Í talsíma hefur þróunin verið sú sama og í farsíma, verðið hefur verið að lækka síðustu ár jafnt innanlands sem utan. Árið 1997 var Ísland gert að einu gjaldsvæði þannig að mismunur á verði símtala innan eða utan svæða var afnuminn. Gjaldskrárbreytingarnar voru á þá leið að verð á dagtaxta milli svæða lækkaði úr 4,15 krónum mínútan í 1,56 krónur en innan svæða hækkaði verðið úr 1,11 í 1,56 krónur.


Farice – nýr sæstrengur frá Íslandi


Fram til ársins 1994 var tenging Íslands við umheiminn í gegnum jarðstöðina Skyggni, en frá þeim tíma hefur sæstrengurinn Cantat-3 tengt Ísland og Færeyjar við umheiminn og gervihnettir verið í hlutverki varastöðvar. Brýn þörf er á öruggari og öflugri tengingu við umheiminn en bandvíddsþörf frá landinu fer sívaxandi. Því hefur verið spáð að þörfin á árunum 2007–2008* verði meiri en Cantat-3 nær að flytja. Þá er rekstur Cantat-3 jafnframt kostnaðarsamur og eignaraðild mjög dreifð sem gerir allar stórar ákvarðanir seinvirkar. Spáin hér að neðan byggist á sögulegum vexti, almennum spám á þessum markaði og áliti sérfræðinga í þessum geira hér á landi.

Landssíminn hf., færeyski landssíminn og íslenska ríkið, ásamt öðrum fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi og í Færeyjum, stofnuðu fyrirtækið Farice hf. í september árið 2002. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins er að leggja nýjan og öflugan sæstreng milli Reykjavíkur, Þórshafnar og Edinborgar. Unnið verður að framleiðslu strengsins fram á mitt ár, en þá hefst lagning hans. Ráðgert er að þjónusta um hinn nýja streng verði komin á um áramótin 2003–2004.