Samgönguráðherra hefur ákveðið að skera upp herör gegn óþarfa skriffinnsku á sviði samgöngumála.

Íslenska réttarríkið byggist á lögum og reglum. Við setningu þeirra er hins vegar mikilvægt að gæta hófs og að ávallt sé haft í huga að aðgerðir eða afskipti ríkisvaldsins séu ekki umfram þá áhættu sem í húfi er eða þá hagsmuni sem varðir eru. Að sama skapi eru vönduð og gagnsæ lög og reglur og annað verklag opinberra aðila til þess fallin að auka gæði opinberrar þjónustu.

Nú hefur samgönguráðherra ákveðið að skera upp herör gegn óþarfa skriffinnsku á sviði samgöngumála. Í þessu skyni hefur hann skipað vinnuhóp og fengið honum það verkefni að fara skipulega í gegnum öll lög og reglugerðir sem í gildi eru á sviði samgönguráðuneytisins og greina hvar regluverkið er óþarflega óljóst, flókið eða íþyngjandi fyrir viðskiptavini ráðuneytisins og stofnana sem undir það heyra. Í framhaldi af því mun hópurinn gera tillögur til ráðherra um úrbætur. Starfshópinn skipa Tómas Eiríksson, héraðsdómslögmaður, Ólafur Sveinsson, hagverkfræðingur, Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu og Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, sem leiðir vinnuna.

Dæmi um atriði sem tekin eru til skoðunar eru skilyrði fyrir starfsleyfum og atvinnuleyfum, umsóknir og kröfur um fylgiskjöl, kostnaður, viðurlög og ýmsar skírteinaútgáfur. Þetta á jafnt við í siglingum, flugi, flutningum fólks og farms á landi, umferðarmálum og fjarskiptum. Þegar hafa komið fram drög að frumvarpi til einföldunar á kröfum sem gerðar eru til ferðaskrifstofa. Þá mun starfshópurinn yfirfara gjaldtökuheimildir, bæði skatttöku og þóknunargjaldaheimildir. Fleira kemur til skoðunar, s.s. hvort heimildir til töku stjórnvaldsákvarðana séu skýrar og sama á við um kæruleiðir. Að lokum er þessi yfirferð notuð til að athuga formkröfur skjala miðað við nýjungar í IX. kafla stjórnsýslulaga um rafræna stjórnsýslu.

Starfshópnum er ætlað að skila af sér tillögum til ráðherra um eftirfarandi atriði fyrir einstök svið: Fram komi lýsing á verkefni sem lagt er til, s.s. samningu lagafrumvarps, hvert sé markmiðið með aðgerðum, hverjir hafi hag af aðgerðum, aðferð við verkefni/aðgerð og að lokum að setja fram tímaáætlun.