Eitt af því sem vinstri menn hafa sett hvað eftir annað fram að undanförnu í umræðunni um einkavæðingu Landssíma Íslands hf. er að það sé á einhvern hátt borgaryfirvöldum í Reykjavík að þakka að samkeppni sé til staðar á íslenskum fjarskiptamarkaði. Í þessu sambandi nægir að nefna þingmanninn Kristján L. Möller og forseta borgarstjórnar Helga Hjörvar.
Báðir hafa þeir fjálglega lýst því, að við það að R-listinn í Reykjavík skyldi í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur stofna fjarskiptafyrirtækið Línu.Net hafi einokun Landssíma Íslands verið brotin á bak aftur. Hvað þá með öll hin fyrirtækin sem í dag keppa af miklum krafti á fjarskiptamarkaðinum? Skiptir hlutur þeirra í samkeppninni engu máli? Helgi Hjörvar og Kristján L. Möller hafa báðir reynt að halda því fram að tilurð Línu.Nets hafi brotið eitthvert blað á íslenskum fjarskiptamarkaði, og af málflutningi þeirra má skilja að samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði sé tilkomin vegna Línu.Nets.
Til áréttingar vil ég rifja upp að samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði er tilkomin vegna þess að í tíð samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur einokun á íslenskum fjarskiptamarkaði verið aflétt. Fjarskiptalögum og þeim reglum sem gilda um fjarskiptamarkaðinn hefur ekki verið breytt í borgarstjórn Reykjavíkur – heldur á Alþingi. Það var samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sem beytti sér fyrir því að núgildandi fjarskiptalög voru sett en það er einmitt á grundvelli þeirra sem meirihluti þingmanna var samþykkur því að stíga stærsta skref sem stigið hefur verið í einkavæðingu ríkisfyrirtækja á Íslandi með því að heimila sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.