Mikilvægum áfanga er loks náð í framhaldsskólamálum Snæfellinga. Samkomulag hefur tekist um stofnun framhaldsskóla í Grundarfirði, sbr. fréttatilkynningu menntamálaráðuneytisins sem send var út nú í morgun og fer hér á eftir í heild sinni.
Samkomulag hefur tekist milli menntamálaráðherra og fulltrúa sveitarfélaga á Snæfellsnesi um að hafinn verði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Gert er ráð fyrir að skólinn verði staðsettur í Grundarfirði. Lögð verður áhersla á að þessi nýi framhaldsskóli verði leiðandi í notkun upplýsingatækni og nýti sér m.a. kosti dreifnáms. Sérstaða hans verði að námið fari fram bæði staðbundið og í fjarnámi.
Gert er ráð fyrir að skólinn verði í leiguhúsnæði til að byrja með. Stefnt er því að starfsemi hans hefjist haustið 2004 og þá þegar verði tvö fyrstu ár bóknámsbrauta í boði. Skólinn taki þá við nýnemum á fyrsta ár og nemendur á öðru ári verði m.a. þeir nemendur sem hafa stundað nám á fyrsta ári í framhaldsdeildum á Snæfellsnesi.
Samkomulag aðila felur í sér að fljótlega verði ráðinn starfsmaður til þess að undirbúa stofnun og rekstur skólans. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir því að fjármagn til reksturs skólans verði tryggt á fjárlögum ársins 2004.