Ríkisstjórn Samfylkingar og VG, sem kennir sig við norræna velferð, hefur kynnt þjóðinni  samstarfsyfirlýsingu sem stjórnin hyggst vinna eftir. Þar kennir margra grasa. Flest er þar óljóst eins og við var að búast. Gefin eru stóryrt fyrirheit, m.a. stefnt  að ,,varanlegri velferð”, eins og segir í yfirskrift eins kaflans. Fróðlegt verður að fylgjast með efndum og útfærslu á því sem er kallað varanleg velferð.
Breytt afstaða Samfylkingarinnar
Í þessari grein vil ég fjalla um áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum. Stjórnarflokkarnir boða að þeir muni leggja fyrir Alþingi  frumvörp er geri ráð fyrir að koma eigi á  persónukjöri við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna. Einnig að sett verði löggjöf um ráðgefandi stjórnalagaþing sem gerir tillögur til Alþingis um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnarskrárvaldið verði þannig ekki fært frá Alþingi eins og minnihlutastjórnin gerði ráð fyrir.Þetta eru vissulega jákvæð tíðndi. Með þessu viðurkennir forsætisráðherra þær miklu villigötur sem hún var á í vetur  þegar hún, í umboði minnihlutastjórnar, ætlaði að þröngva í gegnum Alþingi óforsvaranlegum breytingum á kosningalögum nokkrum vikum fyrir kjördag. Jafnframt var gerð tilraun til að breyta stjórnarskránni án nokkurs samráðs við stærsta stjórnmálaflokkinn á Alþingi og í fullkominni andstöðu við okkur sjálfstæðismenn og nær alla umsagnaraðila.

Óforsvaranleg vinnubrögð
Vinnubrögðin voru með öllu óforsvaranleg og formönnum flokkanna sem að því stóðu ekki til vegsauka. Blekkingarnar og yfirgangurinn sem var viðhafður er trúlega  einsdæmi í  stjórnmálasögu okkar. Hlutur Framsóknaflokksins á þeirri vegferð var mjög sérkennilegur. Mætti skrifa langt mál um það. Stjórnarflokkarnir stöðvuðu sjálfir í meðförum allsherjarnefndar, breytingarnar á kosningalögunum.Þau áttuðu sig á því að málið var ekki tækt til afgreiðslu. Við sjálfstæðismenn stöðvuðum hinsvegar  stjórnarskrárbreytingarnar. Talsmenn Samfylkingarinnar héldu síðan áfram í fjölmiðlunum eftir að málin höfðu verið stöðvað í þinginu og gerðu tilraun til þess að  blekkja þjóðina með skrifum um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í málinu. Og þeim varð nokkuð ágengt í því.  Þar gengu lengst  formaður þingflokks Samfylkingarinnar Lúðvik Bergvinsson og Árni Páll Árnason sem nú er orðinn ráðherra. Vonandi verður framganga hans í því hlutverki vandaðri en sú er birtist okkur í þinginu þá og í blaðaskrifum. Þeir höfðu sjáanlega vondan málstað að verja. Það er leitt að þurfa að segja að þeir beittu  blekkingum og rangfærslum á bæði borð. Vinstri grænir höfðu sig minna í frami . Þau virtust sum hver hafa áttað sig á þvi að framganga forsætisráðherra við að knýja þessi mál fram var ekki forsvaranleg og frumvörpin bæði óboðleg sem þingmál.

Persónukjör
Persónukjör  þar sem kjósandinn getur raðað frambjóðendum á kjörseðli hefur ekki verið mikið til umræðu á undangengnum árum á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Það hefur satt að segja ekki verið mikill jarðvegur fyrir því að breyta kosningalögum í þessa átt síðustu árin. Ég hef lengi haft þá skoðun að tryggja ætti persónukjör sem skapaði kjósenda möguleika á að raða á lista og losa flokkana við prófkjörin sem hafa mikla galla. Ég hafði borið þá von í brjósti að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar tæki til við að láta vinna tillögur um breytingar á stjórnarskránni og kosningalögum á síðari hluta kjörtímabilsins í samstarfi allra flokka.  Sem lið í þeim áformum beitti ég mér fyrir því  sem forseti Alþingis að setja af stað vinnu við að endurskoða lagareglur um eftirltishlutverk Alþingis og ráðherraábyrgð. Það verk var vel á veg komið þegar stjórnarskiptin urðu þegar Samfylkingin sveik samstarfsflokk sinn með eftirminnilegum hætti. Samfylkingin hljóp frá því samkomulagi sem þau Ingibjörg Sólrún og Geir Hilmar höfðu innsigla með kossi á Þingvöllum og fórnaði formanni sínum fyrir þann gamla draum að tími Jóhönnu kæmi. Um það var víst samið í Gnitanesi eftir því sem fregnir herma, þaðan sem Bessastaðir blasa við.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig staðið verður að breytingum á kostningalögunum að þessu sinni. Ég vona  svo sannarlega að um það geti náðst sátt að koma á persónukjöri og hætta prófkjöri flokkanna í núverandi mynd. Hins vegar teldi ég eðlilegt að  flokkarnir velji leiðtoga hvers kjördæmis með beinni kosningu meðal flokksbundinna  einstaklinga. Að öðru leyti verði það á valdi kjósenda að raða mönnum í þingsætin eða sæti í bæjarstjórn við kjörborðið sem í framtíðinni verður væntanlega rafrænt.

Ráðgefandi stjórnlagaþing
Eins og þekkt er þá var mikill ágreiningur á Alþingi um þær breytingar á stjórnarskránni sem minnihlutastjórnin stóð fyrir. Þær breytingar fólu m.a. í sér að kjósa ætti stjórnlagaþing sem viki Alþingi til hliðar sem stjórnarskrárgjafa. Sem betur fer tókst okkur Sjálfstæðismönnum að koma í veg fyrir þau áform og stöðva hin gerræðislegu vinnubrögð sem voru viðhöfð við breytingar á stjórnarskránni sem Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér fyrir á síðast þingi. Nú virðist hún hafa séð að sér.  Ríkisstjórninn gerir nú ráð fyrir því að leita  samkomulags milli flokkanna á Alþingi varðandi setningu laga um ráðgefandi stjónlagaþing. Ég tel það skynsamlegan kost.  Þegar  tillagan um stjórnlagaþing kom fram hvatti ég þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Geir H Haarde, til þess að leita eftir samkomulagi um að stjórnlagaþingið yrði ráðgefandi en tæki ekki valdið af Alþingi, elsta þjóðþingi veraldar. Þeirri ósk var þá hafnað af talsmönnum minnihlutastjórnarinnnar. Í starfi þingnefndarinnar sem fór með málið leituðum við sjálfstæðismenn ítrekað eftir því að ná sátt um þá leið án árangurs. Það er því fagnaðarefni að forsætisráðherra skuli nú hafa tekið sönsum og stefni að því að ná samkomulagi við alla  flokka og að ráðgefandi stjórnlagaþing verði kjörið til þess að undirbúa breytingar á stjórnarskránnni sem er vissulega tímabært.