Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins getur ekki á þessu stigi gripið inn í samhljóða ákvörðun kjörnefndar og stjórnar kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir prófkjör flokksins í haust.
Kjördæmisráð á enn eftir að fjalla endanlega um uppstillingu og miðstjórn þarf að því loknu formlega að samþykkja hvort listinn verði lagður fram í nafni Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er meðal þess sem fram kom í greinargerð sem var samþykkt samhljóða á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í gær. Samkvæmt prófkjörsreglum Sjálfstæðisflokksins er miðstjórn endanlegur úrskurðaraðili um túlkun reglnanna. Forsenda þess að ágreiningi um prófkjör verði þó aðeins skotið til miðstjórnar sé að ágreiningur sé um málið innan stjórnar kjördæmisráðs. Sú forsenda hafi ekki verið til staðar í þessu máli.


Samþykkt var að breyta prófkjörsreglum flokksins til að koma í veg fyrir sömu mistök. Einungis félagsbundnir sjálfstæðismenn og þeir sem gerast félagar í síðasta lagi samhliða prófkjöri munu framvegis geta tekið þátt í prófkjöri. Reglur um utankjörfundarkosningu verða endurskoðaðar síðar.