Á vegum samgönguráðherra hefur stýrihópur um samræmda samgönguáætlun verið að störfum um nokkurt skeið. Stýrihópurinn heldur í dag málþing um samgönguáætlun á Hótel Lofteleiðum sem samgönguráðherra ávarpaði. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
Ágætu gestir.
Eins og allir þekkja sem hér eru inni þá er unnið að uppbyggingu og rekstri samgöngukerfis landsmanna eftir þremur sjálfstæðum áætlunum. Vegáætlun – og þar með jarðgangaáætlun – hafnaáætlun og flugmálaáætlun.
Áhugi minn hefur lengi staðið til þess að láta vinna eina samgönguáætlun sem næði til allra samgöngumáta. Eitt af mínum fyrstu verkum sem samgönguráðherra var að taka ákvörðun um að ráðist skyldi í gerð slíkrar áætlunar.
Það að gera samræmda samgönguáætlun er í sjálfu sér ekki ný hugmynd. Hugmyndir í þá veruna hafa af og til verið settar fram á opinberum vettvangi – en ekki orðið mikið úr verki, fyrr en nú.
Fyrsta heildstæða úttektin á samgöngumálum Íslendinga var gerð af danska verkfræðifyrirtækinu Kampsax fyrir samgönguráðuneytið árið 1968. Tilgangurinn með þeirri skýrslugerð var meðal annars að veita stjórnvöldum yfirsýn við mótun vegáætlunar fyrir árin 1969-1976. Skýrslan var auk þess nauðsynlegt fylgiskjal með umsókn til Alþjóðabankans um fjármagn til samgöngumannvirkja.
Alþingi hefur nokkrum sinnum ályktað um gerð samræmdrar samgönguáætlunar. Má nefna að á þinginu ‘87-‘88 var samþykkt þingsályktunartillaga um að skipa nefnd sem skyldi vinna að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála. Nokkuð var unnið að málinu en ekki gengið alla leið.
Svipuð þingsályktun var samþykkt 1998 og í henni var samgönguráðherra falið að skipa nefnd til að samræma áætlanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja í eina samgönguáætlun. Ekki fór svo að nefndin yrði skipuð.
Fljótlega eftir að ég tók við embætti fór ég yfir þessi mál sérstaklega og kannaði hvað hefur verið gert í gerð samgönguáætlunar í nágrannalöndum okkar. Meðal annars fór ég til Noregs í þessu skyni.
Að loknum nokkrum undirbúningi ákvað ég að skipa sérstakan stýrihóp sem hefði með málið að gera. Í stýrihópnum eiga sæti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er formaður hópsins, Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson forstjóri Siglingastofnunar og Þorgeir Pálsson flugmálastjóri. Markmiðið með þessari skipan stýrihópsins er að vinna að áætluninni í góðri samvinnu stofnananna þar sem horft er til allra samgöngumáta í einu.
Auk stýrihópsins eru fjórir vinnuhópar sem vinna að þessu viðamikla verkefni, þar af þrír undir stjórn Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar. Allir eru þessir hópar skipaðir fremstu sérfræðingum þessara stofnana.
Fjórði hópurinn sem fjallar um framtíðarsýn til 2030 er skipaður utanaðkomandi fólki og er Tryggvi Þór Herbertsson formaður hans. Of langt mál er að telja upp alla þá sem að þessu máli koma en þeir eru flestir eða allir viðstaddir hér í dag. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir þátttöku í þessu mikilvæga starfi.
Þær áætlanir sem við vinnum eftir í dag eru flugmálaáætlun og hafnaáætlun til fjögurra ára og vegáætlun til fimm ára, auk langtímaáætlunar í vegagerð til tólf ára. Þessar áætlanir fjalla aðallega um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum. Þær hafa þróast hver með sínum hætti þó svo að þær eigi margt sameiginlegt. Fjögurra ára áætlanirnar byrjuðu sem fjárfestingaráætlanir í landi sem var að nokkru leyti óbrotið undir samgöngumannvirki. Áherslurnar hafa breyst og í dag ganga flestar framkvæmdir í þá átt að bæta samgöngur sem þegar eru fyrir hendi.
Verkefnin á fjögurra ára áætlunum eru því oftar en ekki endurbætur hafnargarða, dýpkanir, endurbætur á flugleiðsögubúnaði, endurbætur vega, leggja varanlegt slitlag, byggja breiðari brýr eða nýja vegakafla sem stytta vegalengdir eða auka afkastagetu kerfisins í þéttbýli þar sem álagið er mest.
Miklar tækniframfarir við framkvæmdir leyfa mun fullkomnari mannvirkjagerð í dag fyrir lægri verð en fyrir t.d. 20 árum síðan. Til dæmis leyfa tækniframfarir byggingu mun öflugri grjótgarða fyrir verulega lægri einingarverð en gerðust fyrir 20 árum. Farartækin sem nota samgöngumannvirkin, bílarnir, skipin og flugvélarnar eru einnig mun tæknilega fullkomnari.
Gerðar eru meiri kröfur til öryggis farartækja og samgöngumannvirkja í dag en áður. Visst ósamræmi er til dæmis á milli þess hraða sem tæknistig bifreiða leyfir og þess hraða sem samgöngumannvirkin eru gerð fyrir. Þetta skapar hættu sem nauðsynlegt er að bregðast við – til dæmis með því að fækka einbreiðum brúm og tvöfalda vegi. Þá fylgir því auðvitað vandi hversu bifreiðunum hefur fjölgað hratt hér á landi.
Að auki hefur þróun byggðar og samgangna í landinu breytt áherslum varðandi fjárfestingar. Sem dæmi má nefna flug. Ekki fyrir ýkja löngu var flogið til mun fleiri áfangastaða en nú er gert. Má í því sambandi nefna Stykkishólm, Blönduós, Þingeyri, Fagurhólsmýri ofl.
Í þessum tilfellum hafa miklar framfarir í vegakerfinu orsakað það að fólk kýs nú að fara á eigin bifreiðum til og frá þessum stöðum. Þrátt fyrir hversu hagstæð lega Reykjavíkurflugvallar er fyrir þá sem eiga erindi til höfuðborgarsvæðisins og stöðugri fjölgun farþega í innanlandsfluginu.
Óhætt er að segja að töluverður áherslumunur er á núverandi hugmyndum að samgönguáætlun og þeim sem fram hafa komið fyrr á tímum. Hingað til hafa hugmyndirnar gengið út á að samræma fjögurra ára fjárfestingaráætlanirnar og stuðla að bættri nýtingu fjármagns og betri samhæfingu samgöngumáta. Vissulega er þetta eitt mikilvægasta markmiðið með samgönguáætluninni sem nú er unnið að.
Minn vilji stendur til þess að samgönguáætlun fjalli um samgöngumál frá víðara sjónarhorni og til lengri tíma en áður hefur verið talað um. Hugmyndin er að samgönguáætlunin fjalli einnig um rekstur kerfisins, gjaldtöku í samgöngum, fjármögnun, skattamál, umhverfismál, ýmsa þætti öryggismála, upplýsingamiðlun, almenningssamgöngur, samgöngukosti ferðamanna, fólksflutninga, vöruflutninga, byggðasjónarmið og svo mætti áfram telja.
Í verkefnaáætluninni sem lagt var af stað með var fyrsta verk vinnuhópanna að fara yfir stöðu mála í dag í öllum þessum málaflokkum. Einnig að greina veikleika og styrkleika við hvern málaflokk og líklega skammtímaþróun. Vinnuhóparnir hafa skilað yfirlitum sínum.
Annar áfangi, sem nú er nýhafinn, fjallar um að átta sig á hvert við viljum stefna og hvaða markmiðum við viljum ná. Í öðrum áfanga er einnig áætlað að greina frekar þá þætti sem hafa áhrif á framvindu mála í framtíðinni. Þetta málþing er hluti af stefnumótunarvinnunni. Tilgangur þess er að kalla til skrafs og ráðagerða þá sem þekkja samgöngur best og hlusta á þeirra sjónarmið og þær hugmyndir sem þeir kunna að hafa. Áætlað er að nýta það sem hér kemur fram við gerð samgönguáætlunarinnar.
Síðasti þáttur vinnunnar er að vinna samgönguáætlunina sjálfa. Í henni verður reynt að meta kostnað við sett markmið og gerð áætlun hvernig markmiðum okkar verði náð. Miðað er við að áætlunin taki til fjárfestinga, rekstrar og annara stefnumarkandi atriða eins og hægt er.
Ég legg ríka áherslu á að vinna við áætlunina gangi hratt fyrir sig og hægt verði að leggja hana fyrir Alþingi á næsta ári. Vinnan og efnismeðferð verður að mótast af þeim tímaramma. Miklu varðar að stofnanirnar þrjár sem þurfa að vinna eftir áætlununum verði virkir þátttakendur enda eigum við mikið undir að þeim verði gert kleift að framfylgja þeirri samræmdu áætlun sem að er stefnt.
Of langt mál er að fara ofan í alla þá málaflokka sem unnið verður að í samgönguáætluninni en ég vil þó minnast á tvo megin þætti.
Fyrst vil ég nefna að góðar samgöngur skipta miklu máli fyrir atvinnulíf Íslendinga. Samgöngur snerta atvinnulífið á ótal vegu. Margir hafa atvinnu sína af því að byggja samgöngumannvirki. Góðar samgöngur eru nauðsynlegar til þess að skila fólki til vinnu fljótt og vel. Loks er gríðarlega mikilvægt að góðar samgöngur séu til byggðarlaga landsins bæði fyrir starfsfólk og svo flutninga til og frá slíkum svæðum. Sem dæmi má nefna að útflutningsiðnaður okkar reiðir sig á góðar og hagkvæmar samgöngur í samkeppni sinni á erlendum mörkuðum. Þetta gildir hvorutveggja um að flytja vörurnar okkar á markað erlendis og ekki síður um flugsamgöngur sem styðja við bakið á öllum þeim viðskiptum og samskiptum sem við verðum að hafa við heiminn í kringum okkur.
Hins vegar vil ég minast á gjaldtöku af samgöngum. Nauðsynlegt er að haga henni þannig að gjaldtaka skekki ekki samkeppnisstöðu og stuðli að því að fyrirtæki kjósi samgöngumáta vegna þess að hann er hlutfallslega niðurgreiddur af almannafé eða með gjaldtöku af öðrum notendahópum. Með þetta í huga hef ég bréflega óskað eftir því við fjármálaráðherra að stofnaður verði starfshópur til þess að fara yfir gjaldtöku í samgöngum og skoða hana með hliðsjón af hvort hún skekki samkeppnisstöðu samgöngugreina í skatta- og gjaldalegu tilliti. Nauðsynlegt er að slík vinna fari fram og verði grunnur fyrir áherslur samgönguáætlunar á þessu sviði.
Verkfæri stjórnvalda til þess að koma fram stefnu málum sínum eru tekjuöflun með skattlagningu og löggjöf sem skapar heimildir til þeirra aðgerða sem þörf er á.. Engu að síður þarf ríkisvaldið að leita samstarfs við ýmsa aðila og skapa þeim möguleika til eðlilegra umsvifa.
Framlag ríkissjóðs til samgöngumála er einungis hluti af veltu í samgöngum. Sveitarfélög gegna einnig mikilvægu hlutverki og koma að uppbyggingu vega og hafna auk þess sem þau standa að almenningssamgöngum. Loks starfa einkafyrirtæki víða á sviði samgangna og spannar starfsemi þeirra allt frá því t.d. að reka Hvalfjarðargöngin að flutningastarfsemi á sjó, lofti og landi.
Áætluð fjárútlát ríkisins til samgöngumála koma að mestu leyti fram í flugmálaáætlun, hafnaáætlun og vegaáætlun. Vinnan við núverandi samgönguáætlun hlýtur að hluta til að snúast um að ráðstafa fjármunum ríkissjóðs til samgöngumála í samræmi við markmið áætlunarinnar.
Eins og fyrr sagði er nauðsynlegt að huga að þeirri löggjöf sem gerir okkur fært að sinna þeim verkefnum sem nauðsynlegt er á sviði samgangna. Í því sambandi má nefna skuldbindingar sem við tökum á okkur í alþjóðasamningum, sem eru margvíslegar í ýmsum öryggis- og umhverfismálum samgangna.
Í þeirri vinnu sem framundan er þarf að skilgreina áherslur stjórnvalda næstu 12 árin, sérstaklega þær sem gætu haft lagabreytingar í för með sér.
Þetta er mikilvægt fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga sem þurfa að fara eftir lögum og reglugerðum. Öll áætlanagerð fram í tímann hlýtur að verða auðveldari fyrir alla aðila þegar stefna og áherslur stjórnvalda liggja fyrir. Með því móti má sem best nýta sér þau tækifæri sem skapast við breytingar á lögum eða bættar samgöngur.
Ágætu fundarmen.
Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir að koma hingað á þetta málþing. Með því eru þið þátttakendur í gerð samgönguáætlunar án þess að ég sé á nokkurn hátt að varpa ábyrgð á henni á ykkar herðar.
Ég vona að sem flestir taki þátt í umræðunum og varpi ljósi á sem flestar hliðar þess verkefnis að gera áætlun um samgöngukerfið til framtíðar. Ég treysti því að hér komi fram margar gagnlegar ábendingar sem hægt verður að taka tillit í vinnunni framundan.