Því verður ekki á móti mælt að margir mikilvægir áfangar í framfaramálum hafa náðst  í Skagafirði hin síðustu ár.  Á það ekki síst við samgöngumálin.

Höfnin á Sauðárkróki
Síðasta föstudag var ég viðstaddur þegar kynnt var hönnun  og  líkan af nýjum hafnarmannvirkjum  á Sauðárkróki. Siglingastofnun hefur unnið að endurbótum á hafnarmannvirkjum og er gerð þessa líkans af höfninni liður í því að leita bestu leiða til þess að gera höfnina eins örugga og nokkur kostur er. Þessar aðgerðir eru í samræmi við Samgönguáætlun sem ég  lét vinna og fékk samþykkta á Alþingi. Fyrrverandi formaður hafnarstjórnar  Skagafjarðarhafnar Brynjar Pálsson sem jafnframt sat í Hafnarráði  ríkisins sem fulltrúi samgönguráðherra var óþreytandi í því að vinna að úrbótum í höfninni og beitti sér mjög í því að tryggja fjárveitingar og hraða framvindu framkvæmda. Árangur þess starfs má sjá í þeim miklu endurbótum sem gerðar voru á síðustu tveimur kjörtímabilum. Hið góða samstarf sem ég átti við Brynjar Pálsson formann samgöngunefndar Skagafjarðar á meðan ég gegndi stöðu samgönguráðherra bar árangur og var ómetanlegt. Og enn er komið að því að hefja framkvæmdir. Í gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til umfangsmikilla framkvæmda í höfninni. Um er að ræða nýjan skjólgarð svokallaðan Suðurgarð, dýpkun við enda  brimvarnargarðs og gerð nýrra sandfangara. Ekkert á að vera til fyrirstöðu að hefja þessar framkvæmdir á næstu mánuðum.

Þverárfjallsvegur
Því verður ekki á móti mælt að vegurinn um Þverárfjall er mikil samgöngubót. Ekki voru allir á eitt sáttir þegar ákveðið var að hraða þeim framkvæmdum svo ekki sé talað um hvernig ætti að tengja veginn við gatnakerfið á Sauðárkróki. Ákvörðun um að hraða framkvæmdum og færa veginn norður fyrir  byggðina var að mínu mati rétt. Miklar deilur stóðu um legu vegarins og varð ég sem samgönguráðherra að beita mér af miklu afli til þess að koma í veg fyrir óheppilega tengingu.  Í dag virðast menn sáttir og nú vildu ,,allir Lilju kveðið hafa“.  Í samræmi við fjarskiptaáætlun og útboð á fyrsta áfanga farsímauppbyggingar á þjóðvegum verður á næstunni komið GSM símasamband á Þverárfjallsveg .  

Hringvegur um Norðurárdal
Nú sér fyrir endann á þeirri mikilvægu framkvæmd að endurbyggja veginn um Norðurárdal í Skagafirði. Langvarandi deilur um legu vegarins töfðu því miður þessa framkvæmd  í langan tíma. Nú blasir við glæsilegur vegur og vegfarendur eru lausir við einbreiðu brýrnar. Vonandi verður þessi mikilvæga endurbót á veginum til þess að tryggja sem mest og best öryggi vegfarenda á þessari  leið.

Skagafjarðarbraut
Í samræmi við gildandi samgönguáætlun er nú unnið að endurbyggingu Skagafjarðarbrautar. Var vissulega kominn tími til þess að byggja þennan fjölfarna veg upp með bundnu slitlagi. Er þess að vænta að verkinu  miði sem best áfram  og nægjanlegar  fjárveitingar fáist við endurskoðun samgönguáætlunar svo einnig  megi ljúka endurbyggingu brúa og  koma slitlagi á allan veginn sem fyrst. Þessi endurbygging Skagafjarðarbrautar varðar íbúa svæðisins mjög miklu og ekki síður þá fjölmörgu ferðamenn sem um svæðið fara.

Greinin birtist í Feyki 25. október 2007.