Samstarfskonur mínar í samgönguráðuneytinu munu að sjálfsögðu ekki vinna lengur en til klukkan 14:08 á kvennafrídeginum 24. október.

Konur í ráðuneytinu munu leggja sitt að mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti þrátt fyrir að staða þeirra innan ráðuneytisins sé síst verri en karla. Í minni ráðherratíð hefur verið unnið skipulega að því að bæta hlut kvenna með þeim árangri að í stjórnunarstöðum embættismanna innan ráðuneytisins eru jafn margar konur og karlar. Reyndar er staðan sú að nákvæmlega jafn margar konur og karlar starfa hjá ráðuneytinu.

Þegar kemur að skipun í nefndir, stjórnir og ráð vandast málið. Auðvitað er lítil vörn í því fyrir ráðherra að konur gefi sig lítt að verkefnum á sviði siglingamála, vegamála eða hafnamála. Eina afsökunin sem taka mætti gilda eru tilnefningar samtaka eða stéttarfélaga sem sjaldan tilnefna konur sem sína fulltrúa, þegar óskað er eftir tilnefningu þeirra.

Ég hef unnið skipulega að því að nýta krafta kvenna á vettvangi samgönguráðuneytisins. Má þar nefna kjör Rannveigar Rist verkfræðings sem stjórnarformanns Símans. Skipun Sigríðar Finssen hagfræðings sem formanns Hafnaráðs, skipun Geirþrúðar Alfreðsdóttur verkfræðings og flugstjóra sem formanns Rannsóknarnefndar flugslysa, skipun Ástríðar Scheving Thorsteinsson lögfræðings sem formanns nefndar um farbann skipa, skipun Ingu Hersteinsdóttur verkfræðings í Rannsóknarnefnd umferðarslysa og skipun Ásdísar J. Rafnar lögfræðings sem formann Rannsóknarnefndar umferðarslysa.
Þá eru margir mínir nánustu samstarfsmenn konur. Má þar nefna Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu, Unni Gunnarsdóttur skrifstofustjóra á skrifstofu ráðherra og Helgu Haraldsdóttur skrifstofustjóra á skrifstofu ferðamála.

Það er ekkert sem réttlætir mismunun kynjanna. Mikilvægt er að hver og einn stjórnandi leggi sitt að mörkum og vinni skipulega að því að jafnrétti verði svo sjálfsagður hlutur að kvennafrídagur heyri sögunni til. Áfram konur!