Sturla Böðvarsson kynnti sér í síðustu viku jarðgangahönnun og öryggismál í jarðgöngum í Sviss og voru með honum í för fulltrúar ráðuneytisins og Vegagerðarinnar. Farið var í Gotthards-jarðgöngin sem tengja norður- og suðurhluta landsins en um þau er einnig mikil umferð milli norður- og suðurhluta Evrópu.
Gotthards-göngin eru tæplega 17 km löng, ein akrein í hvora átt og þar er leyfður 80 km hámarkshraði en framúrakstur bannaður. Með vissu millibili eru símar, neyðarskýli og leið yfir í hliðargöng sem liggja samsíða aðalgöngunum og er flóttaleið ef eitthvað alvarlegt kemur uppá. Helst óttast menn eldsvoða en það er ekki síst í framhaldi af eldsvoða árið 2001 sem aukið var mjög við allan öryggis- og neyðarbúnað. Þá eru stjórnstöðvar við bæði gangaopin þar sem fylgst er með umferð og hún takmörkuð ef þurfa þykir og þaðan er stýrt björgunaraðgerðum.
Að lokinni ferðinni sagði Sturla að greinilega væri mjög mikið lagt í allan öryggis- og neyðarbúnað í göngunum. ,,Sú stöðuga vakt sem hér í St. Gotthard göngunum er allan sólarhringinn og mikill tæknibúnaður sem notaður er til að fylgjast með og geta brugðist við hættuástandi sýnir að hægt er að grípa til margs konar ráða til að draga sem mest úr áhættu og jafnframt afleiðingum hugsanlegs slyss. Og þó að við Íslendingar séum ekki með jafnlöng jarðgöng eða með jafnmikla umferð og við sáum hér má ýmislegt af þeim læra og þar sýnist mér kannski helst að við gætum bætt okkur á sviði myndavéla- og eftirlitsbúnaðar sem væri komið fyrir til dæmis á næstu lögreglustöð til að hægt sé að fylgjast sem best með,” segir samgönguráðherra.