Í gær var undirritaður samningur um menningarmál og menningartengda ferðaþjónusta á Breiðdalsvík. 

Um er að ræða samning um samstarf ríkis og allra 13 sveitarfélaganna á Austurlandi. Er þetta í annað sinn sem gengið er til slíks samnings, en ávinningur fyrri samnings er ótvíræður fyrir landsfjórðunginn og samfélagið í heild og ríkir mikil ánægja með samstarfið. Þær fjárveitingar sem til þessa samstarfs hafa runnið á undanförnum árum hafa gert það að verkum að ný atvinnutækifæri hafa skapast í landsfjórðungnum, sveitarfélög hafa ráðið til sín menningarfulltrúa og þá hefur Listahátíð í Reykjavík valið sveitarfélög á Austurlandi til samstarfs.

Gildistími hins nýja samnings er til ársloka 2007 og er tilgangur hans sem fyrr að efla menningarstarf á Austurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Menningarráð Austurlands, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og hefur meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, úthlutar fjármagni til menningarverkefna á Austurlandi og annast framkvæmd samningsins.
Samningurinn hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrri samningi. Í fyrsta lagi er samgönguráðuneyti nú beinn aðili að samningnum ásamt menntamálaráðuneyti f.h. stjórnvalda og þannig leitast við að efla menningartengda ferðaþjónustu. Í annan stað leggja sveitarfélögin fram fé til sameiginlegra verkefna með því að vinna að því að auka ráðstöfunarfé Menningarráðs Austurlands hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Skal við það miðað að árið 2005 nemi framlag sveitarfélaganna a.m.k. 10% af þeirri heildarfjárhæð sem veitt er til verkefnastyrkja, 17,5% árið 2006 og 25% árið 2007. Þá skulu sveitarfélögin greiða að lágmarki þriðjung kostnaðar vegna starfsemi Menningarráðsins árið 2006 og helming kostnaðar árið 2007. Einnig er kveðið á um það í samningnum að sveitarfélögin greiði mótframlag til menningarmiðstöðvanna á Austurlandi.

Framlög ríkisins til samningsins verða 36 m.kr. á árinu 2005, 37 m.kr. árið 2006 og 38 m.kr. árið 2007.

Samninginn er að finna á vef menntamálaráðuneytis og á vefjum Sambands sveitarfélaga í Austurlandi www.ssa.is og www.Skriduklaustur.is/menning.