Bárður Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson, eldri, á Arnarstapa

Telja verður líklegt að náttúrufegurðin á Snæfellsnesi hafi mótað mannlífið, menningu okkar og einnig myndlistina sem íbúar dást að, njóta og sumir leggja sitt til við að móta og hafa þá oftar en ekki fjöllin, fjörðinn og vötnin sem fyrirmynd. Við sem setjum þessar línur á blað erum bæði fædd og uppalin á Snæfellsnesi. Okkur er í blóð borið að bera virðingu fyrir sögu héraðsins og náttúru. Við völdum að flytjast úr höfuð borginni og setjast ung að í Stykkishólmi.

Þar höfum við átt okkar heimili og notið einstaks umhverfis sem vissulega hefur sterk og mótandi áhrif. Úr Hólminum sjáum við fjöllin á Barðaströndinni í norðri, Dagverðarnes og Klofning í austri, í suðri sjáum við Hest, Hreggnasa, Ljósufjöll, Drápuhlíðarfjall, Kerlingafjall, Bjarnarhafnarfjall, Helgrindur, Eyrarfjall og Snæfellsjökul sem birtist í vestri á björtum degi. Og eyjar Breiðafjarðar blasa við í allri sinni dýrð frá vestri til austurs.

Í Bárðarsögu Snæfellsáss segir frá því er Helga Bárðardóttir var á Grænlandi og litaðist um með Snæfellsnesið í huga og kvað:

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvert nes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Það fer ekki á milli mála að Helga Bárðardóttir hefur fundið fyrir mikilli heimþrá og það skiljum við sem höfum alið aldur okkar á þessu magnaða landsvæði sem Snæfellsnes er. Við hljótum að fagna því að myndlistarsýningin Nr. 3 Umhverfing er sett upp í því ljósi sem umhverfið og birtan á Snæfellsnesi gefur tilefni til. Og listafólkið skapar sín verk eftir að hafa orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum og magnar þannig upp hæfileika sína í þágu unnenda fagurra lista. Það ber vissulega að þakka.

Bókmenningin í heiðri höfð

Bókmenningin hefur frá fyrstu tíð verið í heiðri höfð á Snæfellsnesi, undir áhrifum frá Sturlu Þórðarsyni í Fagurey sem er talinn hafa ritað Eyrbyggjasögu sem við Snæfellingar kunnum vel að meta. Við dáum Ara fróða á Stað (Staðastað) á Ölduhrygg, höfund Landnámu.

Og það má nefna fleiri skáld svo sem Guðmund Bergþórsson rímnaskáld frá Arnarstapa sem átti við mikla fötlun að stríða en gaf samt mikið af sér sem skáld, Jóhann Jónsson skáldið sem orti hið þekkta ljóð Söknuð og var fæddur á Staðastað, ólst upp í Ólafsvík en lést í Leipzig.

Kristmann Guðmundsson ólst upp á Fáskrúðarbakka í Miklaholtshreppi og við viljum eigna okkur hann. Rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð frá Rifgirðingum dvaldi hjá Árna Thorlacius kaupmanni og fjölskyldu hans í Stykkishólmi, en Sigurður orti og skrifaði í skjóli Árna og bjó um tíma í Breiðuvík og einnig í Ólafsvík á þeim tíma er Skáld Rósa bjó þar.

Þá má nefna systkinin Helgu Halldórs dóttur og Þórð Halldórsson frá Dagverðará sem bæði létu eftir sig ágæt ritverk. Ástæða er til þess að nefna að Ásta Sigurðardóttir var fædd á Litla­Hrauni í Kolbeinsstaðarhreppi og var jafnvíg á ritlist og myndlist. Af ungu skáldunum má nefna Stefán Mána Sigþórsson rithöfund sem er fæddur og uppalinn í Ólafsvík svo nokkur nöfn séu nefnd úr hópi skálda sem hér hafa verið allt frá söguöld til vorra daga. Auðvitað hafði Nóbelsskáldið Halldór Laxness mikil áhrif á bókmenningu okkar Snæfellinga með því að skrifa um Kristnihald undir Jökli.

Þá magnaði skáldið Þórbergur Þórðarson upp héraðs tilfinninguna með frábærri ævisögu séra Árna Þórarinssonar. Þar var fjallað um sérkenni Snæfellinga sem voru samt ekki verri en svo að klerkurinn sat í embætti á Stóra­Hrauni í yfir fjörutíu ár sem er athyglisvert miðað við það hvernig hann lýsti sóknarbörnum sínum.

Egill Helgason sagði í bókmenntaþættinum Kiljunni um þá Þórberg og séra Árna að þar hafi trúgjarnasti maður á Íslandi hitt þann hraðlygnasta. Þessari umsögn hefur ekki verið andmælt svo vitað sér. Þess má samt geta að sum af sóknarbörnum séra Árna sem lásu snilldarverk Þórbergs töldu að Snæfellingar ættu ekki skilið þá mynd sem dregin var upp af mannlífi á Snæfellsnesi. En það er önnur saga.

Skipið eftir Jón Gunnar Árnason, Hellissandi

Myndlistin og náttúrufegurðin

Margir myndlistarmenn hafa ferðast um Snæfellsnes í gegnum tíðina og hafa undir áhrifum náttúrfegurðar skapað ógleymanleg listaverk. Þar má nefna W.G. Collingwood sem málaði einstaklega glæsilegar myndir á ferðum sínum, m.a. af húsum og umhverfi í Mávahlíð Fróðárhreppi, Helgafelli og Kóngsbakka í Helgafellssveit. Þá er vert að minnast á öll þau listaverk sem Jóhannes Kjarval málaði á Snæfellsnesi sem og Louisa Mattíasdóttir og Sjøfn Har sem er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Þá er þess að vænta að myndlistarmaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson hafi mótað og þróað list sína þegar hann ólst upp í Stykkishólmi. Þetta listafólk allt dregur fram hið fagra með listilegu handbragði sínu og þann andblæ sem náttúrufegurðin á Snæfellsnesi ber með sér og lætur engan ósnortinn.

Þá er þess að geta að sá mikli listamaður Erró er fæddur í húsinu Borg í Ólafsvík sem þá var hús læknisins á staðnum. Það er skemmtileg tilviljun að Borg stendur skammt frá Sjómannagarðinum þar sem listaverk eftir föður Errós, Guðmund Einarsson frá Miðdal, stendur og er bæjarprýði.

Byggingarlistin og kirkjulistin í heiðri höfð

Þegar farið er um Snæfellsnes vekur það athygli hvernig mannanna verk sem birtast okkur í byggingarlistinni hafa þróast í gegnum tíðina og styrkja þá mynd sem byggðin ber með sér. Þar má nefna endurgerðu húsin í miðbæ Stykkishólms þar sem friðun húsanna setur mark sitt á umhverfið. Þá er ástæða til þess að nefna hversu vandað er til kirkjubygginga í öllum sóknum svæðisins.

Og athygli vekur hversu mikil alúð hefur verið lögð við að velja listaverk sem altaristöflur í kirkjunum. Arkitektar og kirkjusmiðir hafa lagt sig fram við að skapa athyglisverðar og fagrar byggingar sem setja mikinn svip á umhverfið. Þar rísa hæst í orðsins fyllstu merkingu Stykkishólmskirkja, Grundarfjarðarkirkja, Ólafsvíkurkirkja og Ingjaldshólskirkja sem er elsta steinsteypta kirkja í veröldinni samkvæmt öruggum heimildum.

Þá er ástæða til þess að minnast á glæsilega endurgerð kirkjunnar á Búðum, ásamt umhverfi hennar, og gömlu kirkjuna í Stykkishólmi sem var gerð upp í tengslum við friðun og endurgerð gömlu húsanna í miðbænum. Sérstök ástæða er til þess að minnast á Klaustrið og Kaþólsku kirkjuna í Stykkishólmi sem er glæsileg bygging og setur mikinn svip á umhverfið.

Þær byggingar minna okkur á metnaðinn sem St. Franciskussystur lögðu í starf sitt í þágu Snæfellinga og má einnig sjá á listaverkunum sem prýða sjúkrahúsið í Stykkishólmi að utan. Þar eru tvö glæsileg listaverk eftir Sjøfn Har. Annað verkið sýnir fugla himinsins og fellur vel að Breiðafirðinum og hitt er dýrðaróður um Heilagan Frans frá Assisi og er staðsett við innganginn að sjúkrahúsinu þar sem nunnur Franciskusreglunnar þjónuðu samfélaginu og hjúkruðu sjúku fólki af hjartans list.

Styttur og minnismerki sem listaverk

Ástæða er til þess að minnast listaverka í formi minnismerkja sem setja mikinn svip á umhverfið á Snæfellsnesi. Þar má nefna minnismerkið sem var reist á Staðastað til að minnast Ara fróða sem þar bjó; verkið Bárð Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson sem stendur niður við klettana á Arnarstapa og ber við himinn; Skipið eftir listamanninn Jón Gunnar Árnason sem stendur framan við Ráðhús Snæfellsbæjar á Hellissandi og minnisvarða á Ingjaldshóli um Eggert Ólafsson skáld og Ingibjörgu Guðmundsdóttur en hann er eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli.

Og það eru fleiri slík verk, eitt er sjómaðurinn í Sjómannagarðinum í Ólafsvík sem ber sinn fisk á bakinu og horfir til hafs en höfundur þess er Guðmundur Einarsson frá Miðdal eins og að framan er getið. Glæsileg stytta er við kirkjuna í Grundarfirði eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og minnisvarði um sjóslysið þegar síldveiðiskipið Eddan fórst á Grundarfirði var sett upp við höfnina og var mótað af Árna Johnsen í samstarfi við heimamenn.

Tvö listaverk eru við Stykkishólmshöfn sem voru reist til að minnast sjómanna sem fórust í hafi. Verkið Sjómaðurinn er eftir Pál á Húsafelli og hitt nefnist Á heimleið og er eftir Grím Marinó Steindórsson. Þá var settur upp árið 1989 minnisvarði um veðurathuganir Árna Thorlacíus sem stendur neðan við Ráðhúsið og er eftir Helga Gíslason myndhöggvara. Veðurathuganir hófust í Hólminum árið 1845 og hafa verið stundaðar óslitið síðan.

Mannlíf og menning á Snæfellsnesi

Myndlistarsýningin og þessi bók, Nr. 3 Umhverfing, er samstarfsverkefni Snæfellinga og Akademíu skynjunarinnar sem hefur kallað til þátttöku myndlistamenn sem eru tengdir eða eiga rætur að rekja til Snæfellsness. Þetta framtak er einstakt og vissulega ástæða til þess að þakka það. Með því að kalla til verka allt þetta góða myndlistarfólk fer ekki á milli mála að sýningin mun vekja verðskuldaða athygli og draga fram margar hliðar myndlistarinnar og gefa Snæfellingum og gestum okkar færi á því að njóta listaverka.

Eins og fram hefur komið má ljóst vera að Snæfellingum er annt um myndlist og menninguna svo ekki sé nú talað um Kristnihaldið. Nóbelsskáldið Halldór Laxnes gerði okkur Snæfellingum þann heiður að senda sjálfan Umba á vettvang til þess að veita okkur aðhald. Megi myndlistarsýningin Nr. 3 Umhverfing verða til þess að efla enn frekar allt listalíf hjá okkur Snæfellingum. Við undirrituð viljum þakka þann heiður sem okkur er sýndur með því að gefa okkur færi á að draga fram þessa mynd af menningu okkar Snæfellinga.

Stykkishólmi, 17. mars 2019
Hallgerður Gunnarsdóttir
og Sturla Böðvarsson

Sýn eftir Steinunni Þórarinsdóttur, Grundarfirði