Víkingaskipið Íslendingur hélt af stað til Ameríku frá Búðardal á laugardaginn. Við það tækifæri flutti ráðherra ræðu sem fer hér á eftir.
Formaður Eiríksstaðanefndar, Minister Furey, ágætu áheyrendur!

Fyrir þúsund árum hélt Eiríkur rauði frá landi. Hann sigldi skipi eins og því sem við sjáum liggja hér við landfestar. Væntanlega í öðru umhverfi við Breiðafjörðinn en Eiríkur hafði trúlega sömu fjallasýn og áhöfn Íslendings mun hafa þegar hún leggur upp í sína löngu siglingu.

Eiríkur rauði hélt í vesturveg – til Grænlands. – Ástæður ferðarinnar kunna að hafa verið deilur hér heimafyrir og vandræði sem hann hafði ratað í – en eflaust og ekki síður hefur ævintýraleit og útþrá víkings sem naut þess að sigla um heimsins höf dregið hann til sjóferðar líkt og á við um þá vösku sveit sjómanna sem hér leggur frá landi í dag á hinu glæsilega skipi Íslendingi.

Eirík rauða hefur líklega ekki rennt grun í að hann markaði upphaf viðburðar sem nú telst einn sá merkasti í sögu víkingaaldar. Leifur – sonur Eiríks rauða – reyndist mikill siglingagarpur og eru fræðimenn sífellt að færast nær því að sanna að Leifur hafi fyrstur vestrænna manna numið land í Vesturheimi.

Þetta er sérstakur dagur hér í dag. Hann hefur mikla merkingu fyrir sögu okkar Íslendinga ekki síst hér við Breiðafjörðinn þar sem helstu sögupersónurnar eiga sínar rætur. Dagurinn þegar Íslendingur sigldi héðan setur mark sitt á kynningu landsins og ferðaþjónustuna sem er vaxandi atvinnugrein og vill byggja á menningu og sögu landsins.

Við hverfum þúsund ár aftur í tímann og leitumst við að endurlifa það sem þá átti sér stað. Reynum að setja okkur í spor fólks sem heldur út í algjöra óvissu. – Við ættum þess ekki kost ef ekki kæmi til kraftur skipstjórans og skipasmiðsins Gunnars Marels Eggertssonar og áhafnar hans. Einnig Eiríksstaðanefndar með Friðjón Þórðarson í broddi fylkingar með góðum stuðningi Landafundanefndar og ríkisstjórnarinnar. Drifkrafturinn við siglingu Íslendings og uppbyggingu Eiríksstaða er trú þessara manna á mikilvægi þess að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því að það var HÉR við Breiðafjörðinn sem saga þessi hófst. Þeir skilja að við verðum með öllum ráðum að gæta þessarar arfleifðar með því að halda henni á lofti kynslóð til kynslóðar og koma í veg fyrir að aðrir hirði hana af okkur. Og við trúum því að sagan nái eyrum sífellt stærri hóps um heim allan.

With us here today is a distinguished guest from Newfoundland, Mr. Charles Furey, Minister of Tourism, who is here as my official guest. His presence is a token of the friendship and good co-operation that has been established between our two countries.

Sigling ÍSLENDINGS til Vesturheims gegnir tvenns konar tilgangi:
Að vekja athygli umheimsins á því að það voru íslenskir menn sem stigu fyrstir Evrópubúa á land í L’anse aux Meadows á Nýfundnalandi – sem einnig gengur undir nafninu Leifsbúðir. Og ekki síður að nota þessi tímamót til að kynna Ísland í gegnum fjölmiðla vestanhafs – sem viðkomustað fyrir ferðamenn – land með nútímalegt þjóðfélag, stórbrotna náttúru og merka sögu.

Hér í Dalabyggð hefur með uppbyggingu Eiríksstaða, hafnargerðar hér í Búðardal og nýjum vegi um Bröttubrekku verið lagður grunnur að framtíðar-ferðamannastað hér við Breiðafjörð. Og þess munu væntanlega fleiri en Dalamenn njóta góðs af. Staðurinn er vel tengdur í ýmsar áttir og tel ég að hér sé komið tækifæri sem margir í ferðaþjónustunni munu koma til með að.

Það er von mín að takmarkið sem við höfum sett okkur við landkynninguna náist. Bið ég Guð að blessa siglingu Íslendings til Ameríku.