Með breytingum á kjördæmaskipan falla saman Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra að Siglufirði undanskildum. Þetta nýja kjördæmi er mikið og stórt landsvæði og um langan vega að fara milli byggða fyrir þingmenn til að sinna umbjóðendum sínum og kynna sér aðstæður þeirra.
Víða má finna beyg í fólki vegna þessara breytinga og kvíða íbúar að samband þingmanna og kjósenda verði takmarkað. Því er mikilvægt strax í upphafi að skipuleggja vandlega hvernig hægt er að tryggja best hagsmuni fólksins og auðvelda þingmönnum starf sitt í þessu kjördæmi, sem svo mjög hefur átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Fólksfækkun hefur verið í norðurhluta kjördæmisins og hefur fólki fækkað um 2784 frá 1990 til 2002. Í meðfylgjandi súluriti má sjá íbúaþróun kjördæmanna sem nú falla saman í eitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Þess má geta að í mannfjöldatölum fyrir Norðurlandskjördæmi vestra eru dregnar frá tölur fyrir Siglufjörð. Græni liturinn sýnir fólksfjölda árið 1990, sá rauði árið 1995 og blái árið 2002.