Flugþing 2006 stendur nú yfir og er umræðuefnið íslensk flugmál í brennidepli. Í ávarpi sínu við setningu þingsins ræddi Sturla Böðvarsson samgönguráðherra meðal annars um þær breytingar sem framundan eru á skipan flugmála og um fyrirsjáanlegar breytingar á skipan mála á Keflavíkurflugvelli.

Ég vil í upphafi bjóða dr. Assad Kotaite sérstaklega velkominn og fagna nærveru hans á flugþingi. Dr. Kotaite hefur um áratugaskeið unnið mikilvægt starf við uppbyggingu alþjóðlegrar flugþjónustu. Hann hefur einnig komið við sögu í íslenskum flugmálum og verið öflugur stuðningsmaður íslenskrar flugstarfsemi ekki síst vegna starfsemi Flugstjórnarmiðstöðvarinnar sem byggir á samningi við ICAO.

Íslensk flugmál eru í brennidepli um þessar mundir og íslensk flugstarfsemi er á fleygiferð – ef til vill eðli málsins samkvæmt. Hvort sem við lítum til fyrirtækjanna sjálfra eða stjórnvalda er það sama uppi á teningnum, þróunin er hröð og ýmsar breytingar í deiglunni.

Á Flugþingi ætlum við að horfa á flugið frá ýmsum hliðum. Hvaða kröfur gerir samfélagið? Hvaða tækifæri eru í fluginu? Hvernig er skipan flugmála best komið til framtíðar, hvert verður rekstrarumhverfi flugsins og þess mikla kerfis sem er í kringum flugsamgöngur okkar? Það verður fróðlegt að heyra sjónarmið um þessi efni og ég þykist vita að við förum héðan fróðari en við komum.

Til að draga fram umfang flugstarfseminnar skulum við rifja upp nokkrar tölur. Á fjárlögum í ár fara 3,2 milljarðar króna til reksturs Flugmálastjórnar og Alþjóða flugþjónustunnar. Af þeim framlögum fáum við 1,9 milljarða til baka í sértekjum. Fyrir utan þessi framlög fara um 450 milljónir til framkvæmda á vegum Flugmálastjórnar. Við síðustu áramót voru 397 loftför á skrá. Um 1.300 skírteini starfsmanna er tengjast flugi voru í gildi um síðustu áramót.
Um 91 þúsund loftför fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið í fyrra. Við þetta má bæta því sem beinlínis byggist á fluginu, en það er ferðaþjónustan. Gjaldeyristekjur landsmanna af ferðaþjónustu eru umtalsverðar og á síðasta ári vörðu erlendir ferðamenn sem svarar um 25 milljörðum króna í neyslu innanlands og um 14 milljörðum í fargjöld. Á árinu 2005 voru  rúm 12% af gjaldeyristekjum okkar vegna ferðaþjónustu sem nær öll tengist fluginu.

Umfangsmikil breyting stendur nú fyrir dyrum í skipulagi flugmála landsmanna og marka þau mikilsverð tímamót. Opinbera hlutafélagið Flugstoðir hefur verið stofnað og tekur um áramót við rekstri flugleiðsögunnar og flugvalla. Flugmálastjórn verður stjórnvalds- og eftirlitsstofnun.
Þessar vikurnar fer fram viðamikill undirbúningur fyrir breytingarnar sem hafa það að markmiði að íslensk flugmálayfirvöld verði betur í stakk búin til að mæta alþjóðlegri samkeppni og síbreytilegum kröfum.

Þá eru breytingar fyrirsjáanlegar varðandi rekstur og skipan mála á Keflavíkurflugvelli. Brottför Varnarliðsins er nú staðreynd. Það þýðir endurskipulagningu á ýmsum verkefnum sem snerta Íslendinga beint – ekki síst á sviði flugsins. Utanríkisráðuneytið hefur haft með höndum forræði flugmála á Keflavíkurflugvelli þar sem ráðuneytinu var falin framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins segir meðal annars: ,,Við brotthvarf varnarliðsins er eðlilegt að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli breytist til samræmis við það sem almennt tíðkast í landinu og mun ríkisstjórnin vinna í því.”

Færa má ýmis rök fyrir breytingum er varða Keflavíkurflugvöll. Lög um samgönguáætlun gera ráð fyrir því að líta skuli á allar samgöngur í heild og marka skuli stefnu í þessum málaflokki í samgönguáætlun til tólf ára í senn. Samgönguáætlun á að tryggja sem mesta hagkvæmni og sem mest öryggi. Alþjóðaflugið hefur að langmestu leyti farið um Keflavíkurflugvöll en um hann hefur mjög lítið verið fjallað í samgönguáætlun sem er ekki í samræmi við áðurnefnd lög. Á þessu verður nú breyting. Og þó að Keflavíkurflugvöllur sé stærsta flugsamgöngumannvirki landsins og um völlinn fari lunginn af millilandaflugi landsmanna þá er millilandaflug um Reykjavíkurflugvöll einnig vaxandi, sem er athyglisvert, meðal annars vegna einkaflugs athafnamanna á smáþotum sem ber vitni þeirri miklu grósku sem er í viðskiptum Íslendinga.

Góðir ráðstefnugestir.

Við hefjum flugþingið á að fjalla um kröfur samfélagsins til flugsins. Við gerum miklar kröfur til flugsins. Þar hygg ég að við tölum öll einum rómi. Flugfarþeginn, sem ferðast starfa sinna vegna eða er í skemmtiferð gerir sömu kröfur til flugsins og við sem hrærumst í samgöngumálum: Krafa okkar er að það sé eins öruggur ferðamáti og verða má. Til þess að svo megi verða þarf að fara að reglum og viðhafa öguð vinnubrögð. Þar fyrir utan viljum við vandaða þjónustu, tíðar ferðir til allra átta svo allir flutningar á fólki og varningi gangi greiðlega fyrir sig. Á móti gerir flugið þær kröfur til samfélagsins að fullkomin aðstaða sé fyrir hendi á jörðu niðri og regluverk og starfsaðstaða flugsins geri flugrekendum kleift að sinna starfi sínu og skyldum á arðbæran hátt.

Ég legg ríka áherslu á það að stjórnvöld  haldi áfram að kappkosta að ná loftferðasamningum við ný og ný lönd til að styðja við útrás flugfélaga og efla ferðaþjónustuna með stærri markaðssvæðum. Við eigum einnig að halda áfram útrásarverkefnum sem Flugmálastjórn hefur sinnt á borð við flugvallaþjónustu í Kosovo og Kabúl, en þar hafa starfsmenn Flugmálastjórnar starfað við góðan orðstír og við verðum einnig að gæta þess að við getum áfram gegnt því mikilvæga hlutverki okkar á sviði flugumsjónar sem er stjórnunin á íslenska flugstjórnarsvæðinu.

Ég er sannfærður um að við eigum áhugaverðan dag fyrir höndum með umfjöllun um þessa  mikilvægu starfsgrein. Ég vil að lokum þakka þeim fjölda fólks sem starfar á sviði flugsins fyrir farsælt starf og gott samstarf og ekki síður. Þarna er valinn maður í hverju rúmi.

Flugþing 2006 er sett.