Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu hafa undirritað samkomulag um að Snorrastofa geri sérstakan menningarvef ferðaþjónustunnar. Samkomulagið er til komið vegna samstarfs iðnaðarráðuneytis og samgönguráðuneytis um eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem hluta af byggðaáætlun.
Tilgangur vefsins er að gera upplýsingar um menningararf þjóðarinnar og menningarviðburði á öllu landinu aðgengilegar innlendum og erlendum ferðamönnum.
Höfuðáhersla verður lögð á að upplýsingar séu greinargóðar og reglulega uppfærðar. Menningarviðburðir á öllu landinu verða með reglubundnum hætti skráðir og kynntir. Upplýsingum verður miðlað um bókmenntir og menningu, bæði með upplýsingatextum um menningararf Íslendinga og almennri umræðu innan ramma hugvísinda. Til viðbótar þessu mun vefurinn bjóða upp á flokkað safn krækja inn á aðra menningarvefi.
Undirritun samkomulagsins fór fram á Hótel Reykholti að viðstöddum öllum helstu velunnurum Reykholts og Snorrastofu.