Í dag er frétt í Morgunblaðinu um að Árni Sigurðsson, flugstjóri, hafi fengið heilbrigðisvottorð sem færir honum flugskírteinið að nýju. Þetta eru vissulega tíðindi eftir allt sem á undan er gengið í málefnum flugstjórans.
Ég tel af þessu tilefni nauðsynlegt að rifja málið upp nú þegar þriggja lækna úrskurðarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að flugstjórinn hafi fulla heilsu til þess að fá flugskírteini.

Í byrjun þessa árs skrifaði ég á heimasíðu mína yfirlit um nokkur mál sem til umfjöllunar hafa verið í ráðuneytinu. Eitt þeirra er mál flugstjórans hjá Flugleiðum, sem hefur staðið í deilum við lækna, vegna heilbrigðisvottorðs. Niðurstaða þessa máls er að ráðuneytið fór rétt að öllum stjórnsýslureglum og tveir hópar sérfræðilækna hafa komist að þeirri niðurstöðu sem trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar komst að í fyrstu, að flugstjórinn hefði heilsu til að fá flugskírteini. Það er von okkar í samgönguráðuneytinu að þessu máli sé nú lokið. Grein mína geta lesendur lesið í heild á heimasíðunni.

Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar

Útgáfa flugskírteina er ábyrgðarstarf og um hana gilda strangar reglur hvað varðar heilbrigði flugmanna. Í langan tíma hafa staðið deilur milli Félags atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugmálastjórnar vegna útgáfu flugskírteinis til flugstjóra hjá Flugleiðum sem hafði veikst, en var talinn hafa náð heilsu á ný. Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar hafði gefið honum heilbrigðisvottorð til að fljúga, en með takmörkunum sem flugmaðurinn og FÍA sætti sig ekki við. Í gildi eru skýrar reglur um hvernig bregðast eigi við þegar slíkar deilur koma upp. Til þess að gæta fyllsta öryggis og til að ganga ekki á rétt flugmanna, gildir sú regla að skipuð er þriggja lækna úrskurðarnefnd sérfræðinga, sem fer yfir mál flugmanna og gefur umsögn um heilsufar viðkomandi flugmanns, eins og gert var í þessu tilviki. Niðurstaða úrskurðarnefndar á að vera endanlegur úrskurður, sem trúnaðarlækni ber að fara eftir sem hann gerði ekki. Málið var kært til ráðuneytisins sem stjórnsýslukæra og var niðurstaða ráðuneytisins sú að fara ætti að niðurstöðu úrskurðarnefndar læknanna og gefa út skírteini án fyrirvara. Þessari niðurstöðu vildi trúnaðarlæknirinn ekki sæta.
Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar veittist að samgönguráðherra í fjölmiðlum og í frægu forsíðuviðtali í DV hélt hann því fram að samgönguráðherra hefði haft pólitísk afskipti af útgáfu flugskírteinis til flugstjóra Flugleiða. Þessi uppákoma varð ekki til að bæta umræðuna um flugöryggismálin og ráðuneytið mátti sæta stöðugum árásum vegna málsins. Til þess að vinna faglega að málinu skipaði ég þriggja manna hóp til þess að skoða embættisfærslu trúnaðarlæknis og aðkomu ráðuneytisins að málinu. Í hópnum voru tveir virtir hæstaréttarlögmenn þeir Andri Árnason og Gestur Jónsson auk landlæknis Sigurðar Guðmundssonar. Niðurstaða þeirra varð sú að ráðuneytið og ráðherra hefði farið í einu og öllu eftir stjórnsýslureglum og trúnaðarlækni hefði borið að gefa út vottorð án fyrirvara í kjölfar úrskurðar læknanefndarinnar. Árásirnar á ráðherra höfðu því verið tilefnislausar enda skrifaði trúnaðarlæknirinn bréf til ráðuneytisins þar sem hann dró ummæli sín til baka. Sættir náðust og samkomulag varð um að læknirinn snéri til baka til starfa hjá Flugmálstjórn, reynslunni ríkari um skyldur sínar og ráðherra um meðferð mála. En deilur læknanna um heilbrigði flugmannsins standa enn. Er það nokkurt umhugsunarefni, sem félag atvinnuflugmanna ætti að taka á gagnvart sínum félögum. Að fenginni þessari reynslu er nauðsynlegt að tryggja betur í lögum aðkomu ráðuneytisins að slíkum málum svo komið verði í veg fyrir deilur. En umfram allt þurfa reglur að vera þannig að við getum treyst því að útgáfa flugskírteina sé hafin yfir allan vafa. Umræður um þetta mál voru erfiðar, eftir að tilraun var gerð til þess að koma því inn hjá almenningi að ráðherra hefði tekið fram fyrir hendur læknisins og hlutast til um útgáfu flugskírteinis. Með faglegri umfjöllun var því hnekkt. Vonandi læra flugmenn og fluglæknar nokkuð af þeirri lexíu sem þetta