Mikil gróska hefur verið á íslenskum fjarskiptamarkaði undanfarin ár og nokkur ný fyrirtæki hafa hafið starfsemi. Um þessar mundir eru það fyrst og fremst tvö farsímafyrirtæki á farsímamarkaðnum sem bjóða alhliða fjarskiptaþjónustu um sín eigin fjarskiptanet. En fjöldi fyrirtækja býður hins vegar upp á sérhæfða þjónustu. Síðustu tvö árin hafa flestir áskrifendur farsíma á Norðurlöndum verið á Íslandi.

Verð á GSM-þjónustu hefur farið lækkandi eftir að samkeppni hófst á fjarskiptamarkaði. Það skýrist annars vegar af því að aukin samkeppni hefur þrýst niður verði og hins vegar af ýmsum tækninýjungum sem hafa minni stofn- og rekstrarkostnað í för með sér. Sama þróun hefur átt sér stað annars staðar í heiminum. Þá hefur verð á símtölum í gegnum fastlínusamband, bæði innanlands og til útlanda, einnig lækkað á undanförnum árum.

Samkvæmt könnun sem unnin var fyrir Íslenska upplýsingasamfélagið og framkvæmd í mars 2001, nota 80,1% af Íslendingum á aldrinum 16–75 ára GSM-síma og 52,3% senda SMS (Short Message Service). Mesta notkunin er hjá aldurshópnum 16–24 ára en í þeim aldurshópi nota um 93,7% GSM-síma og 88% senda SMS-skeyti.

GSM-kerfið hentar fremur illa til gagnaflutninga þar sem það var fyrst og fremst hannað fyrir talsímanotkun. Því er gagnaflutningshraði þess mjög lítill. Flutningsgeta GSM-síma, hefur þó aukist með komu GPRS- og EDGE-staðlanna.