Tillaga samgönguráðherra um aðgerðir á Óshlíðarvegi var samþykkt í ríkisstjórn. Í kjölfarið var Vegagerðinni falið að hefja rannsóknir og undirbúning að jarðgangagerð með það fyrir augum að framkvæmdir geti hafist haustið 2006.

Síðastliðnar vikur hefur verið mikil umfjöllun um aukið grjóthrun í Óshlíð á veginum frá Hnífsdal til Bolungarvíkur.
Á undanförnum árum hefur Vegagerðin látið gera ýmsar athuganir á aðstæðum í Óshlíð og með hvaða hætti samgöngur verði best tryggðar um hlíðina. Hefur þetta verið gert í góðri samvinnu við heimamenn. Nokkrar skýrslur liggja fyrir um þetta efni, hin fyrsta frá 1981 en sú síðasta frá 2002 sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir. Segja má að allt frá gerð fyrstu skýrslunnar hafi verið unnið að endurbótum á veginum um Óshlíð í samræmi við þær tillögur sem hafa verið undirbúnar af Vegagerðinni.

Í nóvember 2002 skilaði vinnuhópur, með fulltrúum Vegagerðarinnar og hlutaðeigandi sveitarfélaga, greinargerð um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Þar segir meðal annars þetta: ,,Unnið hefur verið að endurbótum á veginum um Óshlíð frá 1981 með hléum. Mikill árangur hefur náðst í vörnum gegn grjóthruni og snjóflóðum, en mikið er eftir. Ef til vill hefur árangur í snjóflóðavörnum orðið meiri, með byggingu vegskála, greftri á skápum og verklagsreglum um umgengni. Snjóflóðin eru á afmörkuðum stöðum og að því leyti auðveldari en grjóthrunið.“

Undanfarið hefur verið töluvert grjóthrun í svonefndum Skriðum. Vitað er að hrun er mest að vori og hausti auk þess sem nokkur áraskipti eru að því magni sem kemur niður. Þróunardeild Vegagerðarinnar hefur tekið að sér að leiða nauðsynlegar athuganir og rannsóknir vegna þessa.

Á þessum kafla hafa verið sett upp svonefnd grjótnet til varnar grjóthruni inn á veg. Ljóst er að netin veita takmarkaða vörn þótt þau hindri að smærra grjót eigi greiða leið inn á veginn og dragi úr afli þess stærra. Skemmdir á netunum eru tíðar og viðhaldskostnaður töluverður.

Jafnframt aðgerðum á sviði snjóflóða- og grjóthrunsvarna á þessum slóðum hafa ýmsir jarðgangakostir verið skoðaðir til að leysa þessi vandamál því ljóst þykir að varanlega verði þau ekki leyst með öðrum hætti.

Hætta á grjóthruni og snjóflóðum er mismikil á veginum, enda eru töluverðir hlutar hans varðir með vegskálum, grjótnetum, netkössum og stálþiljum. Óumdeilt er að mesta hættan í dag er á svæðinu yst á áðurnefndum Skriðum, þar sem stórgrýtishrun kemur ofan úr klettum nokkrum sinnum á ári, oftast í ágúst – september. Eins og áður sagði veita grjótnetin takmarkaða vörn við þessar aðstæður. Langur vegskáli eða jarðgöng er það eina sem talist getur varanleg lausn. Jarðgöng ásamt forskálum sem dygðu til að losna við grjóthrunsvandann yst á Skriðum yrðu um það bil 1.220 m löng milli Einbúa og Hrafnakletta, og áætlaður kostnaður er um 1.000 m.kr.

Verði jarðgöng fyrir valinu telur Vegagerðin þetta skynsamlegasta kostinn, enda kæmist mannvirkið þá mun fyrr í notkun en lengri göng, auk þess sem hægt er að bæta við fleiri jarðgöngum í framtíðinni til viðbótar við þessi, ef valið verður að auka öryggi á öðrum hlutum vegarins enn frekar en nú er.

Ljóst er að dæmin undanfarið sýna að öryggi vegfarenda sem um Óshlíðarveg fara sé undir því lágmarki sem gera verður kröfur um í dag. Samgönguráðherra leggur því til að Vegagerðinni verði falið að hefja nú þegar rannsóknir og athuganir sem að miða að því að hægt sé að hefjast handa um jarðgangagerð undir Óshlíð á árinu 2006.

Jafnframt mun samgönguráðherra beina þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að eftirlit með hlíðinni verði aukið og auk þess fyrir sitt leyti gera það að forgangsatriði að komið verði á fullnægjandi GSM-sambandi á þessum vegkafla.