Ágætu samherjar, samstarfsmenn og aðrir íbúar Norðvesturkjördæmis.
Nú er komið að starfslokum mínum sem alþingismanns. Ég hef átt því láni að fagna að vinna með mörgu góðu fólki, hvaðanæva úr kjördæminu. Sú samvinna hefur reynst farsæl. Ég er þakklátur fyrir að mér hafi verið treyst fyrir málefnum kjördæmisins og vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem unnið hafa með mér, bæði innan Sjálfstæðisflokksins sem og öðrum, fyrir gott samstarf.
Þegar kosið var til Alþingis vorið 2007 gerði ég ráð fyrir að kjörtímabilið yrði fjögur ár. Ég hafði þá þegar tekið ákvörðun um að þetta yrði mitt síðasta kjörtímabil sem alþingismaður. Ég gerði grein fyrir þessari niðurstöðu á
kjördæmisráðsþingi Sjálfstæðisflokksins sem haldið var í Borgarnesi í vetur og þá ræðu má nálgast hér.
Það er ánægjulegt að hverfa af vettvangi stjórnmálanna, vitandi að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu eru öflugt fólk, með mikla og víðtæka reynslu sem nýtast mun á Alþingi Íslendinga og til að leiða þjóðina til sóknar og uppbyggingar. Ég treysti þessu fólki til góðra verka.
Ég og fjölskylda mín viljum á þessum tímamótum þakka íbúum Norðvesturkjördæmis fyrir góðan stuðning og vináttu í gegnum tíðina um leið og við hvetjum ykkur að taka höndum saman til að halda áfram að byggja upp samfélagið svo hér megi í framtíðinni blómstra gott mannlíf.
Stykkishólmi, 23. apríl 2009
Sturla Böðvarsson alþingismaður