Ég vil í upphafi, þakka stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands, fyrir að gangast fyrir þessum fundi hér í dag. Fundurinn er í raun haldinn í tilefni af 10 ára afmæli Ráðstefnuskrifstofunnar, og við hæfi að óska aðstandenum hennar til hamingju. Mér er vel ljóst mikilvægi þessa starfs sem unnið er á vegum Ráðstefnuskrifstofunnar, og tel að samstarf þessara 30 aðila sem að skrifstofunni standa, hafi skilað góðum árangri

Fyrir rétt tæpum mánuði síðan var undirritaður samningur um byggingu ráðstefnumiðstöðvar- og tónlistarhúss í Reykjavík. Hvers vegna, hafa margir spurt, og svarið við þeirri spurningu hvað varðar ráðstefnumiðstöðina er margþætt.
Ljóst er að þessi markhópur ferðaþjónustunnur, ráðstefnu- og fundagestir, skilar okkur hlutfallslega mestum tekjum. Þá eru ráðstefnu og fundagestir okkur ekki síður mikilvægir vegna þess að þeir skila mestum hluta teknanna utan háannar hins almenna ferðamarkaðar, það er vor og haust, og í miðri viku, en þar hefur nýtingin verið hvað slökust.
Við höfum lagt ríka áherslu á að lengja ferðamannatímann, og mikilvægur lykill að árangri á því sviði, er einmitt ráðstefnumarkaðurinn. Ráðstefnumiðstöð er því mikilvæg og við erum minnt á það þessa daga þegar verið er að búa til ráðstefnumiðstöð úr skólum og íþróttahúsum í vesturbænum vegna NATO fundarins..

Við höfum nú þegar náð ákveðnum árangri á sviði ráðstefnu halds, en það er álit fjölmargra þeirra sem unnið hafa mikið að markaðsmálum og þjónustu við ráðstefnugesti, að við getum náð mun meiri árangri á þessu sviði. Talið er að á árinu 2000, hafi tekjur af þessum þætti ferðaþjónustunnar, verið um það bil 4 milljarðar króna, eða hátt í 15% af heildar gjaldeyristekjum þjóðarinnar af greininni. Því er ljóst að hér er eftir miklu að slægjast.

En hver er þá grunnurinn að því að ná meiri árangri? Þegar tekin er ákvörðun um hvar halda skuli ráðstefnu, er margt sem lagt er til grundvallar. Staðsetningin skiptir hér miklu máli. Kannanir sýna, að raunhæfur markaður sem Íslensk ráðstefnumiðstöð þarf einkum að sækja inná, eru innan þess svæðis sem Flugleiðir þjóna í dag. Það er alveg ljóst, að sá markaður sem er næstur okkur, á Norðurlöndunum, Bretlandi og meginlandi Evrópu, er hvergi nærri fullnýttur . Markaðurinn er því innan seilingar, ef svo má segja.

Á þessu svæði, hefur almennt markaðsstarf ferðaþjónustunnar verið unnið í áratugi. Og hin síðari ár, sérhæft markaðsstarf hvað varðar ráðstefnur og fundi. Og það starf hefur verið að bera mikinn árangur.

Á sama hátt hefur fjármagn Markaðsráðsins og viðbótarfjármagnið sem er í fjárlögum ársins í ár, verið nýtt til markaðssetningar á þessum nærmörkuðum okkar. Þar hafa markaðir verið byggðir upp með þrautseigju og elju á undanförnum árum, og jafnvel áratugum.

Við hljótum því að horfa til þessara markaða fyrst og fremst, og einbeita okkur að þeim, til að nýta þá grunnfjárfestingu sem stofnað hefur verið til, þ.e. til að koma Íslandi af kynningarstigi og yfir á vaxtarstig þegar fjárfestingin er farin að skila arði.

Þá er líklegt, að hin svokallaða alþjóðavæðing, eða útrás íslenskra fyrirtækja, geti sett mark sitt á ráðstefnuhald framtíðarinnar, sem gæti gefið okkur nýja möguleika á öðrum mörkuðum. Ísland, staðsett mitt á milli Ameríku og Evrópu, hlýtur að eiga mikla möguleika sem ráðstefnustaður fjölþjóðafyrirtækja og annara er stunda viðskipti beggja vegna Atlantsála.

Þá njótum við heilsárs leiðakerfis Flugleiða, sem er forsenda þess að ná árangri á þessum markaði, og að mínu mati í raun stærsti og mikilvægasti lykillinn að því að ráðstefnu- og tónlistahús í Reykjavík geti borið sig. Ráðstefnumiðstöð verður ekki byggð á stopulum samgöngum.
Tíðar ferðir til landsins, allan ársins hring, eru forsenda þess að hægt sé að markaðssetja Ísland sem raunhæfan valkost á þessu sviði.
Þá er ekki síður mikilvægt í markaðssetningu Íslands sem ráðstefnulands, að geta státað af öflugri upplýsingatækni og fullkomnu fjarskiptaneti á sanngjörnu verði, og aðgengi að upplýsingaveitum hverskonar sem skipta sífellt meira máli þegar ráðstefnu er fundinn staður.

Það er því ljóst að við höfum þegar til staðar margt er ætti að tryggja okkur frekari árangur á markaði ráðstefnuhalds. Það eru því fullgild rök fyrir þeirri fjárfestingu sem felst í Ráðstefnumiðstöð. Landið sjálft er aðdráttarafl, en okkur vantar enn betri aðstöðu en nú er til ráðstefnuhalds svo okkur megi takast að ná enn fleiri og enn verðmætari ferðamönnum til landsins. Og skila þannig enn meiri tekjum í þjóðarbúið og enn fleiri atvinnutækifærum um allt land.

Því er sú ákvörðun tekin, að fjárfesta hér í fyrsta flokks aðstöðu, sem um leið gerir þær kröfur til þeirra sem vinna að þjónustu við ráðastefnu gesti að sú vinna verði í samræmi við óskir þessa kröfuharðasta hóps ferðafólks.

Með þeirri ákvörðun, að byggja ráðstefnumiðstöð í Reykjavík, er horft til framtíðar, líkt og gert var þegar ákveðið var að ráðst í byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.
Aðstaðan til móttöku ferðamanna í Keflavík, í byrjun níunda áratugarins, var ekki burðug.
Þegar ákvörðun var tekin um byggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar voru margir til að gagnrýna hana, og töldu enga þörf á þvílíkri fjárfestingu í innviðum ferðaþjónustunnar. Allir sanngjarnir menn sjá hve mikilvæg Leifsstöð er ferðaþjónustunni, og ljóst að sú umferð sem fer þar um í dag, gæti á engan hátt farið um völlinn ef ekki hefði verið ráðist í byggingu nýrrar flugstöðvar. Hæpið er að íslensk ferðaþjónusta, og í raun þjóðarbúið allt, hafi notið þeirra hundruða milljarða gjaldeyristekna sem greinin hefur skilað frá opnun flugstöðvarinnar – ef ekki hefði verið blásið á þessa gagnrýni á sínum tíma.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auka veg ferðaþjónustu m.a. með öflugu kynningarátaki á helstu mörkuðum. Þannig verði nýtt þau sóknarfæri sem gefast í þeirri grein, ekki síst á sviði menningar- og heilsutengdrar ferðaþjónustu. Unnið verði að lengingu ferðamannatímans um land allt og betri nýtingu fjárfestingar í greininni. Ein forsenda þess að ná þessum markmiðum er fjárfesting í innviðum greinarinnar, og þar með í ráðstefnumiðstöð og tónlistarhúss. Þessi ákvörðun verður að mínu mati mjög mikilvæg fyrir framgöngu menningartengdrar ferðaþjónustu.

Á vegum samgönguráðuneytis og menntamálaráðuneytis hefur verið unnið að markvissari stefnumótun á þessu sviði og því er það mér alveg sérstakt ánægjuefni að þetta verkefni sé nú komið á þann rekspöl sem raun ber vitni.

Ég er sannfærður um að sú ákvörðun að byggja ráðstefnumiðstöð með þeim forsendum sem við höfum sett okkur, mun verða íslenskri ferðaþjónstu allri, og um land allt, gríðarleg lyftistöng.

Við förum af stað í þetta verkefni með það að markmiði að ná árangri innan skynsamlegra tímamarka. Sannfæring mín er sú að þetta verkefni verði í senn atvinnuskapandi, auki tekjur þjóðarbúsins í heild sinni, og festi enn frekar í sessi hið dýrmæta leiðakerfi sem Flugleiðir hafa byggt upp til og frá landinu.

Nú á næstunni verður skipuð verkefnisstjórn þessa verkefnis, skipuð þremur mönnum frá ríki og þremur frá borginni. Ég mun tilnefna einn af fulltrúum ríkisins. Jafnframt hef ég ákveðið að skipa sérstakan samráðshóp með tengsl við ferðaþjónustuna, sem yrði mínum manni í verkefnisstjórninni til halds og trausts. Þegar hefur verið haldinn í samgönguráðuneytinu fyrsti undirbúningsfundur vegna þessa verkefnis.

Þegar ráðstefnumiðstöð- og tónlistarhús, með fyrsta flokks hóteli, verður orðið að veruleika í hjarta höfuðborgarinnar, verður þar um að ræða mjög stóran og verðmætan vinnustað, sem skila mun feiknarmiklum tekjum inn í hagkerfi borgarinnar. Ferðaþjónusta innan borgarmarkanna getur orðið stóriðja borgarinnar.

Ég hlýt því að nota þetta tækifæri, til að hvetja Reykjavíkurborg til að endurskoða ákvarðanir sínar um aðkomu að markaðsmálum ferðaþjónustunnar, líkt og borgin gerði er hún ákvað á sínum tíma að vera áfram aðili að Ráðstefnuskrifstofu Íslands, eftir að hafa íhugað úrsögn um hríð.

Jafnframt vil ég nefna hér í dag stöðu Reykjavíkurflugvallar. Þeir gestir sem sækja alþjóðlegar ráðstefnur vilja hafa möguleika á því að kynnast á stuttum tíma því landi, og þeirri þjóð, sem þeir gista hverju sinni. Um er að ræða verðmæta gesti, sem eru tilbúnir til að eyða umtalsverðu fé, til að skoða landið á stuttum tíma. Til að svo megi áfram vera mögulegt, skiptir tilvera flugvallarins í Reykjavík öllu.

Það sem oft ræður úrslitum um að ákveðið er að halda ráðstefnu á Íslandi, er áhugi ráðstefnugesta á að kynnast einstakri náttúru Íslands, menningu og sögu, og njóta fjölbreyttrar afþreyingar.

Því verðum við að tryggja að væntanlegir ráðstefnugestir, líkt og þeir sem heimsækja okkur nú, hafi áfram möguleika á því að upplifa sem mest af landinu – og einnig að ferðaþjónustan um allt land njóti aukinna umsvifa.

Því er innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli svo mikilvægt, til að koma til móts við þær óskir góðra gesta um að geta á einfaldan og þægilegan hátt skroppið hvort heldur sem er vestur, norður eða austur. Flugvöllur svo nærri ráðstefnumiðstöð er því einstök viðbót við fyrsta flokks aðstöðu í ráðstefnumiðstöð, og tengdi hana sterkum böndum við ferðaþjónustuna um land allt.

Framundan er mikil vinna við að undirbúa byggingu og rekstur ráðstefnumiðstöðvar. Og væntanlegir gestir munu koma með flugi.
Að mínu mati má einfalda myndina þannig, að við séum hér að fjalla um þrennt er skiptir meginmáli. Heilsárs leiðakerfi Flugleiða, markaðsvinnu erlendis og byggingu ráðstefnumiðstöðvar.

Takist Flugleiðum að verja núverandi leiðakerfi sitt, eða byggja það aftur frekar upp, þá styður bygging ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík möguleika þess – á sama hátt og án heilsárs leiðakerfis Flugleiða mun fjárfesting í ráðstefnumiðstöð ekki skila arði og þjóðarbúið verða af miklum tekjum.