,,Ég tel að sú lækkun á virðisaukaskatti á matvælum og þjónustu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið frá 1. mars á næsta ári sé mjög mikilvæg fyrir íslenska ferðaþjónustu,” segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Talsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar hafa lengi barist fyrir lækkuðu matvælaverði og segir ráðherra þetta skapa atvinnugreininni ný tækifæri.

Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar felst að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verði lækkaður úr 24,5% í 7%, virðisaukaskattur af matvælum verður lækkaður úr 14% í 7% og virðisaukasattur af ýmiss konar þjónustu, svo sem hótelgistingu, verður sömuleiðis lækkaður úr 14% í 7%. Talið er að með þessu takist að lækka matvælaverð um 16% og verði það sambærilegt matvælaverði á Norðurlöndum. Þá má einnig benda á að í þessum tillögum er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur á veggjaldi Hvalfjarðarganga lækki úr 14% í 7%.

,,Ég hef margoft fengið eindregnar ábendingar frá fjölmörgum sem starfa í ferðaþjónustu um það að hátt verð á matvælum hérlendis komi erlendum ferðamönnum á óvart og að þeir hugsi sig tvisvar um áður en þeir hyggi á ferð hingað aftur,” segir Sturla Böðvarsson. Hann bendir líka á að þetta komi ekki síður innlendum ferðamönnum vel enda sýna tölur Hagstofunnar um gistnætur að á því sviði hefur innlendi markaðurinn stækkað einna mest.

,,Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent á það lengi að matvælaverð og verðlagning á veitinga- og gisthúsum er það sem menn bera saman í ferðum sínum milli landa og þar hefur samkeppnisstaða okkar vægast sagt verið erfið. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin ákvað að stíga mjög ákveðið skref til lækkunar á matvælaverði og þótt það sé fyrst og fremst hugsað til að ná niður matvælaverði heimilanna,” segir ráðherra.

Með þessari ákvörðun eru ríkisstjórnarflokkarnir að framfylgja því ákvæði stefnuyfirlýsingar sinnar frá 2003 að svigrúm ríkissjóðs verði notað til að tryggja kaupmátt þjóðarinnar og að virðisaukaskattskerfið verði endurskoðað með það í huga að bæta kjör almennings.