Einar Oddur Kristjánsson var fæddur 26. desember 1942. Hann lést 14. júlí 2007. Minningarathöfn var haldin í Hallgrímskirkju í Reykjavík 25. júlí en útför 28. júlí frá Flateyrarkirkju.

Það var mikil harmafregn sem mér barst laugardaginn 14. júlí að vinur minn og samstarfsmaður Einar Oddur Kristjánsson væri látinn. Íbúar Vestfjarða, Norðvesturkjördæmis og  þjóðin öll sér þar á eftir einum af sínum mætustu sonum, sem lagði allan sinn lífskraft í vinnu í þágu fjöldans.

Þegar Einar Oddur Kristjánsson kom til starfa á Alþingi eftir kosningarnar 1995 fór ekki á milli mála að þar fór maður sem vildi láta til sín taka og sú varð raunin. Kynni okkar Einars Odds höfðu ekki verið mikil áður, utan þau að hafa átt samleið innan Sjálfstæðisflokksins og hafa átt nokkur samskipti þegar hann var formaður Vinnuveitendasambandsins og ég formaður Hafnasambands sveitarfélaga. Samstarf okkar átti eftir að verða náið og gott á vettvangi þingsins sem og fyrir kjördæmið okkar, Norðvesturkjördæmi. Á það samstarf okkar brá aldrei skugga.

Einar Oddur hafði mikla mannkosti til að bera. Hann gekk hreint til verks hverju sinni. Hann lýsti óhikað skoðunum sínum á mönnum og málefnum. Hann var stefnufastur í framgöngu sinni í öllum málum. Einar Oddur var einstaklega glöggur  á aðalatriði hlutanna og hafði mikla yfirsýn. Þegar ákvörðun hafði verið tekin var hann fastur fyrir. Þrátt fyrir að hart væri deilt áður en niðurstaða hafði fengist var hann sáttfús og orðheldinn. Þessir eðliskostir Einars Odds nýttust vel í þeim mikilvægu trúnaðarstörfum sem honum voru falin. Gilti það jafnt um störf hans á vettvangi atvinnulífsins sem og um störf hans sem stjórnmálamanns. Sem alþingismaður ávann Einar Oddur sér traust félaga okkar úr öllum flokkum og víðsvegar úr samfélaginu. Þetta traust kunni hann að nýta sér í þeim tilgangi að leiða mál til farsællar niðurstöðu með  heildarhagsmuni að leiðarljósi. Í því hlutverki naut hann sín og átti auðvelt með að tala  fólk til sátta og laðað fram lausnir sem fáum öðrum var gefið að finna.

Það verður skarð fyrir skildi hjá okkur í Norðvesturkjördæmi að Einari Oddi föllnum. Honum var það vel ljóst að við eigum við mikil vandamál að etja í kjördæminu sem taka þarf á af fyrirhyggju og festu ef byggðin í kjördæminu á að þróast sem öll efni standa til ef rétt verður  á spilum haldið. Hann hafði mikla trú á því að það gæti tekist. Um það ræddum við ítarlega  stuttu fyrir andlát hans, í einu af ótalmörgum samtölum sem við áttum í sumar um málefni kjördæmisins. 

Nafn Einars Odds Kristjánssonar  var og verður bundið órjúfanlegum böndum við Flateyri. Þar voru rætur hans og þangað sótti hann afl sitt og áræði. En hann minntist þess jafnan að eiga einnig ættir að rekja til Breiðfirðinga  sem voru bæði miklir fyrir sér og kunnu að sigla um straumþung eyjasundin og þurftu að haga seglum eftir vindi til þess að komast af með áhöfn sína jafnt í blíðu sem stríðu. Það má líkja lífsgöngu Einars Odds við slíka siglingu.

Einars Odds verður minnst í Norðvesturkjördæmi fyrir einarða og vasklega framgöngu í þágu fólksins jafnt í sveitunum þar sem hann ávann sér trúnað og traust  sem og í sjávarbyggðunum þar sem rætur hans voru dýpstar. 
Ég færi Sigrúnu Gerðu og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Við Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi minnumst Einars Odds með þakklæti og virðingu.

Sturla Böðvarsson