Með dómi EFTA dómstólsins er í raun verið að dæma ríkisvaldið fyrir að hafa flugvallaskatta of lága á innanlandsflugi.
Flugvallaskattar á millilandaflugi á Íslandi eru fyllilega sambærilegir við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.
Flugvallaskattar eru nauðsynlegir til að standa undir kostnaði við rekstur flugvalla í landinu. Þegar núverandi skattlagning var ákveðin voru miklir rekstrarerfiðleikar í innanlandsflugi á Íslandi. Það var ljóst að greinin mundi ekki bera mikla skattlagningu og því var henni haldið í algjöru lágmarki.
Innanlandsflugið er gríðarlega mikilvægt í uppbyggingu ferðaþjónustu og til að tryggja almennar samgöngur í landinu. Þó rekstrarumhverfi greinarinnar hafi batnað er hún enn mjög viðkvæm og því mun samgönguráðuneytið áfram leita allra leiða til að halda skattlagningu á þessu flugi niðri.
Samgönguráðuneytið telur niðurstöðu EFTA dómstólsins á miklum misskilningi byggða enda fráleitt að halda því fram að innanlandsflug á Íslandi sé í samkeppni við millilandaflug í Evrópu. Það segir sig sjálft að flugrekendur á flugleiðinni Reykjavík – Akureyri eru ekki í samkeppni við flugrekendur á flugleiðinni Keflavík – London.
Jafnframt telur ráðuneytið ljóst að um ákveðna mismunun sé að ræða milli landa. Í Skotlandi var málum t.d. eins háttað og hér – skattlagning á innanlandsflugi var lægri en skattlagning á millilandaflugi. Það lætur ESB hins vegar óáreitt.
Það er ljóst að nú þarf að endurskoða þessi mál öll vegna þessa dóms, hversu óréttmætur sem hann kann að vera. Í því samhengi má benda á að samgönguráðherra hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að skattar á millilandaflugi ættu að lækka enn frekar – nú síðast á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands sem haldin var að Mývatni í nóvember. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin, enda var ekki mögulegt að taka slíka ákvörðun meðan dómsmál þetta vofði yfir.
Samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið munu fara yfir niðurstöðu dómsins og taka ákvörðun um viðbrögð.