Birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2008

Árni Helgason naut þeirrar gæfu að halda andlegum styrk og góðri heilsu allt til hins síðasta er hann andaðist í hárri elli.
Í Hólminum átti hann  sína löngu og farsælu stafsævi og stofnaði heimili með sinni góðu eiginkonu Ingibjörgu. Árni hafði  víðtæk áhrif í  samfélaginu og  var kjörinn heiðursborgari Stykksihólms. Fyrstu kynni mín  af Árna var þegar ég var  sjö ára gamall og hann kom að Mávahlíð ásamt sýslumanninum. Ágúst afi minn, landpósturinn, ætlaði að fylgja sýsluskrifaranum gangandi  fyrir Búlandshöfða sem var erfiður farartálmi. Sýsluskrifarinn, sem stundum var settur sýslumaður, átti erindi í nafni embættisins inn í Eyrarsveit.  Árni varð mér strax minnisstæður bæði vegna hispurslausrar framgöngu og sakir þess hversu vel hann var klæddur og með kúluhattinn sinn sem hann bar jafnan. Árni var sérlega vingjarnlegur við ungan drenginn, spaugsamur, spurull um menn og málefni  og fundvís á umræðuefni . Síðar átti ég eftir að kynnast honum  betur þegar við urðum sveitungar og  áttum  nærri  daglega samskipti. Eftir að við Hallgerður fluttum í Hólminn leið ekki á löngu þar til Árni kom  í heimsókn í þeim tilgangi að kanna aðstæður okkar. Hann taldi ástæðu til þess að hlúa að  unga fólkinu  og hann vildi vera viss um að ekkert amaði að hjá þessum nýju íbúum. Þannig var Árni. Hann fylgdist með öllum og vildi verða að liði. Og heimsóknir hans til okkar urðu margar og við gerðum ráð fyrir innliti frá honum um hver jól, áramót og páska . Fjölskyldan þekkti tónana í dyrabjöllunni þegar Árni hringdi. Hann Árni er kominn!, var sagt og honum fagnað innilega. Slík einlæg vinátta er dýrmæt. Árni Helgason var einn þeirra sem lét sig ekkert mannlegt óviðkomandi. Hann tók þátt í uppbyggingu atvinnulífsins í Stykkishólmi með þáttöku í útgerðarfyrirtækjum, hann  lagði sitt að mörkum  sem formaður skólanefndar, hann var gæslumaður stúkunnar sem var ómetanlegt starf í þágu æskunnar og hann var öflugur  stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sótti Landsflundi flokksins í yfir 60 ár.  Hann þekkti alla forystumenn flokksins og hikaði ekki við að senda mönnum  línu, gera athugasemdir eða bjóða  stuðning og liðveislu þegar mikið lá við. Það var traustvekjandi að fá slík bréf.  Árni var þekktur fyrir kveðskap og  gamanvísnagerð og þar birtist oft spegill samtíðarinnar í gamasömum en jákvæðum nótun. Þegar tekist var á í samfélaginu gerði hann grín að öllu saman og stuðlaði þannig að sáttfýsi og jákvæðni. Árni var einstaklega tryggur vinum sínum. Það sýndu  heimsóknir hans til  sjúkra og aldraðra. Þeir voru margir sem nutu velvildar hans en hann hafði ekki hátt um þessar heimsóknir. En þekktastur er Árni fyrir störf sín að bindindismálum. Allt starfið í stúkunni var einstakt og greinar  hans og áminningar um skaðsemi áfengis  eru nánast óteljandi í Morgunblaðinu.  Allt það starf verður seint þakkað. Að leiðar lokum minnumst við Hallgerður  Árna  með þakklæti og virðingu og sendum  fjölskyldu hans samúðar kveðjur.