Í kjölfar ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs í Stykkishólmi 17.október s.l. var haldið málþing um umhverfismál.  Meðal fyrirlesara voru Mr. Reg Easy framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21, Skúli Skúlason rektor Hólaskóla, Stefán Gíslason verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar og Einar Kr.Guðfinnsson formaður Ferðamálaráðs.  Ávarp samgönguráðherra fylgir hér á eftir:

Fundarstjóri, Mr. Reg Easy from Green Globe, aðrir fyrirlesarar, góðir fundarmenn!

Á ráðstefnunni í gær kom fram í ræðu minni að náttúran sé mikilvægasta auðlind íslenskrar ferðaþjónustu og að stefnt sé að því að menningin verði hin meginstoð þessarar mikilvægu atvinnugrein. Hvar sem ferðaþjónusta er til umræðu í heiminum í dag eru umhverfismál og sjálfbær þróun áberandi og verður að segjast að mikils er vænst af Íslendingum í því sambandi. Það var því með mikilli ánægju sem ég tók undir hugmyndir góðra manna um nauðyn þess að þetta málþing yrði haldið hér í dag í tengslum við ferðamálaráðstefnuna.

Ég fagna því sérstaklega að hingað sé kominn Reg Easy framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21, sem vottar umhverfisvæna ferðaþjónustu, fyrirtæki og áfangastaði, um allan heim.  Einnig býð ég aðra fyrirlesara innilega velkomna til þessa málþings.

Ferðaþjónusta bænda hyggst taka upp Green Globe vottunarkerfið á meðal sinna félagsmanna og hljóta það að teljast mikil tíðindi að samtök rúmlega hundrað ferðaþjónustufyrirtækja  skuli þar með hafa ákveðið eitt vottunarkerfi fram yfir önnur úr því mikla framboði sem er af slíkur kerfum í heiminum í dag. Þegar önnur umhverfisvottun verður skoðuð verður vissulega horft til þess hvernig til tekst hjá Ferðaþjónustu bænda enda er um merkilegt brautryðjendastarf að ræða.

Ef vel tekst til hefur verið brotið blað í vottunarmálum ferðaþjónustunnar en Hólaskóli mun sjá um úttekt á stöðunum og vera þannig tengiliður fyrirtækjanna og vottunarðaðilans. Samgönguráðuneytið mun styrkja Hólaskóla til að taka að sér þetta verkefni og fylgjast vel með framvindu mála. Hérna er hugsanlega á ferðinni tækifæri fyrir landið að skapa sér enn skýrari sess sem land með skýra og metnaðarfulla umhverfisstefnu. Þegar hafa nokkur fyrirtæki fengið umhverfisvottun og mun verða horft mjög til þess sem þau hafa gert er önnur fylgja í kjölfarið.

Í ljósi þeirra umræðna sem urðu í gær um sérstöðu landssvæða tel ég að ekkert landssvæði geti skorast undan því að taka vel á í umhverfismálum. Við megum ekki láta koma holan hljóm í þá miklu ímyndarvinnu sem unnin hefur verið um árabil með höfuðáherslu á hreina og óspillta náttúru. Við fáum, og viljum fá, hingað til lands vel menntaða og kröfuharða ferðamenn. Þeir koma gjarnan frá löndum þar sem jákvæð umhverfishegðun er talin sjálfsögð og orðið umhverfissóði þykir neikvæðasti skammaryrði sem hægt er að fá á sig. Þessir ferðamenn eru því fljótir að koma auga á það sem aflaga fer og ef þeir fara óánægðir af landinu þá missum við mikilvægan hlekk í kynningu á landinu. – Umhverfisvottun er því af hinu góða. Ferðaþjónustuaðilar taka þá til í sínum ranni, spara fjármuni með skynsamlegri umgengni við orkulindir og bjóða ferðamönnum upp á gegnheila vöru. Vonandi eigum við fljótlega eftir að sjá heilu landshlutana fá það vottaða að þar ríki ábyrg og metnaðarfull umhverfisstefna. Þannig hefur ferðaþjónustan lagt sitt að mörkum til að staðfesta megi alþjóðlegar samþykktir um umvherfismál og sjálfbæra þróun.

Ég færi Ferðamálaráði mína bestu þakkir fyrir að hafa staðið að undirbúningi þessa málþings og óska ykkur, góðir gestir, fróðlegrar og ánægjulegrar morgunstundar.