Svar samgönguráðherra við grein Hjálmars Árnasonar alþingismanns ,,Landhelgisgæslan velkomin á Suðurnes“

Í Morgunblaðinu í dag, 22. júlí, er grein eftir alþingismanninn Hjálmar Árnason. Ber hún yfirskriftina ,,Landhelgisgæslan velkomin á Suðurnes“. Þar leggur þingmaðurinn rétt eina ferðina land undir fót af Suðurnesjum til Reykjavíkurflugvallar í þeim tilgangi að leggja hann niður og færa hann með manni og mús í sína heimabyggð.
Þessi óskhyggja þingmannsins er góðra gjalda verð væri hún ekki byggð á ótrúlegum misskilningi frá öllum hliðum. Þingmaðurinn virðist hafa gleymt að við erum nýbúin, að fengnum öllum leyfum borgaryfirvalda, að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll eftir ströngustu reglum um flugöryggi.
Í upphafi greinarinnar segir þingmaðurinn: ,,Nú hefur samgönguráðherra lýst því yfir að flugmálayfirvöld geti ekki fallist á að nýbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss verði reist þar sem áætlað er, skv.ákvörðun skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar. Rök ráðherrans eru m.a. þau að sjúkrahúsið muni þrengja óeðlilega að starfsemi Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli“. Þessi tilvitnun þingmannsins í afstöðu mína er óskiljanleg. Ég hef aldrei látið slík orð falla. Þvert á móti.
Áformaðar byggingar á lóð sjúkrahússins falla vel að starfsemi flugvallarins og eru í fullu samræmi við endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Auk þess er unnið hörðum höndum af Vegagerðinni við að færa Hringbrautina til þess að fella sem best saman flugvallarsvæðið og fyrirhugaðar byggingar Landspítalans. Það sama má segja um framkvæmdir á vegum Knattspyrnufélagsins Vals sem eru skipulagðar í góðu samræmi við þarfir flugvallarins, en þingmaðurinn nefnir það svæði einnig.

Til viðbótar við þennan misskilning þingmannsins kallar hann eftir auknum kostnaði okkar vegna starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli þegar hann segir: ,,Við blasir að Íslendingar munu þurfa að taka í verulegum mæli við rekstri Keflavíkurflugvallar“. Hver segir það? Er einhver að óska eftir því? Er það ekki svo að kostnaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er vegna samnings um varnir okkar og NATO þjóðanna?
Trúlega er þingmaðurinn að rugla saman óskildum málum. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna FÍA hefur réttilega gert alvarlegar athugasemdir við þau áform að leyfa Háskólanum í Reykjavík að byggja inn á öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar. Undir þær athugasemdir hef ég tekið enda með öllu ófært að byggja húsnæði fyrir háskólastarfsemi inni á öryggissvæði flugvallar og í mikilli nálægð við flughlöð Landhelgisgæslunnar þar sem björgunarþyrlurnar athafna sig.
Ég vil af þessu tilefni segja við þingmanninn, Hjálmar Árnason, ekki meir, ekki meir.