Í gær, laugardag, var sjósett í Lübeck í Þýskalandi ný Norræna. Skipið, sem er um 36.000 tonn að stærð, á að taka við af núverandi Norrænu í mars á næsta ári. Í hófi sem skipasmíðastöðin bauð til í tilefni sjósetningarinnar flutti samgönguráðherra eftirfarandi ávarp.
Góðir gestir,

það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í kvöld. Það er ástæða til að gleðjast á degi sem þessum, þegar sjósett er jafn glæsilegt skip og við sáum í dag.

Þetta nýja skip er til marks um þá miklu trú á samskiptum þjóða okkar og þá miklu bjartsýni sem ríkir í herbúðum Smyril Line á þessu verkefni sem ferjusiglingar á milli landa okkar er. Sem ráðherra ferðamálin og siglinga fagna ég þessu framtaki.

Með því að ráðast í þessa miklu og dýru fjárfestingu er verið að horfa til framtíðar fyrir ferðaþjónustu á öllu því svæði sem Smyril Line þjónar.

Hið nýja skip mun án efna efla íslenska ferðaþjónustu enn frekar, en vöxtur hennar hefur verið mikill og stöðugur undanfarin ár. Því skiptir miklu, að innviðirnir vaxi í takt hver við annan. Nýtt skip krefst mikillar fjárfestingar á landi. Nú er unnið hörðum höndum að miklum og dýrum endurbótum á hafnaraðstöðunni á Seyðisfirði og miklar vegabætur hafa verið gerðar þar að undanförnu – svo ekki sé minnst á fyrirhuguð jarðgöng sem enn efla möguleika ferðaþjónustunnar á svæðinu.

Góðir gestir,

fyrir hönd íslenskra samgönguyfirvalda og fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu óska ég Smyril Line, öllu starfsfólki og áhöfn, til hamingju með þennan stóra dag í sögu félagsins. Á Ísland bíðum við spennt eftir því að taka á móti nýrri ferju í Seyðisfirði á næsta ári!