Útboðsgögn fyrir gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar verða send út í næstu viku til þeirra verktaka sem valdir hafa verið til þátttöku í útboði eftir forval. Útboðsgögn vegna jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða hins vegar send verktökum í lok febrúar, eftir opnun tilboða í fyrri göngin.

Reiknað er með að sama hagkvæmni af samlegðaráhrifum beggja verkefnanna náist með því að bjóða göngin út í tvennu lagi. Auk þess eru ákveðnir kostir taldir fylgja því að gera tvo verksamninga um þessi verkefni.

Áætlað er að vinna við jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hefjist seint í apríl 2003 og að gangagröfturinn taki u.þ.b. eitt og hálft ár. Ári seinna eiga göngin að vera tilbúin, eða síðla árs 2005. Heildarkostnaður er áætlaður um 3, 8 milljarðar.

Gert er ráð fyrir að gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefjist árið 2004, um svipað leyti og gangagreftri lýkur fyrir austan. Áætlað er að göngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verði tilbúin árið 2008 og að heildarkostnaður verði um 6,8 milljarðar.