Þjóðhagsleg þýðing ferðaþjónustu fer sívaxandi hér á landi og er greinin nú næststærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar ásamt málmiðnaði, en árið 2002 skapaði hann um 13% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Tekjur af erlendum ferðamönnum voru 37,1 milljarðar íslenskra króna árið 2002, sem er um 70% aukning frá árinu 1997. Því er ljóst að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi þegar ferðamál eru annars vegar.

Stóraukið fé til ferðamála


Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein um allan heim og gera má ráð fyrir auknum vexti greinarinnar á komandi árum. Síðastliðin 10 ár hefur ferðamönnum til landsins fjölgað verulega en reiknað er með að umsvif greinarinnar vaxi að jafnaði um 6% á ári til ársins 2006. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu voru á árinu 2002 tæplega 38 milljarðar.

Aldrei fyrr hefur jafn miklum fjármunum verið ráðstafað til ferðamála og fjárlög fyrir árið 2003 gera ráð fyrir. Fjárlög hafa vaxið umtalsvert á undanförnum árum og í fjárlagafrumvarpi ársins 2003 er gert ráð fyrir á sjöunda hundrað milljóna króna framlagi. Í þeirri tölu er ekki reiknað með stórum liðum eins og til að mynda tæplega 350 milljóna króna styrkjum til ferja og sérleyfishafa eða styrkjum til innanlandsflugs sem nema rúmlega 130 milljónum króna. Engum dylst að hér er um að ræða styrki sem styðja verulega við vöxt og viðgang ferðaþjónustu um land allt. Til samanburðar má nefna að árið 1999 var framlag til ferðamála um 190 milljónir króna.