Ágætu málþingsfulltrúar.

Ég vil bjóða ykkur velkomin til þessa málþings og þá sérstaklega Jack Short framkvæmdastjóra Evrópusamtaka samgönguráðherra, sem var svo vinsamlegur að mæta til málþingsins og flytja hér fyrirlestur.

Þá vil ég skipa sem fundarstjóra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur alþingismann sem sæti á í samgöngunefnda þingsins.
Samgöngukerfi hverrar þjóðar er forsenda fyrir styrku efnahagslífi og traustu velferðarkerfi.

Það skiptir því miklu máli fyrir okkur Íslendinga að byggja hratt upp samgöngukerfið og ná sem mestum árangri á sem skemmstum tíma.

Fyrir Alþingi liggur nú til loka afgreiðslu löggjöf um samgönguáætlun. Við höfðum gert ráð fyrir því að frumvarpið hefði orðið að lögum fyrir málþingið en væntum þess að það geti orðið fyrir páska. Um málið er í raun sátt í þinginu þegar á heildina er litið.

Á grundvelli nýrrar löggjafar um samgönguáætlun, sem kemur í stað þriggja sjálfstæðra áætlana um vegakerfið , flugvelli og hafnir, verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun í haust og mun hún ná til allra þátta samgöngumála. Það skiptir því miklu máli að við nýtum tímann vel næstu sex mánuði við að móta stefnuna. Mikilvægt er að ná sátt um nýja samgönguáætlun sem nýtir sem best takmarkaða fjármuni og tryggir viðunandi samgöngur við byggðir landsins. Samgönguáætlun verður að taka tillit til vaxandi umferðar í þéttbýlinu og til helstu ferðamannastaða á landinu.

Samgöngukerfið verður að taka mið af þörfum atvinnulífsins, vaxandi ferðamannastraumi til landsins og kröfum um lækkun flutningskostnaðar.

Helstu þættir sem fjalla verður um og gera tillögur um í samgönguáætlun eru:

1. Skipulag, rekstur og uppbygging hafna í breyttu samkeppnisumhverfi með tilliti til nauðsynlegra byggðarsjónarmiða við nýtingu auðlinda hafsins með strandveiðum.

2. Skipulag, rekstur og uppbygging flugvalla og öryggiskerfa í fluginu.

3. Uppbygging vegakerfisins og þjónusta við vegfarendur svo sem vetrarþjónusta.

4. Skipulag almenningssamgangna og styrkir til sérleyfishafa og vegna flugs til jaðarbyggða.

5. Áherslur í umhverfismálum og orkunotkun í samgöngum.

Meðal vandasömustu þátta er stefnumörkun í almennings-samgöngum . Öllum má ljóst vera að leggja verður áherslu á að nýta sem best almenningssamgöngur ekki síst í mesta þéttbýlinu og einnig milli landshluta. Samkvæmt núgildandi löggjöf, sem er ný, geri ég ráð fyrir að bjóða út öll sérleyfi og leitast þannig við að ná hagkvæmni og bættu skipulagi. Sveitarfélögin verða hinsvegar að sjá um almenningssamgöngur innan bæjarmarka eins og eðlilegt er. Engu að síður er eðlilegt að fjallað sé um almennings samgöngur í samgönguáætlun og gera þar ráð fyrir þeim stuðningi sem ríkisvaldið stendur fyrir.

Ágætu fundarmenn.

Ég vænti þess að umræður hér á málþinginu verði fróðlegar og skoðanaskipti geti orðið til þess að færa okkur nær þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem fylgja þurfa nýrri samgönguáætlun.