Þegar fólk velur sér leið til að tengjast Internetinu er það yfirleitt hraðinn sem ræður mestu um valið. Hann ræðst af fjölda samverkandi þátta, eins og til að mynda bandvídd notandans, fjölda samtímanotenda, bandvíddar stofnnets þjónustuaðilans, vinnsluhraða og stærð vefþjóns sem notandi sækir gögn frá. Hér á landi eru ýmsar leiðir færar til að tengjast Internetinu. Þar mætti nefna hefðbundið upphringisamband og ISDN, einnig er hægt að velja nokkrar leiðir til að vera með háhraðatengingu með því að notast t.d. við DSL-tæknina, en fram til þessa hefur ADSL staðalinn mest verið notaður. Þá er hægt að tengjast með því að nota ljósleiðara eða í gegnum gervihnött.

ADSL-notendum hefur fjölgað mjög hratt hérlendis frá því að þjónustan kom hér á markað árið 1999 og í byrjun árs 2003 voru notendur með slíka tengingu á milli 22 og 23 þúsund. Í gegnum tíðina hafa Íslendingar verið fljótir að tileinka sér tækninýjungar og fjarskiptanotkun þeirra verið með því mesta sem gerist í heiminum, auk þess sem kostnaður er með því lægsta sem þekkist.

 

Samkvæmt skýrslu um norræna upplýsingasamfélagið eru háhraðatengingar algengastar á Íslandi af Norðurlandaþjóðunum eða hjá 65% fyrirtækja en fæstar hjá norskum fyrirtækjum. Aftur á móti voru ISDN-tengingar algengastar í Noregi en fæstir voru með slíka tengingu á Íslandi. Á Norðurlöndunum er algengara að stærri fyrirtæki séu með háhraðatengingu en minni og þjónustufyrirtæki voru jafnframt líklegri en fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum til að nota háhraðatengingu.