Allt frá því Alþingi samþykkti fjarskiptaáætlunina árið 2005 hafa fjarskiptafyrirtækin og stjórnvöld unnið að því að ná þeim markmiðum sem að er stefnt í fjarskiptaáætlun. Að gefnu tilefni og vegna þess að seinni áfangi útboðs á GSM sendum á þjóðvegum liggur nú fyrir vil ég í þessari grein fara yfir helstu markmið sem sett voru fram í fjarskiptaáætlun.

Einkaréttur á fjarskiptum afnuminn

Samræmd Evrópulöggjöf hefur kallað á víðtækar breytingar, m.a. aukna samkeppni og afnám einkaréttar á fjarskiptamarkaði. Þær breytingar lögðu grunn að einkavæðingu ríkisrekinna símafyrirtækja og var sala Landsíma Íslands eðlilegt framhald af því. Stjórnvöld geta ekki lengur falið Símanum að framkvæma stefnumið sín enda fleiri fjarskiptafyrirtæki komin á markaðinn. Í kjölfar þess að Síminn var seldur var nauðsynlegt að setja fram með skýrum hætti stefnuna í fjarskiptaáætlun og tryggja að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga, aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu fyrir alla landsmenn.
Árið 2000 tóku gildi ný fjarskiptalög. Með þeirri löggjöf voru gerðar grundvallarbreytingar sem stuðla áttu að aukinni samkeppni í fjarskiptum auk þess sem tryggja átti aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu, svokallaðri alþjónustu. Löggjöfin kom í veg fyrir markaðshindranir, viðskiptafrelsi jókst til muna og valkostum viðskiptavina símafyrirtækja fjölgaði í kjölfarið. Fjarskiptalögum var síðan breytt árið 2003 í kjölfar mikilla breytinga á markaði og nýrra krafna innan EES svæðisins.

Háhraðavæðing

Megin markmiðin í fjarskiptaáætluninni eru að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Þessum markmiðum var síðan fylgt eftir með tímasetningu hvers verkefnis innan áætlunartímabilsins sem var tímabilið 2005-2010. Væntingar landsmanna eru miklar gagnvart þessu verkefni. Ég tel að símafyrirtækin hafi í flestum tilvikum staðið sig vel í því að hrinda þessum markmiðum í framkvæmd. Engu að síður er dreifbýlið á eftir í þessari mikilvægu þróun, enda hefur skort markaðsforsendur fyrir uppbyggingu háhraðasambanda.. Þar kemur til kasta Fjarskiptasjóðs, en stjórn sjóðsins hefur sýnt vilja sinn til þess að skipuleggja verkefni sjóðsins þannig að sem mestur árangur náist.

Farsamband

Fjarskiptaáætlun gerir ráð fyrir því að öryggi vegfarenda verði bætt með auknu aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum. Auk þess verði háhraðafarþjónusta byggð upp um allt land. Samkeppni fjarskiptafyrirtækjanna sem mótuð var með lögunum sem ég mælti fyrir haustið 1999 og tóku gildi 1.1.2000 hefur leitt til þess að uppbygging farsímakerfanna hefur orðið hraðari hér á landi en búast mátti við í svo dreifbýlu landi. Til þess að ná markmiðum Fjarskiptaáætlunar var Fjarskiptasjóði gert að kosta uppbyggingu á svæðum sem símafyrirtækin voru ekki tilbúin til að byggja upp á markaðslegum forsendum. Útboð Fjarskiptasjóðs á þessum verkefnum fór af stað á síðasta ári og er komið vel á veg. Þess er að vænta að Fjarskiptasjóði verði tryggt fjármagn svo ljúka megi uppsetningu GSM kerfanna í samræmi við fyrri áætlanir.
Stafrænt sjónvarp og hljóðvarp
Fjarskiptaáætlun gerir ráð fyrir að allir landsmenn hafi aðgengi að gagnvirku stafrænu sjónvarpi. Útvarpað verði um gervihnött fyrir landið allt og næstu mið. Sá mikilvægi áfangi hefur nú náðst að sjófarendur geta náð sjónvarpssendingum.

Fjarskiptasjóður

Þann 9. desember 2005 samþykkti Alþingi lög um fjarskiptasjóð sem ætlað er að styðja við uppbyggingu fjarskiptakerfa á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins. Sjóðnum er ætlað til ráðstöfunar 2,5 milljarðar króna af söluandvirði Símansfjármuna sem verður varið til að bæta fjarskiptakerfin um landið allt. Á árinu 2006 var einum milljarði króna varið til uppbyggingar og síðan er gert ráð fyrir að 500 milljónir króna komi í sjóðinn árlega 2007-2009.
Stjórn sjóðsins, sem ég skipaði frá 1. febrúar 2006, hefur yfirumsjón með fjármálum fjarskiptasjóðs í samræmi við hlutverk hans, ásamt því að veraverkefnastjórn fjarskiptaáætlunar. Öllum má ljóst vera að þessi uppbygging tekur tíma. Það er engu að síður von undirritaðs að markmiðum fjarskiptaáætlunar verði náð sem fyrst svo fjarskiptin nýtist einstaklingum hvar sem er á landinu. Það er jafnframt von mín að samgönguráðherra fái þann stuðning sem þarf til þess að halda þessu mikilvæga starfi áfram svo Ísland verði ALTENGT eins og starfsfólk samgönguráðuneytis, Póst og fjarskiptastofnunar og stjórn Fjarskiptasjóðs hefur unnið svo ágætlega að.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2007.