Fátt er mikilvægara lýðræðinu en traustir og trúverðugir  fjölmiðlar. Fyrst eftir hrunið óttaðist ég það hvern dag að blöðin Morgunblaðið, sem ég borga fyrir, og Fréttablaðið, sem ég fæ án þess að greiða beint fyrir, hættu að berast inn um bréfalúguna.

Sérstaklega hafði ég áhyggjur af því að Morgunblaðið hætti að koma út. Eins og gengur hef ég stundum verið ósáttur við hvernig blaðið hefur tekið á málum, en oftar mjög sáttur. Ég og Morgunblaðið höfum átt samleið og ritstjórn blaðsins tekur eðlilega skýra  afstöðu til málefna og fylgir sjónarmiðum blaðsins fast eftir. Á því hefur engin breyting orðið nema síður sé.  En skrif sumra blaðamanna síðustu misserin hafa verið undarleg þegar þeir taka til við að skrifa í eigin nafni  sérstaka pistla í blaðinu og lýsa fjálglega afstöðu sinni til stjórnmálamanna sem þeir eiga síðan að fjalla um og taka viðtöl við sem fréttamenn. Þeir blaðamenn ættu að lesa viðtalið við Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur sjónvarpsfréttamann  í  Sunnudagsmogganum. Þar talar fréttamaður sem ber virðingu fyrir starfi sínu.

En hér ríkir ritfrelsi og Mogginn hefur veitt blaðamönnum sínum frelsi til að nota „eignina“, síður Morgunblaðsins, til að tjá sig og koma á framfæri  afstöðu til manna og málefna. Þetta er væntanlega þróun sem fylgir miklum breytingum í fjölmiðlun með Netinu. Ekki fer á milli mála að áhrif blaðamanna eru mikil. Flestir blaðamenn nota þetta frelsi til að skrifa um áhugavert efni án þess að stunda pólitíska áreitni.  Aðrir „nota ferðina“ eins og hann afi minn sagði, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og beita sér með og á móti einstökum mönnum og taka afstöðu til pólitískra deilumála.

Nýir eigendur Morgunblaðsins
Sem betur fer tóku kjarkmiklir eigendur við Mogganum eftir hrunið  og þeir hætta eign sinni í þessum áhætturekstri sem blaðaútgáfa er. En fyrri eigendur Morgunblaðsins misstu þessa merkilegu eign sína eins og margt annað. Þeir tóku áhættu og töpuðu. Þannig gerast kaupin á eyrinni í viðskiptum á miklum umrótatímum og útgáfa blaða stendur og fellur með árangri við rekstur blaðsins og trúverðugleika þeirra sem skrifa blaðið.  Og blaðamenn ættu öðrum fremur að hafa góðan skilning á því að það skiptir máli að til séu einstaklingar sem vilja stunda atvinnurekstur. Sumir rata síðan í stjórnmálin og nýta þar reynslu sína og þekkingu við allt baslið í atvinnulífinu og áhættuna sem því fylgir.

Höggi komið á góðan mann
Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil og nefni þetta er, að einn af ágætum blaðamönnum Morgunblaðsins, Kolbrún Bergþórsdóttir, sem ég hef  mætur á sem blaðamanni, skrifar mjög undarlega grein í Moggann í síðustu viku og gerir athugasemdir við pistil minn á vefritinu Pressunni um nauðsyn þess að landinu sé stjórnað af trúverðugum einstaklingum á borð við Bjarna Benediktsson.

Þar kemur berlega fram undarleg  afstaða hennar til þeirra sem taka þátt í atvinnulífinu og leggja til eignir sínar svo tryggja megi rekstur tiltekinna atvinnufyrirtækja.  Að þessu sinni varð sérstaklega fyrir barðinu á henni formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sem  virðist að mati blaðamannsins hafa unnið sér það til óhelgis að hafa verið öflugur þátttakandi í atvinnulífinu með fjölskyldu sinni og  telur  að „fréttaflutningur af viðskiptatengslum  hans hafi ekki orðið til þess að styrkja stöðu hans“.

Þar er hún væntanlega að vitna til „frétta“ úr DV og róginum úr þeim herbúðum sem hún byggir afstöðu sína á. Þar virðast vera á ferðinni sérstakir hatursmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa leitt fram alla hesta sína til þess að reyna með óvönduðum málflutningi að koma höggi á formann Sjálfstæðisflokksins og um leið á flokkinn. Það veldur vissulega vonbrigðum þegar blaðamenn Morgunblaðsins eru farnir að skrifa heilu pistlana og byggja á slíkum fréttum og orðrómi af síðum DV eða getgátum og hálfkveðnum vísum úr Kastljósi RÚV sem vissulega hefur áhrif og mótar afstöðu almennings til manna og málefna.

Er leiðtoginn til staðar
Kolbrún Bergþórsdóttir segir frá því í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag að óþarft sé að leita að þjóðarleiðtoga. Beinir  hún orðum sínum til mín.  Hún segist  nú þegar hafa  fundið hann. Það þurfi því ekki að hvetja forystumenn stjórnarandstöðunnar, svo sem Bjarna Benediktsson, til að vera viðbúnir eins og ég hvatti til í pistli mínum á Pressunni.

Að mati blaðamannsins er núverandi fjármálaráðherra hinn eini sanni þjóðarleiðtogi. Fjármálaráðherra er vissulega margt til lista lagt og hann hefur sýnt mikla þrautseigju sem ber að þakka og er þekktur árásargjarn pólitískur garpur. En honum hefur ekki farnast vel að laða fólk til samstarfs innan síns eigin flokks. Hvað þá að hann sé líklegur til þess að leiða alla þjóðina til sátta og samstilltra átaksverkefna sem blasa við um allt í þjóðfélaginu.  Hann lagði línurnar og  samdi um Icesave og hefur hangið á þeim samningum eins og hundur á roði. Hann hefur svikið flest sín kosningaloforð án þess að hika. Hann lætur viðgangast að stöðvuð sé atvinnu uppbygging  við  að nýta jarðvarma og vatnsaflsvirkjanir til raforkuframleiðslu.  Hann  hrakti Ögmund Jónasson úr ríkisstjórn og hann ryðst áfram  í stjórnmálunum líkt og leikmaður í ruðningsíþróttinni.  Öll er sú framganga kunnugleg fyrir þá sem hafa fylgst með stjórnmálunum síðustu áratugi og setið á Alþingi. En Kolbrún hefur samt tröllatrú á fjármálaráðherranum, sem er virðingarvert, og hefur hvorki meira né minna en afskrifað aðra forystumenn flokkanna.

Það er enginn forustuvandi 
Ég þekki ekki hvaða nánu sambönd Kolbrún Bergþórsdóttir hefur innan Sjálfstæðisflokksins. Hún fullyrðir að flokkurinn búi við forystuvanda að mati „dyggra stuðningsmanna“ flokksins.  Einhverra hluta vegna hefur Kolbrún ríkan vilja til þess að gera lítið úr formanni Sjálfstæðisflokksins á síðum Morgunblaðsins. Sjáanlega í þeim tilgangi að koma því rækilega inn hjá lesendum blaðsins, að þátttaka Bjarna Benediktssonar í atvinnulífinu skaði hann og flokkinn.

Getur það verið vegna þess að ættingjar hans hafi stundað viðskipti með góðum árangri, en tapað í hruninu eins og önnur hver fjölskylda í landinu? Þess vegna  skuli gera allt til þess að gera formann Sjálfstæðisflokksins tortryggilegan? Blaðamenn þekkja að dropinn holar steininn þegar fjölmiðlar eru annars vegar að verki, það er þekkt. Þetta er óboðlegur málflutningur og mætti halda að tilgangurinn sé sá einn að skaða Sjálfstæðisflokkinn og því megi öllu kosta til.

Sem betur fer er staða Bjarna Benediktssonar sterk innan Sjálfstæðisflokksins hvað sem öllum skoðanakönnunum líður. Í öllum verkum sínum sem þingmaður hefur hann sýnt ábyrga afstöðu og unnið vel að málum. Það þekki ég ágætlega. Hann er traustsins verður vegna verka sinna á þeim vettvangi. Þjóðin þarf á slíkum leiðtogum að halda.  Það er hinsvegar ekki í þjóðar þágu að grafa undan ungum konum og körlum  sem leggja heiður sinn og krafta að veði til þess mikilvæga verkefnis að vinna fyrir þjóðina sem forystumenn  stjórnmálaflokkanna. Við eigum að standa við bakið á okkar besta fólki sem leggur sig fram.
Stjórnmálaflokkarnir eru grunneiningar í stjórnkerfi okkar og þeim þarf að stjórna af festu og ábyrgð. Til þess þarf gott fólk.