Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, bauð í dag þeim listamönnum sem hljóta heiðurslaun listamanna árið 2008 til móttöku í Alþingishúsinu, en Alþingi hefur veitt heiðurslaun listamanna, með sérstakri samþykkt, um langt árabil.
Ávarp Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, af þessu tilefni.
Ágætu gestir
Ég býð ykkur öll velkomin í Alþingishúsið. Sérstaklega vil ég bjóða velkomna þá listamenn sem hlutu heiðurslaun Alþingis að þessu sinni, en tilefni samkomunnar hér í dag er samþykkt Alþingis um hin sérstöku heiðurslaun til listamanna. Móttökur af þessu tilefni hafa verið árlegur viðburður.
Í samþykkt Alþingis frá því í desember sl. er kveðið á um að 28 einstaklingar skuli hljóta heiðurslaun listamanna á þessu ári. Tveir úr hópi þeirra listamanna sem hlutu heiðurslaun á seinasta ári eru ekki lengur á meðal okkar. Þar er um að ræða hina ástælu söngvara Guðmund Jónsson og Kristin Hallsson. Með fráfalli þeirra er vissulega skarð fyrir skildi. Um leið og við minnumst þeirra með virðingu og söknuði erum við þakklát fyrir að hafa notið þeirra einstöku listrænu hæfileika sem þjóðin kunni að meta.
Líkt og ég nefndi áðan hefur Alþingi veitt heiðurslaun listamanna um langa hríð og hefur menntamálanefnd Alþingis það vandasama hlutverk með höndum að gera tillögu til þingsins um hverjir skuli hljóta heiðurslaun og vera á þann veg heiðraðir af Alþingi Íslendinga. Með þessari ákvörðun Alþingis eru verk listamannanna dregin sérstaklega fram og framlag þeirra þakkað. Sem betur fer eigum við listamenn sem búa yfir óvenjulegum hæfileikum. Listin í sinni margvíslegu birtingarmynd auðgar líf okkar, vekur okkur til umhugsunar og kemur róti á tilfinningar okkar þegar listsköpunin nær hámarki.
Það er ekki ætlan mín að skilgreina listina. Listin í hinni fjölbreytilegustu mynd höfðar til tilfinninga okkar og skynjunar gagnvart því sem er fagurt og endurnærandi. Listin á sér mörg birtingarform, en innan hverrar listgreinar hafa orðið til „skólar“ og hefðir.
Hér á vinnustað okkar þingmanna er nokkuð um listmuni sem Alþingi hefur áskotnast á löngum tíma. Hér í hinum gamla efrideildarsal Alþingis þar sem við stöndum blasa við málverk og munir sem gleðja augað og fela í sér sterkar hefðir formfestu og andblæ liðins tíma. Öll eru listaverkin í Alþingishúsinu til þess fallin að okkur líði vel í návist þeirra. Þá er Alþingishúsið sjálft sannkallað augnayndi þar sem það stendur virðulegt við Austurvöll, listilega hlaðið úr tilhöggnum steini og því hluti af landinu sjálfu.
Þegar þið komuð hingað fyrir ári og fyrirrennari minn í stóli forseta Alþingis tók á móti ykkur höfðu staðið yfir talsverðar endurbætur á Alþingishúsinu. Endurbæturnar sem ráðist var í hafa heppnast vel og er Alþingishúsið vissulega glæsilegt þar sem upprunalegt útlit og litaval ræður för og hefur verið lögð alúð við að raska því ekki og halda heildarsvipmóti um leið og þinghúsið er fellt að þörfum nútímans.
Þið sem hafið komið hingað oft áður hafið tekið eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað á Alþingishúsinu. Að þessu sinni vil ég sérstaklega vekja athygli ykkar á nýjum húsgögnum sem voru formlega tekin í notkun í apríllok sl. Húsgögnin eru íslensk hönnun. Á hluta borðanna eru glerplötur með myndskreytingum sem eru vísun í Lögréttu og goða sem þar áttu sæti. Húsgögnin voru hönnuð af Íslendingnum Leó Jóhannssyni sem starfar sem lektor við Háskólann í Linköping í Svíþjóð.
Ég veit að þeir þingmenn og starfsmenn sem hér eru munu fúslega ganga með ykkur um húsið á eftir og gefst ykkur þá tækifæri til að virða fyrir ykkur þessi nýju húsgögn og þær breytingar sem gerðar hafa verið á Alþingishúsinu.
Ég vil nota þetta tækifæri og greina frá því að Alþingi samþykkti í fjárlögum fyrir þetta ár myndarlega fjárhæð til framkvæmda á reit Alþingishússins. Um er að ræða að endurbyggja tvö þau gömlu hús sem standa á Alþingisreitnum hér í hjarta borgarinnar. Húsin tvö eru Skjaldbreið og Vonarstræti 12, Skúlahús, sem verður fært á horn Tjarnargötu og Kirkjustrætis gegnt húsi Hjálpræðishersins. Jafnframt var samþykkt af hálfu borgarinnar að gera ráð fyrir nýbyggingu á reitnum meðfram Tjarnargötu og Vonarstræti og munum við hefja á árinu undirbúning þeirrar byggingar.
Með þessari ákvörðun er menningarminjum sem felast í byggingarlistinni á Alþingisreitnum gert hátt undir höfði og lögð drög að því löngu tímabæra verkefni að byggja yfir alla starfsemi Alþingis. Með þessum byggingum verður húsakosti þingsins komið í sómasamlegt ástand sem hæfir Alþingi, menningu okkar og vilja til að nýta byggingarlistina til þess að fegra umhverfið. Jafnframt því að skotið er skjólshúsi yfir þingmenn og starfsliðið verður auðveldara að koma fyrir þeim fjölmörgu listaverkum sem eru í eigu þingsins og eiga að prýða sali Alþingis.
Virðulegu listamenn og góðir gestir.
Alþingi er heiður að því að fá tækifæri til að staðfesta með þessari samkomu þá sérstöku samþykkt Alþingis að veita ykkur laun heiðurslistamanna árið 2008. Megið þið vel njóta.
Að venju koma hingað góðir listamenn og flytja tónlist. Það er mér sönn ánægja að bjóða kvartett undir forustu Benedikts Ingólfssonar velkominn. Að loknum tónlistarflutningi býð ég ykkur svo að þiggja frekari veitingar. Verið öll hjartanlega velkomin og njótið þess sem hér er á borð borið og þess sem tónlistin gefur okkur. Og síðast en ekki síst njótum þess að hittast hér í sölum Alþingis við þetta tækifæri.