Miklar umræður hafa verið undanfarnar vikur um Sundabraut annars vegar og mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut eða aðrar lausnir á þeim gatnamótum hins vegar. 
Það verður að viðurkennast að sú vinkilbeygja, sem fulltrúar R-listans tóku í málefnum gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, hefur komið verulega á óvart og sett þessi mál í uppnám og annað samhengi en áður var.

Í ljósi sögunnar er rétt að rifja upp að það skipulagsklúður, sem varð í upphafi stjórnartíðar R-listans hjá Reykjavíkurborg, þegar mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar voru tekin út af aðalskipulagi, olli töfum á hönnun og verkferli mislægra gatnamóta á þessum umferðarþyngstu gatnamótum höfuðborgarsvæðisins.

Þegar R-listinn setti mislægu gatnamótin síðan aftur inn á aðalskipulag fór undirbúningsvinna í gang, sem hefur verið unnið að um nokkra hríð. Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir framkvæmdum á Miklubraut og Hringbraut. Þar á meðal þessum gatnamótum. Var það í samræmi við aðalskipulag borgarinnar. Samkvæmt því var undirbúningur kominn í gang þegar mislæg gatnamót eru aftur slegin út af borðinu. Nú með þeim rökum að Sundabraut skuli sett í forgang. Það er auðvitað óábyrgt af fulltrúum R-listans að stilla þessum tveimur framkvæmdum upp á móti hvor annarri .

Það er kominn tími til að stíga til jarðar í þessu mikilvæga máli og leggja meginlínurnar.

Reykvíkingar geta ekki beðið árum saman með úrlausn mála á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Enn er töluverð vinna eftir við undirbúning mislægra gatnamóta, sem gerir það að verkum að lok framkvæmda verða aldrei fyrr en um árið 2008-2009.

Því legg ég áherslu á að ráðist verði í lausn sem felst í útvíkkun gatnamótanna, en með henni eru gatnamótin víkkuð og akreinum og umferðarljósum bætt við strax næsta vor. Sú framkvæmd mun bæta umferðarflæði um gatnamótin til muna. Líklegt verður að telja að ekki þurfi umhverfismat fyrir þá framkvæmd, þar sem einungis er um að ræða breytingu á núverandi gatnamótum. Því verður mögulegt að hefjast handa jafn fljótt og raun ber vitni. Undirbúningsvinnu fyrir mislæg gatnamót verður haldið áfram með það fyrir augum að ná sátt um nýja lausn og ráðast í gerð þeirra þegar undirbúningsvinnu er lokið og borgaryfirvöld hafa náð áttum.

Í millitíðinni verður vinna við Sundabraut sett af stað, alla leið upp á Kjalarnes. Með þeirri Sundabraut sparast kostnaður við að byggja upp Vesturlandsveg um Kollafjörð þegar lokið hefur verið við tvöföldun Vesturlandsvegar um Mosfellsbæ.

Með þessari nálgun fá þeir 80 þúsund bílar, sem fara um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, strax viðunandi úrlausn þar til unnt verður að ráðast í framkvæmdir við mislæg gatnamót. Ef ekki verður gripið til þessara aðgerða verður bið, þeirra sem um gatnamótin fara, eftir lausn allt til ársins 2009. Það er óviðunandi fyrir þá sem aka um götur Reykjavíkur.

Það er mikið umhugsunarefni að sveitarfélögin geti stöðvað mikilvægar framkvæmdir við þjóðvegi sem ríkið kostar og Vegagerðin ber alla ábyrgð á. Það bendir allt til þess að kominn sé tími til að breyta lögum svo tryggja megi eðlilega framvindu án aðkomu þeirra sveitarstjórna sem sveiflast eftir óstöðugum vindi.