Ráðherra opnaði í dag sýninguna "Íslenskt handverk og ferðaþjónusta". Sýningin er í Laugardalshöll og eru sýnendur alls staðar að af landinu, en einnig frá Grænlandi og Færeyjum. Við opnun sýningarinnar flutti ráðherra ræðu sem fer hér á eftir.
Góðir gestir!

Ferðaþjónustan er að margra mati bæði skemmtileg og fjölbreytt atvinnugrein.

Augu manna hafa í auknum mæli beinst að menningartengdri ferðaþjónustu; söfnum, listum, handverki og hönnun og er það ekki síst vegna þeirrar grósku sem verið hefur á þessum sviði á undanförnum árum.

Landið ólgar af sköpunarkrafti sem ferðamenn, íslenskir sem erlendir, kunna æ betur að meta. Munir unnir úr beini, flóka, hrosshári og jafnvel sandi eru á meðal þess sem fólk tekur heim með sér – margt góðir gripir eða jafnvel einstakir listmunir – enda hafa gæðin aukist jafnt og þétt. Handverk og minjagripagerð er orðin atvinngrein þótt enn sé hún kannski ekki í stórum stíl og haldi svo áfram sem horfir er vonandi að verð vörunnar geti jafnvel hækkað, og þar með tekjur greinarinnar í heild sinni. Ferðaþjónustan hefur ekki einungis það hlutverk að gera menninguna sýnilega og skiljanlega heldur tekur hún einnig beinan þátt í verndun menningararfsins t.d. með notkun þjóðbúningsins þar sem hann á við og á sviði matargerðar. Og sköpunargleðin er alls staðar til staðar – það sést þegar framboðið um allt land er skoðað, nú má komast í ferðir á ólíklegustu staði og uppátækin óendanleg.

Það er einmitt metnaðurinn og vandvirknin sem hafa þarf að leiðarljósi í ferðaþjónustunni sem öðrum atvinnugreinum sem vilja vera teknar alvarlega -því samkeppnin er mikil – á milli landa og milli landshluta.

Núna – við upphaf ferðamannatímans – finnst mér vel til fundið að flétta saman það helsta sem er að gerast á þessum tveimum sviðum, handverki og ferðaþjónustu. Það lýsir auknum skilningi og þeirri virðingu sem borin er fyrir Íslendingum sem ferðamönnum í eigin landi. Við erum að átta okkur á hve mikil verðmæti felast í því að við sjálf njótum þess að ferðast um landið og vera teki alvarlega sem viðskiptavinir ekki síður en útlendingarnir.

Við horfum jafnframt til austurs og vesturs með því að bjóða góðum grönnum til þessarar sýningar, Færeyingum og Grænlendinum. Kære venner fra Færöerne og Grönland – hjertligt velkomne – det er os en stor glæde at ha jer med os her og det viser hvor stærkt os samarbejde er paa turismeomraadet!

ágætu sýnendur, og sýningargestir,
það er vissa mín að sé rétt á málum haldið muni sala á handverki aukast í takt við þá aukningu sem er annars staðar í ferðaþjónustunni. Er því full ástæða til bjartsýni þar sem ferðaþjónustan skapar þjóðarbúinu næst mestar gjaldeyristekjur á eftir sjávarútvegi. Hún er komin fram úr stóriðjunni! Þeim sessi er nauðsynlegt að halda.

Ég óska öllum sem hér eru gleðilegs sumars og góðrar ferðamannavertíðar og segi þessa sýningu setta!