Í morgun, föstudaginn 14. júní, var undirritað samkomulag um ferðaátakið „Ísland – sækjum það heim“ en það mun standa yfir í allt sumar. Það voru Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, ásamt forsvarsmönnum Olíufélagsins ESSO, Íslandspósts og Ríkisútvarpsins sem undirrituðu samkomulagið en það gerir ráð fyrir alls 50 milljónum króna til kynningar á ferðamöguleikum Íslendinga í eigin landi. Meginuppistaða átaksins er ferðaþátturinn Hvernig sem viðrar, sem sýndur verður vikulega fram eftir sumri. Einnig verður sérstakur póstkortaleikur í gangi og verða vinningshafar dregnir út á Rás 2 í allt sumar. Í haust verður síðan dregið úr öllum póstkortum og eru veglegir vinningar í boði.
Undirritunin fór fram á markaðstorgi Fjörukrárinnar í blíðskaparveðri. Í ávarpi samgönguráðherra gerði hann að umtalsefni þær tekjur sem innlendir ferðamenn leggja til þjóðarbúsins en þær munu vera um 12 milljarðar króna á ári. Lagði hann áherslu á að aðilar í ferðaþjónustu, sveitarfélög og einkaaðilar, nýttu sér kynningarátakið og „leiki nú sóknarleik“ enda skuli hér spilað til vinnings í öllum skilningi.
Fréttatilkynning:
Ferðaátakinu „Ísland – sækjum það heim“ , sem Samgönguráðuneytið og Ferðamálaráð Íslands, standa að hefur bæst mikill liðsauki. Í dag var gengið frá samkomulagi um samstarf við Ríkisútvarpið, Olíufélagið ESSÓ og Íslandspóst og munu þessir aðilar leggja sitt af mörkum til þess að efla ferðalög landsmanna innanlands eins og kostur er. Framlag samstarfsaðilanna þriggja má meta til um 20 milljóna króna og alls er umfang kynningarátaksins, sem einkum stendur yfir á sumarmánuðunum, þá orðið um 50 milljónir króna.
Samstarf RÚV og Íslands – sækjum það heim felst í gerð ferðaþáttarins Hvernig sem viðrar, sem sýndur verður vikulega fram eftir sumri. Umsjónarmenn þáttarins leggja land undir fót og bregða sér í ferð um landið. Þeir munu koma víða við á ferð sinni og verður ekkert óviðkomandi, hvort sem um spennandi ævintýraferðir, hjólreiðar um hálendið, böð í heitum laugum, leyndar náttúruperlur eða skemmtilegar uppákomur er að ræða. Hvernig sem viðrar er þáttur sem unninn er á lifandi hátt og hægt verður að fylgjast með ferðalöngunum á vefsíðu RÚV, þar sem þeir halda úti ferðadagbók, auk þess sem umsjónarmennirnir eru í reglulegu sambandi við Rás 2.
Þáttur ESSÓ og Íslandspósts tengist einkum sérstökum póstkortaleik sem efnt er til undir formerkjum átaksins. Markmiðið með leiknum er að hvetja ferðafólk til þess að senda vinum og vandamönnum póstkort hvaðanæva að af landinu. Þeir sem taka þátt í sjálfum póstkortaleiknum senda kort með skemmtilegum textum til Helgarútgáfunnar á Rás 2 og þar verður vikulega valið besta póstkortið og sendanda þess veitt verðlaun. Í haust verður síðan dregið úr öllum innsendum póstkortum sumarsins og munu nokkrir heppnir þátttakendur fá vegleg verðlaun. Aðalvinningur póstkortaleiksins er Coleman fellihýsi en á meðal annarra vinninga má nefna spennandi ferðir á vegum Íslenskra ævintýraferða, flugmiða hjá Flugfélagi Íslands, gasgrill og bensínvinninga
Markmið ferðaátaksins Ísland sækjum það heim er að hvetja Íslendinga til að ferðast um landið sitt og upplifa það með vakandi og forvitnu auga ferðamannsins með svipuðum hætti og þegar þeir ferðast erlendis. Um leið eru landsmenn hvattir til þess að til að gefa sér aukinn tíma til slökunar og afþreyingar, kynna sér umhverfi, sögu og menningu þjóðarinnar og njóta þeirrar fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á um allt land.
Samstarfssamkomulag aðstandenda ferðaátaksins undirrituðu þeir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands, Lárus Guðmundsson, auglýsingastjóri RÚV, Hjörleifur Jakobsson forstjóri Olíufélagsins ESSÓ og Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts. Athöfnin fór fram í Fjörukránni í Hafnarfirði, en þar verður um helgina Sólstöðuhátíð Víkinga.