Íslenska samfélagið hefur tekið miklum breytingum síðasta áratuginn þannig að á flesta mælikvarða stendur Ísland nú í fremstu röð.

Enginn einn þáttur hefur skipað Íslandi í fremstu röð, en vafalaust á vinnuframlag Íslendinga, jafnt karla og kvenna, þátt í því.

Allir sæmilega sanngjarnir einstaklingar viðurkenna að lögin um fæðingarorlof eru mikil réttarbót, og líkleg til þess að hafa afgerandi áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Sú löggjöf mun verða mikilvægur vitnisburður um afstöðu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna til jafnréttismála.

En það þarf meira til þess að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði og auka áhrif þeirra í stjórnsýslunni. Ég þekki það vel, af vettvangi samgönguráðuneytisins, að það þarf að hafa skýra stefnu í jafnréttismálum ef árangur á að nást. Staða kvenna í nefndum og ráðum á vettvangi samgönguráðuneytisins hefur ekki verið burðug. Til skamms tíma voru fáar eða engar konur þar í stjórnunarstöðum og ekki margar í nefndum og ráðum. En breytingar á starfsmannamálum í stjórnarráðinu taka langan tíma og þar er fremur lítil starfsmanna velta.

Í samgönguráðuneytinu er mikill vilji til þess að bæta hlut kvenna og að því hefur verið unnið skipulega í minni ráðherratíð. Vil ég í því sambandi nefna að nú er svo komið að í stjórnunarstöðum embættismanna innan ráðuneytisins eru jafn margar konur og karlar. Þar er staðan að þessu leyti góð og meirihluti starfsmanna ráðuneytisins eru konur. Þegar kemur að skipun í nefndir, stjórnir og ráð vandast málið. Auðvitað er lítil vörn í því fyrir ráðherra að konur gefi sig lítt að verkefnum á sviði siglingamála, vegamála eða hafnamála svo dæmi séu tekin. Eina afsökunin sem taka mætti gilda er þegar um er að ræða tilnefningar samtaka eða stéttarfélaga, sem ekki er auðvelt að hafa um að segja og eru oft á vettvangi hefðbundinna karla starfa. Sum samtök tilnefna sjaldan konur sem sína fulltrúa þegar óskað er eftir tilnefningu þeirra enda fáar konur starfandi. Ég tel t.d. ekki líklegt að Vélstjórafélagið eða LÍÚ tækju því vel ef ég neitaði að taka tilnefningu þeirra um formann VÍ eða framkvæmdastjóra LÍÚ góða og gilda, en gerði að sama skapi kröfu um að þeir tilnefndu konu sem fulltrúa í Siglingaráð svo dæmi sé tekið. En það mætti láta á það reyna og það gæti verið gert fyrr en seinna.

Ég hef unnið að því skipulega að nýta krafta kvenna á vettvangi samgönguráðuneytisins. Þar vil ég nefna skipun Ragnhildar Hjaltadóttur lögfræðings sem ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu, kjör Rannveigar Rist verkfræðings sem stjórnarformanns Símans, en þar sat áður í stjórn fyrir mína beiðni Svafa Grönfeld viðskiptafræðingur. Skipun Sigríðar Finssen hagfræðings sem formanns Hafnaráðs, skipun Geirþrúðar Alfreðsdóttur verkfræðings og flugstjóra sem formanns Rannsóknarnefndar flugslysa, skipun Ástríðar Scheving Thorsteinsson lögfræðings sem formanns nefndar um farbann skipa og skipun Ingu Hersteinsdóttur verkfræðings í Rannsóknarnefnd umferðarslysa. Í öllum þessum störfum voru áður karlmenn þannig að þessu leyti hefur orðið veruleg breyting. Auk þess sem skipaðar voru konur í tvær nýjar stöður skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu. Þær Unnur Gunnarsdóttir sem skrifstofustjóri á skrifstofu ráðherra og Helga Haraldsdóttir sem skrifstofustjóri á skrifstofu ferðamála.

Þetta er rifjað hér upp á heimasíðu minni af því tilefni að nú er unnið að endurskoðun á samningum um árangursstjórnun við stofnanir sem heyra undir samgönguráðuneytið. Í þeim samningum mun ráðuneytið leggja ríka áherslu á skýr markmið í jafnréttismálum. Í þessu sem öðru má segja að dropinn holar steininn. Það verður fróðlegt að skoða árangurinn af þessu starfi í lok kjörtímabilsins.

En hvað sem öllum vangaveltum um feminisma og jafnrétti líður verðum við að minnast þess að nútíma samfélag verður að móta af báðum kynjum.