundnar við að félagið standi enn frekar að öflugri kynningu á Íslandi á erlendri grundu. Við eigum enn verk að vinna við að fjölga ferðamönnum utan sumartímans og nýta þannig betur þá þjónustu og innviði sem atvinnugreinin hefur komið upp um allt land.

Megi gæfa og gott gengi fylgja Iceland Express um ókomin ár!