Sturla Böðvarsson svarar Valgerði Bjarnadóttur sem skrifaði um samgöngumál í Fréttablaðið 3. janúar. Telur hún þar að ýmislegt klúður hafi orðið á sviði samgöngumála. Ráðherra rekur hér stöðu ýmissa mála sem unnið hefur verið að og er hreint ekki sammála því að klúður sé á ferðinni.

Frambjóðendur og þingmenn Samfylkingarinnar eru byrjaðir í kosningabaráttu vegna þingkosninganna í vor. Það má merkja á málflutningi þeirra og skrifum um þessar mundir.
Valgerði Bjarnadóttur er nokkuð niðri fyrir í grein í Fréttablaðinu 2. janúar þar sem henni virðist hafa verið falið það verkefni af Samfylkingunni að gagnrýna samgönguráðherrann. Hún skrifar um klúður í samgöngumálum. Telur hún að samgönguráðherra (fyrir utan það að vera fúlan) skilji ekki að lög megi sín lítils ef framkvæmd þeirra er í molum og telur sig geta nefnt dæmi um slíkt. Þar nefnir hún m.a. fyrstu skref Flugstoða ohf. og þá miklu breytingu sem er verið að gera á skipulagi flugmála í landinu.

Ég tek ekki nærri mér köpuryrði Valgerðar Bjarnadóttur en leyfi mér hins vegar að svara hiklaust og bera af mér sakir. Ég tel ekki verk mín sem stjórnmálamanns vera hafin yfir gagnrýni fremur en verk annarra manna. Ég svara hins vegar ef mér finnst réttu máli hallað og ef það er talið fúlt að svara gagnrýni þá verður svo að vera.

Óraunhæfar kröfur

Greinarhöfundur segir allt benda til að vegna þess sem hún kallar klúður muni flugumferðarstjórn í háloftunum á norðurhveli flytjast úr landi. Hún spyr hvort hugsanlegt sé að störfin flytjist úr landi vegna þess að flugumferðarstjórar, sem ekki vilja ráða sig til Flugstoða, geri óraunhæfar kröfur. Það er einmitt mergurinn málsins og augljóst að greinarhöfundur hefur ekki fylgst með. Hún ræðst gegn samgönguráðherranum án þess að kynna sér málavexti. Ég hef sagt að það sé algjörlega óviðunandi að fallast á kröfur formanns Félags ísl. flugumferðarstjóra um tuga prósenta launahækkun við það eitt að störf flytjast frá ríkinu til opinbera hlutafélagsins Flugstoða. Þetta hefði þýtt að meðallaun flugumferðarstjóra gætu hækkað úr um 740 þúsund krónum í um 900 þúsund á mánuði.

Stefnan er skýr í þessu máli. Opinbera hlutafélagið Flugstoðir tekur að sér flugumferðarþjónustu og rekstur flugvalla sem áður var sinnt af Flugmálastjórn Íslands. Flugmálastjórn sinnir stjórnsýslu og eftirliti á öllum sviðum flugmála. Þessi breyting var ekki gerð og undirbúin á einni nóttu og ekki umræðulaust. Tilgangur hennar er annars vegar að mæta alþjóðlegum kröfum um aðskilnað eftirlits og þjónustu og hins vegar að auka sveigjanleika og hagkvæmni í þessari þjónustu. Meðal annars til þess að geta mætt betur samkeppni í flugumferðarþjónustu yfir Norður Atlantshaf sem héðan hefur verið sinnt í áratugi.

Nú hefur lausn fengist í málinu. Stjórn Flugstoða stóð gegn kröfum sem forráðamenn Félags ísl. flugumferðarstjóra hafa ítrekað sett fram síðustu daga og vikur enda kjarasamningur ekki laus. Aðeins var fallist á að hnýta betur nokkra hnúta varðandi lífeyrisréttindi. Ef þessi lausn  er klúður að mati Valgerðar Bjarnadóttur þá má það heita svo mín vegna. Það er sérkennilegt að Valgerður Bjarnadóttir skuli vera tilbúin til þess að skeiða fram á ritvöllinn til þess að mæla slíku háttalagi bót og leggja til að látið verði undan kröfum eins hóps á kostnað annarra sem hafa fallist á að hefja störf og ganga inn í gildandi samninga. Það verður að hafa það þótt samfylkingarfólk eins og Valgerður gagnrýni störf mín í þessu tilliti. Hún fellur  þar í sömu gryfjuna og Jón Bjarnason alþingismaður sem vildi láta samgöngunefnd Alþingis skerast í leikinn og hætta við allt saman. Það er mikið lán að þau ráða ekki ferð þjóðarskútunnar.

Nýr sæstrengur undirbúinn

Valgerður Bjarnadóttir ræðir einnig fjarskiptatengingar landsins við umheiminn. Rétt er að truflun varð á dögunum á fjarskiptasambandi vegna bilunar í sæstreng. Mjög áríðandi er orðið í nútímaþjóðfélagi að geta átt örugg og ótrufluð samskipti við umheiminn á netheimum. Þess vegna hefur nú verið ákveðið að ráðast í undirbúning á lagningu nýs sæstrengs til viðbótar við Farice-1 og Cantat-3. Með því er sambandið tryggt.

Sæstrengirnir tveir eru reknir af hlutafélögum sem eiga ekki og mega ekki njóta ólögmætra ríkisstyrkja. Huga þarf að fjármögnun og hvernig verkinu verður best hrint í framkvæmd. Eigendur sæstrengjanna hafa hins vegar orðið að gæta þess að leggja ekki í offjárfestingu á þessu sviði því gjald á fjarskiptaumferðina, á notkunina á samskiptaleiðunum má ekki verða alltof hátt. Á þetta hefur verið m.a. bent að forsvarsmönnum RH-netsins sem eru talsmenn rannsókna, heilbrigðis- og menntastofnana sem nýta sér netið og tengingar til útlanda. Kostnaðurinn við lagningu strengjanna er borinn uppi af notendum eins og gerist á frjálsum markaði. Nokkuð sem Valgerður Bjarnadóttir ætti að vita í ljósi þess hve lengi hún starfaði í Brussel þar sem regluverkið er undirbúið. Hún ætti einnig að vita að það er verkefni ESA að sjá til þess að ólögmætir ríkisstyrkir eigi sér ekki stað. En undirbúningur að lagningu nýs strengs er að komast í farveg og ég vonast til að við munum fá nýjan sæstreng fyrir árslok 2008. Ef þetta er klúður þá má það heita það mín vegna. Valgerður Bjarnadóttir virðist ekkert hafa kynnt sér málið en skrifar engu að síður um það og gagnrýnir samgönguráðherrann á mjög ómálefnalegan hátt.

Vegamálin

Í lok greinar sinnar tekur Valgerður fyrir vegamálin og telur forgangsröðun þar ranga. Þar sýnist sitt hverjum og verður jafnan svo. Stefnan er mörkuð hverju sinni í samgönguáætlun sem Alþingi samþykkir. Sameiginlegt markmið allra  framkvæmda í vegamálum er að greiða mönnum leið, auka hagkvæmni í flutningum og auka umferðaröryggi. Vitaskuld þarf að leggja mest fjármagn í framkvæmdir þar sem umferð er mest. Það hefur verið gert. En við getum heldur ekki horft framhjá nauðsynlegum framkvæmdum á landsbyggðinni. Þær snúast líka um öryggismál viðkomandi byggðarlaga rétt eins og stórframkvæmdir á suðvesturhorni landsins. Þess vegna þarf líka að sinna þeim. Ef þetta er klúður þá má það heita það mín vegna. Það er þekkt og sannað með skrifum margra samfylkingarmanna að þeir vilja fæstir sinna málefnum landsbyggðarinnar og telja allt eftir sem fer í samgöngubætur þar.

Hvar er klúðrið?

Óvíst er að við Valgerður Bjarnadóttir verðum sammála um forgangsröðina í þessum efnum. Og ég tek undir með henni að í ráðuneytinu starfar gott fólk og hæft og ekki síður í stofnunum samgöngumála sem heyra undir ráðuneytið. Það góða fólk hefur náð miklum árangri og ég er stoltur af því að hafa fengið tækifæri til þess að stýra samgönguráðuneytinu í nærri átta ár og náð jafn miklum og góðum árangri í vegamálum, flugmálum, fjarskiptamálum og ferðamálum og raun ber vitni. Ég fagna umræðu um þessi máefni og get stundum jafnvel skemmt mér yfir henni. Ég spyr bara hvar er klúðrið? Og er  það ekki einhver annar en samgönguráðherrann sem er fúll og hefur allt á hornum sér?

Að lokum óska ég Valgerði Bjarnadóttur góðs gengis á nýju ári.