Ákvörðun Flugfélags Íslands um að hætta flugi til Hafnar og Vestmannaeyja hefur hrundið af stað miklum umræðum um innanlandsflugið. Afkoma í fluginu hefur verið slæm og ekki hægt að ætlast til þess að eigendur Flugfélags Íslands haldi úti rekstri sem félagið verður að greiða með. Slíkt gengur ekki og því er eðlilegt að reksturinn verði stokkaður upp og þeirra leiða leitað sem tryggja afkomu félgsins og þjónustu flugsins til lengri tíma. Sem betur fer eru fleiri flugfélög starfrækt þó umsvif þeirra séu minni. Því má búast við því að önnur flugfélög hasli sér völl á flugleiðunum til Hafnar og Vestmannaeyja.
Afkoma í fluginu hefur verið slæm og ekki hægt að ætlast til þess að eigendur Flugfélags Íslands haldi úti rekstri sem félagið verður að greiða með. Slíkt gengur ekki og því er eðlilegt að reksturinn verði stokkaður upp og þeirra leiða leitað sem tryggja afkomu félgsins og þjónustu flugsins til lengri tíma. Sem betur fer eru fleiri flugfélög starfrækt þó umsvif þeirra séu minni. Því má búast við því að önnur flugfélög hasli sér völl á flugleiðunum til Hafnar og Vestmannaeyja.

Morgunblaðið fjallar um breytingar í innanlandsfluginu í leiðara sunnudaginn 22. júlí s.l. og kemst að þeirri niðurstöðu að aukið áætlunarflug með litlum flugvélum kalli á stóraukið og strangt eftirlit með minni flugfélögum. Undir þessi varnaðarorð skal tekið um leið og athygli er vakin á því að reglur hafa verið hertar mjög mikið vegna reksturs minni flugvéla .

Flugsamgöngur skipta okkur mjög miklu máli vegna stærðar landsins og dreifðrar byggðar. Einnig skipta flugsamgöngur innanlands miklu fyrir ferðaþjónustuna sem er mjög vaxandi og getur, ef vel tekst til, orðið máttatstólpi fyrir innanlandsflugið þegar fram líða stundir.

Sem samgönguráðherra hef ég tekið á málefnum innanlandsflugsins og tel þær aðgerðir líklegar til að bæta stöðu flugsins í bráð og í lengd.
Vil ég einkum nefna eftirfarandi þætti.

Ríkisstyrktar flugleiðir
Flugleiðir til jaðarbyggða hafa verið boðnar út og veittir styrkir til þess að tryggja þá þjónustu sem flugið verður að sinna. Við útboð flugleiða hefur þurft að taka mið af reglum hins Evrópska efnahagssvæðis. Um er að ræða flugleiðirnar Reykjavík -Gjögur, Ísafjörður-Bíldudalur að vetri til þegar heiðarnar eru ófærar, Akureyri- Grímsey, Akureyri – Þórshöfn og Akureyri – Vopnafjörður.

Með því að bjóða út saman sjúkraflugið og flugið til jaðarbyggðanna náðist fram hagkvæmni fyrir félögin og um leið lægri útgjöld hjá ríkissjóði.

Ekki er gert ráð fyrir frekari ríkisstyrkjum til flugfélaga vegna áætlunarflugsins að öllu óbreyttu
.
Flugleiðsögugjaldið

Meðan staðan hjá flugfélögunum var talin betri var ákveðið að flugfélögin tækju þátt í kostnaði við flugleiðsögu og veðurfarsupplýsingar frá Veðurstofunni. Þessi kostnaður flugfélaganna er í ár 45 mkr. sem er samt einungis hluti heildarkostnaðar þeirrar þjónustu sem veitt er. Hefði afkoma í fluginu leyft það væri eðlilegt og æskilegt að flugfélögin tækju þátt í kostnaði og stjórnendur flugfélaganna væru þannig vel meðvitaðir um kostnaðinn sem fylgir þjónustunni. Nú hefur verið ákveðið að innheimta ekki þennan kostanað hjá félögunum. Stjórnvöld vilja þannig koma til móts við flugfélögin í erfiðri rekstrarstöðu þeirra.

Auknar öryggiskröfur í fluginu

Í þeim tilgangi að tryggja sem mest og best öryggi í flugi óskaði ég eftir í bréfi til flugmálstjóra, dags. 5. apríl 2001, að Flugmálastjórn hefði í frammi ráðstafanir til þess að auka öryggi lítilla flugvéla þannig að öryggi í flugi sé ávallt sambærilegt við það sem best gerist. Jafnframt staðfesti ég reglugerð sem felur í sér að JAR OPS 1 reglur tækju gildi 1. október n.k. hvað varðar minni flugvélar. Í bréfi mínu til Flugmálastjórnar, sem var skrifað vegna skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um flugslysið í Skerjafirði í ágúst á síðasta ári, segir m.a.:

„……………
1. Flugrekendur sem reka flugvélar í flutningaflugi sem eru undir 10 tonnum að þyngd og geta flutt 19 farþega eða færri skulu sæta sérstöku eftirliti allt fram til 1. júní 2002, þegar JAR OPS 1 tekur að fullu gildi fyrir þessa aðila. Að þeim tíma loknum óskast ráðuneytinu send greinargerð um niðurstöðu eftirlitsins.

2. Eins og yður er kunnugt um hefur ráðuneytið birt auglýsingu um gildistöku JAR OPS 1 reglugerðarinnar hinn 1. október 2001 fyrir flugrekendur með flugvélar í flutningaflugi sem eru undir 10 tonnum að þyngd og geta flutt 19 farþega eða færri. Flugmálastjórn ber að tryggja að þau tímamörk sem flugrekendum eru sett í auglýsingunni verði virt
3. Í framangreindri skýrslu Rannsóknarefndar flugslysa er eftirfarandi tilmælum beint sérstaklega til Flugmálastjórnar:
3.1. Að verklagsreglur flugöryggissviðs Flugmálastjórnar er varða skráningu notaðra loftfara til atvinnuflugs verði endurskoðaðar. Annaðhvort verði þess krafist að innflytjandi útvegi útflutningslofthæfisskírteini (CofA for Export) frá Flugmálastjórn útflutningsríkisins eða Flugmálastjórn Íslands framkvæmi sjálf skoðun á loftfarinu sem uppfylli kröfur til útgáfu slíks skírteinis.
3.2. Að hún komi á gæðakerfi fyrir starfsemi flugöryggissviðs stofnunarinnar.
3.3. Að flugrekstrardeild flugöryggissviðs Flugmálastjórnar geri áætlun um formlegar úttektir á flugrekendum. Úttektirnar séu samkvæmt viðurkenndum aðferðum gæðastjórnunar.
3.4. Að hún leggi sérstaka áherslu á að viðhaldsaðilar flugvélar haldi nákvæma skráningu um það viðhald sem framkvæmt er, þ. á m. að þeir skrái allar niðurstöður mælinga sem gerðar eru.
3.5. Að hún sjái til þess að flugrekendur sem ekki hafa þegar sett ákvæði í flugrekstrarhandbækur sínar, er varða aðgang farþega að framsæti við virk stýri þegar einn flugmaður er á vélinni, geri það.
3.6. Að hún efli eftirlit sitt með flugi tengdu þeim miklu mannflutningum sem eiga sér stað í tengslum við þjóðhátíðina í Eyjum.
Ráðuneytið óskar eftir áætlun Flugmálastjórnar um á hvern hátt stofnunin muni bregðast við framangreindum tillögum Rannsóknarnefndar flugslysa.

4. Í umfjöllun þessa máls hefur sú skoðun Flugmálastjórnar komið fram að stofnunin telji þau úrræði sem loftferðalög heimila henni að grípa til, þ.m.t. heimildir loftferðalaga til sviptingar flugrekstrarleyfis, endanlegrar og tímabundinnar, vera ófullnægjandi.
Ráðuneytið mun á næstunni skipa starfshóp til að gera tillögur hér að lútandi og óskar eftir tilnefningu Flugmálastjórnar á fulltrúa í starfshópinn.

5. Í niðurstöðum Rannsóknarnefndar flugslysa kemur fram að flugvakt flugmanns hafi verið orðin 13 klukkustundir og hans 22. flugferð yfir daginn.
Þar sem hér er um brot á vinnutímareglum að ræða óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um hvernig eftirliti er háttað með vinnutíma flugmanna.

6. Til að auka enn frekar öryggi í flugi telur ráðuneytið mikilvægt að eftirlit Flugmálastjórnar byggist í auknum mæli á skoðunum á vettvangi og úttektum á öryggisþáttum flugreksturs og loftfara.
Það er grundvallaratriði að trúnaðarsamband ríki milli flugmálayfirvalda og almennings og flugfarþegar geti treyst því að öryggisreglum sé réttilega framfylgt og að öryggiseftirlit sé fullnægjandi. Tryggja þarf að öllum aðilum sem flug stunda sé ljóst það hlutverk og sú ábyrgð sem viðkomandi gegna í flugöryggismálum og efla þarf samvinnu allra hlutaðeigandi með það að markmiði að tryggja skilvirkari framkvæmd öryggismála í flugi.
Af þessu tilefni mun ráðuneytið leita til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um greinargerð, sem felur í sér mat á stöðu flugöryggismála á Íslandi byggt á úttekt ICAO, sem gerð var í september 2000. .. „

Flugmálastjórn hefur svarað erindi ráðuneytisins og gert grein fyrir þeim aðgerðum sem unnið er að svo kröfur um öryggi flugsins megi uppfylla. Í framhaldi af því bréfi var ákveðið að auka fjárframlög til flugöryggissviðs Flugmálstjórnar og starfsmönnum verður fjölgað.
Það er stefna mín sem samgönguráðherra að gera verði strangar kröfur til allra aðila sem vinna við flugrekstur og einnig til þeirra sem sinna flugöryggisþáttum á vegum hins opinbera. Þar má engan afslátt veita. Öllum má ljóst vera að auknar kröfur til flugfélaga og eftirlitsaðila mun hækka rekstrarkostnað. Þann kostnað greiða neytendur að lokum í hærri fargjöldum. Því verða allir aðilar að gæta hófs og leita hinna hagkvæmustu leiða án þess að draga úr öryggi flugsins.

Sturla Böðvarsson