Alþingi hefur að tillögu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra samþykkt sérstaka fjárveitingu í fjáraukalögum til umferðaröryggisaðgerða á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Af því tilefni var í dag haldinn fundur í samgönguráðuneytinu um umferðaröryggismál og framkvæmdir og voru málin voru rædd frá ýmsum hliðum.

Fundinn sátu fulltrúar samgönguráðuneytisins undir stjórn Ragnhildar Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og ýmsir sérfræðingar sem starfa á sviði umferðaröryggismála og vegagerðar, þau Ólafur Guðmundsson, verkefnisstjóri EURORAP vegamatskerfisins og varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Birgir Hákonarson frá Umferðarstofu og Auður Þóra Árnadóttir frá Vegagerðinni. Rætt var um ýmsa kosti í framtíðarvegagerð og útfærslur þeirra.

Þar sem umferðaröryggisaðgerðir á Suðurlandsvegi þola enga bið er mikilvægast að bregðast við með aðgerðum sem nú þegar gefa aukið öryggi á hættulegustu vegarköflunum. Vonir standa til þess að þegar í stað verði hægt að aðskilja akstursstefnur á Suðurlandsvegi þar sem aðstæður leyfa og breikka veginn þar sem brýnast er. Með þessu verður hrundið í framkvæmd árangursríkum aðgerðum í þágu aukins umferðaröryggis.

Endanlegt markmið og stefna samgönguráðherra er að Suðurlandsvegur verði tvöfaldaður og að verkefnið verði sett í samgönguáætlun sem kemur til meðferðar Alþingis í byrjun næsta árs. Ljóst er að svo umfangsmikil framkvæmd og flókin og krefst margháttaðs undirbúnings svo sem hönnunar og umhverfismats.