Eftirfarandi fer ávarp Sturlu Böðvarssonar á málþingi um landflutninga og umferðaröryggi sem haldið var að frumkvæði ráðherra.
Ágætu fundargestir.
Ég vil þakka þeim góða hópi sem er mættur hér í dag til að ræða um landflutninga og umferðaröryggi.
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni sú mikla umræða sem verið hefur í samfélaginu undanfarin misseri um aukningu þungaflutninga um vegi landsins. Margir setja þessa aukningu í samhengi við þá ákvörðun skipafélaganna að leggja niður strandsiglingar á sínum tíma. Samkvæmt þeim úttektum sem ég hef látið vinna er sú tilfinning að nokkru leiti á misskilningi byggð. Vissulega hafði fækkun skipaferða með ströndum nokkur áhrif á umferð flutningabíla um vegakerfið, en meginástæða aukinnar þungaumferðar eru hin auknu umsvif í samfélaginu þessi misserin.
Tímarnir breytast og samfélagið þróast. Það sem þótti ásættanlegt í eina tíð þykir ekki gjaldgengt í dag. Hvergi sést þetta betur en í vöruflutningum landshorna á milli. Krafa dagsins er að fá vöruna til sín á eins stuttum tíma og mögulegt er – helst í gær. Til að sinna þeirri kröfu standa landflutningar mun framar en strandsiglingar, af augljósum ástæðum.
Í umræðunni um aukna þungaflutninga hafa komið fram miklar fullyrðingar, sumar réttar, aðrar rangar. Málþingið sem við höldum hér í dag mun hjálpa okkur að fara í saumana á málinu með það fyrir augum að gera okkur sem gleggsta grein fyrir raunverulegri stöðu mála. Hvar kreppir skóinn og hver eru mikilvægustu úrlausnarefnin. Það þjónar ekki tilgangi að setja þessar mikilvægu atvinnugreinar í uppnám vegna deilna um öryggi á vegum – deilna sem kunna að byggja á röngum forsendum.
Nú er unnið eftir Samgönguáætlun sem gildir fyrir tímabilið 2005-2008. Í endurskoðun er 4 ára áætlunin fyrir árin 2007-10 og langtímaáætlunin sömuleiðis en hún nær til áranna 2007-2018.
Við þá endurskoðun þurfum við að skoða hvort gera þurfi sérstakt átak á vegum sem eru þýðingarmiklar flutningaleiðir. Hér getur verið um að ræða aðgerðir beint vegna umferðaröryggis þessara vega, uppbyggingu þeirra upp úr snjó og til þess að ekki komi til þungatakmarkanna. Aukið burðarþol og breikkun þeirra vegna þungaflutninga svo eitthvað sé nefnt. Fleira má hér auðvitað nefna svo sem breikkun einbreiðra brúa, lagfæringu krappra beygja, minnkun halla o.s.frv.
Á sama hátt þarf að skoða þá þjónustu á vegakerfinu sem veitt er. Er hún nægjanleg, er hún veitt á þeim tíma sem þessi umferð fer um o.s.frv. Stefna mín í þessum efnum er að öll þjónusta á vegakerfinu og allar endurbætur auki öryggi.
Nú er unnið eftir sérstakri umferðaröryggisáætlun sem ég fékk samþykkta sem hluta af samgönguáætlun á síðasta ári. Þetta er í fyrsta skipti sem unnið er jafn markvisst að umferðaröryggismálum og raunin er. Markmið eru skilgreind, framkvæmd ákveðin og fjármunum ráðstafað með hliðsjón af því.
Tölur síðasta árs, hvað varðar banaslys og alvarleg slys, benda til þróunar í rétta átt, en óvarlegt er að leggja of ríkan skilning í þróunina þar sem stutt er síðan farið var að vinna eftir þeirri umferðaröryggisáætlun sem er í gildi.
Rætt er um að slysaþróunin, þegar kemur að flutningabílunum, sé ekki nægjanlega jákvæð. Á þessu verðum við að taka með öllum ráðum.
Það eru mörg mál sem snúa að umferðaröryggismálum í vinnslu í ráðuneytinu. Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta kennslu og fræðslu. Leiðbeinandi hraðamerkingar hafa verið settar upp. Leiðbeiningar og áróður fyrir erlenda ferðamenn hefur verið aukinn. Ökugerði til æfinga fyrir unga ökumenn, jafnt og þá sem lengra eru komnir, er í undirbúningi. Vegrýni verkefni er komið í gang í umsjón FÍB og svo mætti lengi telja.
Nokkur umræða hefur orðið um hið meinta lögregluvald sem ég á að vilja færa vegagerðarmönnum er starfa við eftirlit á vegum. Þessi umræða er á misskilningi byggð, en ef ég þarf að sitja undir henni til að bæta umferðaröryggi í landinu, þá bara geri ég það. Það er ótækt að á vegunum séu flutningabílar með farm sem er ekki tryggilega fastur. Það er ótækt að á vegunum séu flutningabílar, sem svefndrukknir ökumenn stjórna og það er ótækt að á vegunum geti verið bílar þar sem til að mynda bremsubúnaði er ábótavant. En sem betur fer þá eru flestir ökumenn vel meðvitaðir um ábyrgð sína og bílar og farmur í góðu lagi. Engu að síður kennir reynslan okkur að eftirlit verður að vera í gangi. Og þá ekki síst leiðbeinandi eftirlit.
Þessu málþingi sem við höldum hér í dag er ætlað til að kafa ofan í þessi mál. Hvernig getum við tryggt að umferðaröryggi sé sem best? Hvað getum við gert á vegakerfinu, hvað getum við gert varðandi bílana sjálfa og hvað getum við gert til að tryggja að ökumennirnir séu sem best í stakk búnir til að höndla þær aðstæður sem geta komið upp á vegum landsins?
Góðir fundargestir, ég vona að hér verði uppbyggilegar og lærdómsríkar umræður. Þakka ykkur fyrir.