Í kvöld klukkan 19:00 verður haldinn málfundur um öryggismál sjófarenda í Guðmundarbúð á Ísafirði.

Ég vil sérstaklega hvetja sjómenn og útgerðarmenn til að mæta.

Fundurinn stendur rúmar 2 klukkustundir og er dagskráin fjölbreytt. Meðal áhersluatriða er umfjöllun um árangur af langtímaáætlun um öryggi sjófaranda. Farið verður yfir stöðu verkefna og greint frá því sem áunnist hefur. Þá verða nýjungar í öryggisfræðslu sjómanna kynntar, sem og upplýsingakerfi fyrir sjófarendur. Talsmenn útgerðarmanna og sjómanna á Vestfjörðum fara yfir áherslur í öryggismálum sjómanna og Vaktstöð siglinga fer yfir björgun á sjó. Á fundinum í kvöld verður Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fundarstjóri.

Fundirnir eru haldnir í tengslum við áætlun Samgönguráðuneytisins um öryggi sjófarenda og að þeim standa: Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeiganda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Ísland, Samgönguráðuneytið og Siglingastofnun sem fer með framkvæmd áætlunarinnar.