Samgönguráðherra og eiginkona hans, frú Hallgerður Gunnarsdóttir, tóku í dag þátt í móttöku nýjustu Boeing þotu Flugleiða.
Við athöfn í flugskýli Flugleiða á Keflavíkurflugvelli jós eiginkona ráðherra hina nýju flugvél vatni úr bæjarlæknum á Eiríksstöðum í Haukadal og gaf vélinni nafn Leifs Eiríkssonar.

Ráðherra ávarpaði forsvarsmenn Flugleiða og starfsfólk og óskaði því til hamingju með glæsilegan farkost. Hann minnti á þá staðreynd að á síðasta ári hafi ferðaþjónustan lagt þjóðarbúinu til meiri gjaldeyristekjur en stóriðja, og væri nú önnur stærsta atvinnugrein þjóðarinnar á eftir sjávarútveginum. Þá hvatti ráðherra starfsfólk Flugleiða og ferðaþjónustunnar almennt til að vinna áfram að vexti og viðgangi þessarar mikilbægu atvinnugreinar.

Ræða ráðherra í heild sinni fer hér á eftir:

Ágætu samkomugestir.

Ég vil bjóða áhöfn nýrrar þotu Flugleiða velkomna til landsins með þennan glæsilega farkost. Einnig vil ég óska Flugleiðum til hamingju með nýja þotu til viðbótar þeim öfluga flugvélaflota sem félagið hefur yfir að ráða.

Þá er ástæða til þess að fagna glæsilegum búningum áhafna og nýju traustvekjandi útliti flugvéla Flugleiða. Allt skiptir það miklu máli og sýnir hversu mikla áherslu félagið leggur á viðmót og þjónustu við farþega jafnframt því að undirstrika fagurt útlit flugvélanna með listrænu litavali og yfirveguðum skreytingum.

Flugið gegnir stöðugt mikilvægara hlutverki í samgöngum og öllum samskiptum okkar Íslendinga við önnur lönd. Hraðinn í viðskiptum kynslóðar internetsins er slíkur að ekkert annað en hraði þotunnar dugar þeim sem ferðast milli landa eða þurfa á daglegum ferðum að halda vegna flutninga.

Þá varðar miklu að geta treyst á áhafnir og starfslið á borð við það sem Flugleiðir hafa í þjónustu sinni. Og það varðar ekki síður miklu að hafa jafn traust og öruggt fyrirtæki sem Flugleiðir eru í flugrekstrinum. Hjá svo farsælu fyrirtæki gildir ekki hugtakið að tjalda til einnar nætur.

Í hvert sinn sem færi gefst leitast ég við að koma því á framfæri hversu mikilvægu hlutverki íslensk ferðaþjónusta gegnir í þjóðarbúskap okkar. Og þar er flugið gildur hlekkur í öflugri og stækkandi keðju fyrirtækja. Á síðasta ári náði ferðaþjónustan því að verða næststærst atvinnugreina á eftir sjávarútvegi við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Ný þota ætti að geta tryggt enn frekari vöxt og hagkvæmni í ferðaþjónustunni og aukna sókn á erlendum mörkuðum og aukna flutninga fyrir erlendra viðskiptavina í þágu aukinnar gjaldeyrisöflunar.

Nýju Boeng 757 þotunni er því fagnað af öllum þeim sem vilja veg ferðaþjónustunnar sem mestan og öllum þeim sem hvetja til aukinnar velmegunar í landinu. Og þar eru í raun á einu og sama farrými öll íslenska þjóðin sem fagnar framtaki Flugleiðamanna.

Megi gæfan fylgja þessari glæsilegu þotu og áhöfn hennar og öllu starfi á vegum Flugleiða.