Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heimsótti í gær Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og ræddi við forráðamenn Hallgrímskirkju á Saurbæ. Milli 10 og 12 þúsund ferðamenn heimsækja Saurbæ á ári hverju og segir ráðherra mikilvægt að vel sé staðið að móttöku og þjónustu við ferðamenn sem vitja sögufrægra staða á landinu eins og gert sé að Saurbæ.

Sóknarpresturinn, séra Kristinn Jens Sigurðsson, Arnheiður Hjörleifsdóttir, formaður sóknarnefndar, og Þorvaldur Valgarðsson gjaldkeri sýndu samgönguráðherra staðinn. Greindu þau frá því sem gert hefur verið að undanförnu og hvað fyrir liggur af verkefnum til að bæta móttöku ferðamanna og aðgengi að staðnum. Eins og fyrr segir heimsækja milli 10 og 12 þúsund manns Saurbæjarkirkju á ári hverju, einstaklingar og ýmsir hópar. Síðustu árin hefur fjölgað ferðamönnum sem skoða sig um í Hvalfirði og þar eru meðal annars rekin ferðaþjónustufyrirtækin að Bjarteyjarsandi og Hótel Glymur og í firðinum er vaxandi fjöldi sumarbústaða.

Næsta sumar verður haldið uppá 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar og framundan eru ýmsar umbætur, svo sem malbikun bílastæðis og lagning stétta en að undanförnu hafa verið lagðir göngustígar til að auðvelda mönnum að skoða ýmsar minjar sem tengjast sr. Hallgrími Péturssyni og sett þar upp skilti. Eru það til dæmis Hallgrímssteinn, Hallgrímslind og síðan leiði sr. Hallgríms. Auk bílastæða liggur fyrir að gefa út bæklinga og annað upplýsingaefni um staðinn og söguna. Telur sóknarnefndin mikilvægt að varðveita sögu sr. Hallgríms og Guðríðar konu hans.

Sturla Böðvarsson segir brýnt að sinna vel móttöku ferðamanna, ekki síst á sögufrægum kirkjustöðum, í því skyni að halda uppi sögu og menningu þeirra. Kirkjusetur og menningarstarf sem þar hafi verið unnið verðskuldi að því sé haldið á loft og búa þurfi svo um hnúta að unnt sé að sinna ferðamönnum með fræðslu og upplýsingum. Segir hann gott dæmi um slíkan stað vera Reykholt í Borgarfirði þar sem vel hafi tekist til hjá kirkju og ferðaþjónustu um uppbyggingu.

Jafnframt því að heimsækja Saurbæ kynnti samgönguráðherra sér ástand vegamála í uppsveitum Borgarfjarðar. Þá vitjaði hann einnig ferðaþjónustunnar á Fossatúni og ræddi við Steinar Berg Ísleifsson um uppbygginguna sem þar hefur átt sér stað að undanförnu og kynnti sér hvað framundan er á þeim slóðum.