Samgönguráðherra flutti á þingfundi í gær tillögu til þingsályktunar um jarðgangaáætlun 2000-2004. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
Framsöguræða vegna tillögu til þingsályktunar um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000 – 2004.
Inngangur.
Vorið 1998 var samþykkt hér á Alþingi þingsályktun um langtímaáætlun í vegagerð. Þegar tillagan var lögð fram, fylgdi henni greinargerð, þar sem vikið er að jarðgangagerð. Þar segir orðrétt:
„Í þessari áætlun er ekki fjallað um framkvæmdir við jarðgöng. Ef til slíkra framkvæmda kemur á áætlunartímabilinu er gert ráð fyrir að það verði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem einnig verði tekin afstaða til fjármögnunar. Ákveðið er að veita nokkurt fé til jarðgangarannsókna á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Er reiknað með 120 m.kr. alls á áætlunartímabilinu í þessu skyni".
Langtímaáætlunin ákvað samkvæmt þessu nokkurt fé til jarðgangarannsókna. Jafnframt er gengið út frá því að jarðgangaframkvæmdir séu háðar sérstakri ákvörðun stjórnvalda og fjármögnun yrði utan langtímaáætlunar.
Hinn 11. mars 1999 samþykkti Alþingi þingsályktun um að samgönguráðherra léti vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga í landinu. Tekið er fram í þingsályktuninni að áætlunin skuli liggja fyrir áður en lokið verði við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar, en sú endurskoðun stendur nú yfir sem kunnugt er.
Vegagerðinni var síðan falið að vinna áætlunina. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir í skýrslu Vegagerðarinnar, Jarðgangaáætlun janúar 2000, sem lögð hefur verið fram hér á Alþingi og var nokkuð til umræðu þegar Vegáætlun var rædd við fyrri umræðu.
Sú tillaga, sem hér liggur fyrir byggir í meginatriðum á áætlun Vegagerðarinnar en nær til tímabilsins 2000-200 4. Ég mun því hér á eftir fara nokkrum orðum um þá áætlun, en síðar víkja sérstaklega að tillögunni eins og hún liggur fyrir.
Áætlun Vegagerðarinnar.
Vegagerðin skipti verkefninu í tvo þætti. Annars vegar gerði hún yfirlitsáætlun, þar sem tekin voru til mjög lauslegrar skoðunar, öll þau jarðgangaverkefni, sem til umræðu hafa verið undanfarið, óskir hafa komið fram um að skoða eða Vegagerðin taldi koma til álita. Hins vegar voru valin úr þessum hópi þau verkefni, sem brýnust töldust, en miðað var við að heildarkostnaður þeirra færi þó ekki fram úr 10 – 12 milljörðum króna.
Yfirlitsáætlunin tekur til 21 verkefnis í öllum kjördæmum landsins. Við gerð áætlunarinnar var ákveðið að hafa þessi verkefni frekar fleiri en færri, þannig að ekki væri auðvelt að benda á hugsanleg verkefni, sem ekki væru inni í áætluninni. Með þetta í huga má ljóst vera að sum verkefnanna eru í mjög fjarlægri framtíð, ef þau þá koma til framkvæmda.
Í áætluninni eru síðan valin þrjú verkefni, sem komi fyrst til framkvæmda. Göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar eru þar sett undir einn hatt og verði fyrst, en síðan komi göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Heildarkostnaður við þessi þrjú verkefni er metinn á 10,5 milljarða króna.
Tillagan:
Í tillögunni eins og hún liggur hér fyrir, er miðað við að jarðgangaáætlun sé til sama tíma og vegáætlunin sem nú er til endurskoðunar, það er að segja til 2004. Jafnframt segir í tillögunni að jarðgangaáætlun skuli felld að vegáætlun og endurskoðuð jafnhliða henni, þ.e. á tveggja ára fresti.
Þessi tilhögun þótti eðlilegri við nánari skoðun, fremur en að gera 10 ára áætlun. Með þessu móti féllu áætlanirnar betur hvor að annarri, og væru sveigjanlegri.
Með hliðsjón af þessu er reiknað með framkvæmdafjárveitingum í verkefnin tvö, sem voru í fyrsta sæti í áætlun Vegagerðarinnar, þ.e. Siglufjörður – Ólafsfjörður og Reyðarfjörður – Fáskrúðsfjörður. Fjárveitingar miða við að undirbúningi þessara verkefna ljúki á næsta ári, og framkvæmdir geti hafist af krafti 2002. Ákvörðun um útboð þessara verkefna, röð þeirra eða bæði saman verði tekin þegar rannsóknir eru komnar á góðan rekspöl. Heildarkostnaður við þessi tvö verkefni er metinn á um 8,3 milljarða króna og lýkur framkvæmdum við þau 2007 með sömu fjárveitingum áfram, þ.e.a.s. 1.400 milljónum króna á ári eins og tillagan gerir ráð fyrir.
Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að fé sé veitt til rannsókna og undirbúnings jarðganga á Vestfjörðum og Austfjörðum og eru þar þrjú verkefni sérstaklega tilgreind.
Þessi verkefni eru göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem tiltekin voru í áætlun Vegagerðarinnar, ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og göng milli Héraðs og Vopnafjarðar.
Almenn rök fyrir jarðgangagerð
Jarðgöng eru kostnaðarsöm mannvirkjagerð og er því um mikla fjármuni að ræða eins og fram kom hér á undan. Ég mun nú víkja nokkuð að almennum rökum fyrir jarðgangagerð, en koma síðan nánar að þeim tveim verkefnum sem fyrst eru á dagskrá.
Í umræðu um byggðamál og leiðir til að sporna við stöðugri fólksfækkun á landsbyggðinni hefur áhersla á byggðakjarna utan höfuðborgarsvæðisins farið vaxandi. Athygli hefur verið dregin að mikilvægi þróttmikilla byggðakjarna í hverjum landshluta, sem geta borið uppi þjónustu, menningarlíf og verslun fyrir stór landsvæði, þegar samgöngur eru fullnægjandi. Það er ljóst, að flestar hugmyndir sem uppi eru um jarðgöng á vegakerfinu og kynntar hafa verið, eru fram komnar til að reyna að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu. Í tillögum að jarðgangaáætlun frá árinu 1987 var það sama lagt til grundvallar, og megináhersla lögð á jarðgöng þar sem hálendi gerir vetrarsamgöngur erfiðar og byggðir einangrast frá aðalvegum um lengri tíma vegna snjóþyngsla. Síðan sú áætlun var gerð hafa vetrarsamgöngur víða verið bættar til muna. Fjallvegir hafa verið endurbyggðir, og má þar til dæmis nefna Möðrudalsöræfi með Háreksstaðaleið, Fjarðarheiði og Oddsskarð, og á öðrum, svo sem Bröttubrekku og Vatnaheiði, eru framkvæmdir skammt undan. Þá hefur snjómokstur og önnur vetrarþjónusta stóraukist. Þótt truflanir á vetrarsamgöngum á þessum leiðum séu ekki úr sögunni, þá kemur það fram í skýrslu Vegagerðarinnar að þessar aðgerðir hafi breytt ástandinu það mikið, að unnt sé að fresta gerð jarðganga á þessum sömu stöðum meðan enn er svo margt ógert við uppbyggingu hins almenna vegakerfis. Þá mælir Vegagerðin óhikað með uppbyggingu fleiri fjallvega á vegakerfinu með tilliti til reynslu síðasta áratuga, meðan beðið er eftir fjármagni í jarðgangagerð. Aukin vetrarþjónusta verður síðan að fylgja slíkri uppbyggingu.
Þegar vinna við jarðgangaáætlun hófst, var ákveðið að gera úttekt á nokkrum þáttum, til að bæta forsendur fyrir tillögum um verkefni. Talið var nauðsynlegt að kanna eins vel og kostur væri á, hvaða áhrif jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiði hefðu haft á atvinnu- og mannlíf á svæðinu, og voru gerðar kannanir meðal íbúa og fyrirtækja. Einnig var skoðað hvaða áhrif nýleg uppbygging veganna um Fjarðarheiði og Oddsskarð og aukin vetrarþjónusta á þeim hefði haft, og hvort slíkar úrbætur dygðu til þess að fresta mætti jarðgangagerð þar til lengra hefur miðað í almennri uppbyggingu vegakerfisins. Í þessu skyni var gerð skoðanakönnun meðal fólks á Austurlandi, þar sem spurt var um áhrif vegabóta og aukinnar þjónustu á áðurnefndum vegum. Þessar úttektir eru meðal þess sem lagt hefur verið til grundvallar við tillögugerð um röðun verkefna. Ekki fer á milli mála að jarðgöng og bætt þjónusta á fjallvegum hefur mikil áhrif á búsetu að mati íbúanna sem nýta sér bættar samgöngur.
Eins og fyrr sagði var áður litið á vetrareinangrun sem veigamesta atriðið við forgangsröðum jarðgangaframkvæmda. Sú viðhorfsbreyting sem hér er kynnt byggir einkum á því, að í mörgum tilfellum sé unnt að losa byggðir úr þeirri einangrun með öðrum aðgerðum en jarðgöngum, þótt enn sé horft til jarðganga sem endanlegrar lausnar samgönguvanda margra staða. Hins vegar sé nú full ástæða til að leggja áherslu á gerð jarðganga sem geta stækkað og styrkt byggðakjarna, ekki síst með styttingu vegalengda. Þær tillögur sem lagðar eru fram í jarðgangaáætluninni taka mið af því. Það á ekki síst við um þau tvö verkefni sem lagt er til að verði í fyrsta áfanga, það er göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.
Reyðarfjörður – Fáskrúðsfjörður
Á veginum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar var meðalumferð árið 1998 um 200 bílar á dag og sumarumferð um 270 bílar. Með tilkomu jarðganga styttist vegalengdin milli þéttbýlisstaðanna um 30 km, og milli Suðurfjarðanna og Reyðarfjarðar um 36 km. Með tilkomu jarðganga myndi umferð vafalaust aukast, enda stækkar atvinnu- og þjónustusvæði kjarnans á Mið-Austurlandi töluvert. Vegalengdin frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar yrði 22 km og til Egilsstaða um 50 km. Þá má reikna með að hluti þeirrar umferðar sem nú fer um Breiðdalsheiði, Hringveginn milli Skriðdals og Breiðdals, myndi velja fjarðaleiðina um jarðgöngin, a.m.k. að vetri til. Leiðin milli Breiðdalsvíkur og Egilsstaða um firðina yrði einungis 13 km lengri en um heiðina eftir jarðgangagerð. Á núverandi vegi um Vattarnes er grjóthruns- og snjóflóðahætta.
Heildarkostnaður við framkvæmdir er áætlaður ríflega 3 milljarðar, þar af undirbúningur um 100 m.kr., og þá er miðað við tvíbreið göng. Þar er reiknað með 5,3 km löngum jarðgöngum, 150 m löngum forskálum og 7,5 km af nýjum vegum utan ganga.
Á sínum tíma var gerð lausleg umferðarspá vegna arðsemisreikninga á þessari leið. Þar var reiknað með að samkvæmt lágspá ykist umferðin um 25%, samkvæmt meðalspá um 50% og samkvæmt háspá um 100%. Þegar kostnaður við jarðgangaframkvæmdir var borinn saman við kostnað við að endurbyggja núverandi veg og leggja á hann bundið slitlag, reiknaðist arðsemin 4 – 8% fyrir umferðarspárnar þrjár.
Með ákvörðun um gerð jarðganga er unnt að hætta við einhverjar vegaframkvæmdir. Að lágmarki má miða við að fella niður framkvæmdir á Sléttuströnd og í Vattarnesskriðum, sem fá 250 m.kr. á vegáætlun 2000 – 2001. Arðsemi jarðganga eykst að sjálfsögðu eftir því sem meira er unnt að spara í öðrum framkvæmdum á móti.
Miðað við að jarðgöngin verði unnin frá báðum endum má reikna með að upp undir 1 ½ ár taki að sprengja sig í gegn og um 1 ár að vinna að styrkingum, vegagerð og öðrum frágangi. Heildarverktími er því um 2 ½ ár. Rannsóknir munu geta hafist strax á þessu ári og í framhaldi hönnun og gerð útboðsgagna sem vinna þarf í samræmi vð það markmið að bjóða út stóran áfanga.
Siglufjörður – Ólafsfjörður
Jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hafa verið til umræðu allt frá því göngin um Ólafsfjarðarmúla milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar voru opnuð í árslok 1990. Árið 1994 var skipaður samráðshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaga á norðanverðum Tröllaskaga og samtaka þeirra. Hann hafði það markmið að mynda vettvang fyrir skoðanaskipti og samráð um lagningu vegar um Lágheiði og málefni sem tengjast því verkefni. Mikið af vinnu hópsins beindist að skoðun á jarðgangamöguleikum á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, þar eð ekki var talið raunhæft að endurbyggður vegur um Lágheiði yrði öruggur heilsársvegur, né að með því næðust æskileg markmið um aukna samvinnu og jafnvel sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Samráðshópurinn skilaði í nóvember síðastliðnum skýrslu sinni, þar sem lagt er til að svonefnd Héðins-fjarðarleið verði valin. Meginröksemd fyrir tillögunni er sú, að með þeirri leið tengist Siglufjörður byggðum við Eyjafjörð á þann hátt að Eyjafjarðarsvæðið í heild verður öflugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið og byggð á miðju Norðurlandi styrkist verulega. Ávinningur með hringtengingu með ströndinni um Tröllaskaga er einnig talinn verulegur fyrir byggðalögin beggja megin skagans, einkum í ferðaþjónustu.
Héðinsfjarðarleið liggur frá Siglufirði inn í utanverðan Skútudal, um 4 km löng jarðgöng til Héðinsfjarðar innan við Héðinsfjarðarvatn, og síðan um 6,2 km löng jarðgöng til Ólafsfjarðar. Vegalengdin milli kaupstaðanna yrði um 15 km löng. Í umferðarspá er reiknað með að umferð um göngin geti í upphafi orðið um 350 bílar á dag, en töluverð óvissa er tengd spánni. Heildarkostnaður við þessa vegtengingu, þ.e. 10,2 km löng jarðgöng, 500 m langa vegskála og 4 km af nýjum vegum, er áætlaður um 5,3 milljarðar króna. Þá er miðað við tvíbreið göng. Borið saman við nýjan veg um Lágheiði reiknast arðsemin geta verið tæplega 7%. Með gerð jarðganga sparast 300 – 400 m.kr. við uppbyggingu vegar á Lágheiði, miðað við núverandi langtímaáætlun í vegagerð.
Með tveimur vinnuflokkum á að vera unnt að sprengja 4 – 5 km á ári, þannig að það tæki 2 – 2 ½ ár að grafa göngin, og síðan má áætla að öll frágangsvinna eftir það taki a.m.k 1 ½ ár. Frá upphafi framkvæmda til opnunar gæti verkið því tekið 3 ½ – 4 ár.
Gert er ráð fyrir að hefja rannsóknir srax á þessu ári. Í framhaldi af þeim verður síðan unnið að hönnun og útboðsgögnum þannig að verktilhögun verði sem hagkvæmust. En um er að ræða stórt og nokkuð flókið verkefni . Töluverð vinna verður t.d. við mat á um-hverfisáhrifum framkvæmda. Gróflega má áætla að undirbúningur fram-kvæmda kosti um 200 m.kr., sem er inni í heildarkostnaðaráætlun fyrir verkið. Dýrasti hluti undirbúningsins eru kjarnaboranir, sem verða sérstaklega flóknar þar eð engin vegtenging er til Héðinsfjarðar.
Framkvæmdir
Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að rannsóknir og annar undirbúningur fyrir göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar standi yfir í ár og næsta ár. Ákvörðun um útboð þessara verkefna og í hvort þeirra verður ráðist fyrst eða hvort þau verða unnin samhliða, verði tekin þegar rannsóknir eru komnar á góðan rekspöl eins og áður var nefnt. Nokkuð erfitt er að meta nákvæmlega þann sparnað sem hlýst af því að bjóða út saman nokkur göng sem unnin yrðu samfellt hver á eftir öðrum eða jafnvel samhliða, í stað þess að bjóða út hver göng fyrir sig. Sparnaðurinn felst aðallega í betri nýtingu og þar af leiðandi minni kostnaði við mannahald, tækjakost, ýmsan búnað og aðstöðu verktaka. Auk þessa væri öll áætlanagerð, fjárfestingar og þjálfun mannskaps verktaka mun markvissari ef um stór útboð væri að ræða sem ætti einnig að skila sér í lægri einingaverðum. Fyrir verkkaupann myndi stór útboðspakki kalla á langtíma fjármögnun með meiri festu í áætlanagerð og hugsanlega meiri hagkvæmni. Kostnaður verkkaupa við undirbúningsrannsóknir, hönnun, útboð og framkvæmdaeftirlit ætti að vera lægri við stóra pakka vegna betri nýtingar á mannskap og tækjum. Að mati Vegagerðarinnar má lauslega áætla heildarsparnað við útboð á stórum framkvæmdaeiningum 5 – 10 %, og þó líklega nær lægri tölunni. Fyrir þau tvö verkefni sem lagt er til að verði fyrst í röðinni gæti sparnaðurinn því numið 400 – 600 m.kr. Það er því eftir miklu að sækjast að ná sem hagkvæmusu áföngum
Rannsóknir á Vestfjörðum og Austurlandi
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að hefja rannsóknir á jarðgöngum á Vestfjörðum og austurlandi á árinu 2002 þegar framkvæmdir hefjast við göngin til Siglufjarðar og Reyðarfjartðar. Áætlun gerir ráð fyrir 50milljónum á ári til rannsókna árin 2002 -2003-2004.
Um er að ræða rannsóknir á göngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem eru í forgangshópi í tillögum Vegagerðarinnar og síðan ný göng milli Eskifjarðar og Neskaupsstaðar í stað Oddsskarðsganga og hugmyndir um göng milli Héraðs og Voppnafjarðar.
Þeir sem þekkja til aðstæðna á Vestfjörðum vita að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar ásamt með endurbótum á vegi yfir Dynjandisheiði eru forsenda fyrir heilsársvegi milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar. Í dag er Vesturbyggð og Tálknafjörður án vegtengingar a.m.k. fimm mánuðu á ári þegar vegir eru ófærir vegna snjóa svo sem nú er. Jarðgöng úr Dýrafirði munu því rjúfa vetrareingngrun þeirra byggða og auka til muna hagkvæmni útgerðar og fiskvinnslu í þorpunum og skapa nýja möguleika í ferðaþjónustu á svæðinu.
Ný göng til Neskaupsstaðar með betri vegi milli byggðanna inna Fjarðarbyggðar mun auðvitað breyta miklu fyrir mið austurland og færa byggðina mikið saman frá því sem nú er. Því er gert ráð fyrir rannsóknum sem gætu leitt til framkvæmda þegar fram líða stundir.
Með nýjum vegi um Háreksstaðaleið sem unnið er að og með nýjum vegi um Hofsárdal verður mikil bót á vegtengingu til Vopnafjarðar. Engu að síður er talið mikilvægt að huga að göngum af Héraði til Vopnafjarðar og gerir áætlunin ráð fyrir því að rannsóknir fari fram á gangastæði sem kæmi til skoðunar í framtíðinni.
Að lokum þetta:
Meginröksemdir fyrir gerð næstu jarðganga samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er efling viðkomandi byggða með betri vegtengingum. Þau eiga að leysa varanlega ýmsa flöskuhálsa á vegakerfi landsins. Göngin eiga að stækka atvinnu- og þjónustusvæði mikilvægra byggðakjarna á landsbyggðinni, það er á Miðausturlandi og Eyjafjarðarsvæðinu. Þau munu stytta vegalengdir verulega og í báðum tilfellum þarf að fjárfesta í vegabótum sem nýtast lítið ef jarðgöng koma síðar. Heildarniðurstaðan verður sterkari byggð utahn höfuðborgarinnar og viðspyrna við fólksflutningum milli landshluta. Aðgerðir sem stuðla að jafnvægi í þróun byggðar eru öllum landsmönnum til hagsbóta.
Forseti. Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og umfjöllun í samgöngunefnd.